c

Pistlar:

1. júlí 2013 kl. 16:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fátækt eða lágtekjumörk

Hér hefur í fjórum undanförnum pistlum verið reynt að bregða ljósi á fátækt í heiminum og hvaða breytingar þar eru að verða. Það er ekki síst gert í ljósi þeirra metnaðarfullu markmiða sem sett voru frumkvæði Sameinuðu þjóðanna, þúsaldarmarkmiðanna svokölluðu, (Millennium Development Goals, MDGs). Þar ákváðu leiðtogar heimsins að reyna að taka á þeim mikla vanda sem blasti við jarðarbúum vegna sívaxandi mannfjölda og að því er virtist, aukinnar óvissu um lífsskilyrði vaxandi fjölda fólks. Það sem var líklega mikilvægast við þúsaldarmarkmiðin að þau voru sett fram með nákvæmlega skilgreindum hætti og sett á þau mælanleg viðmið. Ban Ki-Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, er væntanlegur til landsins í kvöld og mun dvelja hér á landi fram á miðvikudag. Hann hefur barist hart fyrir framgangi þúsaldarmarkmiðanna og því tímabært að rifja þau upp.

ban_ki-moon_portrait

Þúsaldarmarkmiðin voru:

1. Eyða fátækt og hungri.

2. Öll börn njóti grunnskólamenntunar árið 2015.

3. Vinna að jafnrétti kynjanna og styrkja frumkvæðisrétt kvenna.

4. Lækka dánartíðni barna.

5. Vinna að bættu heilsufari kvenna.

6. Berjast gegn alnæmi, malaríu og öðrum sjúkdómum sem ógna mannkyninu.

7. Vinna að sjálfbærri þróun.

8. Styrkja hnattræna samvinnu um þróun.

Baráttan við fátækt og hungur var þar lykilatriði. Mönnum þótti ekki ásættanlegt að um leið og margvíslegar framfarir voru víða um heim skyldi ekki takast að tryggja stórum hluta jarðarbúa ásættanleg lífsskilyrði. Fátækt er hins vegar hugtak sem krefst nákvæmrar skilgreiningar en oft hafa huglæg viðmið mótað viðhorfið til þess. Fátækt finnst vissulega í öllum þjóðfélögum. Í löndum þar sem reynt er að reka velferðarkerfi er fátækt oft bundin við veikindi og andlega erfiðleika. Jafnvel þó úrræði séu til staðar eiga viðkomandi erfitt með að nýta sér þau.

Hér á Íslandi er öðru hvoru umræða um fátækt enda má segja að öll lönd reyni að meta hvernig íbúunum gengur að lifa því sem mæti kalla mannsæmandi lífi. Slík umræða verður oft pólitískt og á ekki endilega mikið sameiginlegt með úrlausnarefnum þróunarlandanna þar sem fólk berst við að lifa af frá degi til dags. Því verður umræða oft um lágtekjumörk fremur en beinlínis fátæktarmörk. Þegar horft er til þúsaldarmarkmiðanna, sem hér voru nefnd að framan, þá má segja að þeim sé öllum náð hér á landi, í það minnsta samkvæmt þeim skilgreiningum sem SÞ settu upp. Ban Ki-Moon er því að heimsækja land sem hefur allt til alls samkvæmt skilgreiningu SÞ. Það þýðir þó ekki að allt sé eins og það eigi að vera hér á landi.

Fátækt eða lágtekjumörk

Í skýrslu sem Samstarfshópur um betra samfélag skilaði frá sér í október á síðasta ári kom fram að endurteknar mælingar síðustu átta ára hér á landi, sýna að um 9-10% landsmanna hafa tekjur sem eru undir skilgreindum lágtekjumörkum og teljast því eiga á hættu að búa við fátækt eins og segir í skýrslunni. Þar sagði einnig: „Fátækt er raunveruleg í íslensku samfélagi þótt mismunandi sé hvernig hún birtist á hverjum tíma. Þekkt er að einstakir hópar samfélagsþegna búa að jafnaði við erfiðari stöðu en aðrir. Dæmi um slíka hópa eru þeir sem misst hafa atvinnu eða af öðrum ástæðum eru utan vinnumarkaðar."

Í skýrslunni er vitnað til þess að lágtekjumörk voru 153.600 krónur í ráðstöfunartekjur árið 2011 fyrir einstakling sem bjó einn hér á landi. Það jafngildir um 42 Bandaríkjadölum á dag. Í þróunarlöndunum er sárasta örbirgðin (exstreme poverty) þannig að fólk eyðir öllum tíma sínum í að reyna að afla sér matar. Viðmiðið er 1,25 Bandaríkjadalir á dag eða 33 sinnum minna en lágtekjuviðmiðið hér á Íslandi. Segja má að Íslendingar hafi ekki losnað úr viðjum sárustu örbyrgðar fyrr en þegar kom fram á 20. öldina. Frásagnir eru um að börn hafi látist úr hungri á Íslandi fram að fyrri heimsstyrjöldinni. Fróðlegt væri að bera það saman við þróunina annars staðar en árið 2010 var svo komið að Ísland var með lægsta hlutfall íbúa undir lágtekjumörkum eða í hættu á félagslegri einangrun vegna fátæktar meðal Evrópulanda.

En þó að hungurvofunni hafi verið bægt frá þá lýkur aldrei umræðunni um fátækt og sjálfsagt er skilgreining hennar og þá ekki síður úrræði við henni pólitísk hitamál. Það fellur auðvitað undir einhverskonar kaldhæðni en forvitnilegt var að lesa um það nýleg að íslenskur doktorsnemi í siðfræði við Háskóla Íslands hefði ákveðið að fara í árs námsleyfi til Kaliforníu, sjötta ríkasta hagkerfis heims, til að ljúka doktorsverki sínu um fátækt. Þar hyggst hann meðal annars glíma við spurninguna um  „viðundandi velferð og áhrif fátæktar á fólk og ástæður fátækar og hvernig við getum útrýmt fátækt," eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins. Fátækt er þannig undarlegt fyrirbæri; á meðan sumir virðast ekki geta umflúið hana verða aðrir að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að finna hana! Og það til Kaliforníu en hugsanlega hefur viðkomandi haft Þrúgur reiðinnar eftir John Steinbeck í huga.

Frekar horft til næringar en tekna

Að skilgreina fátækt er mikilvægt en um leið vandasamt. Segja má að hin alþjóðlegu viðmið séu í stöðugri þróun, ekki síður en þau íslensku. Frá árinu 2010 hefur verið notast við MPI vísitöluna sem vísar í mælikvarða til greiningar á fátækt. Með nýju vísitölunni var reynt að taka fleiri atriði með í reikninginn en tekjur. Þannig er reynt að ná utan um fátæktarviðmið, meðal annars með því að horfa til næringar og menntunar. Vísitalan kallast „The Multidimensional Poverty Index (MPI)" og hefur verið þróuð af Oxford háskólanum og UNDP, Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna. MPI leysti af hólmi Human Poverty Index sem tók meira til tekjuviðmiða og kom fyrst fram 1997.

Greining á fátækt með MPI viðmiðum staðfestir að sárafátækt er á hröðu undanhaldi í heiminum. Þau atriði sem MPI útreikningar á fátækt byggjast á eru næring, barnadauði, aldur og viðvera í skóla, orkugjafar til eldunar, vatn, hreinlæti, aðgengi að rafmangi og aðgangur að húsnæði. Það er sannarlega gleðilegt ef þessi nýju viðmið sýna okkur betur hið sanna ástand heimsins, ekki síst ef það er að batna þrátt fyrir allt.