c

Pistlar:

27. september 2013 kl. 8:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sæstrengur virðist áhugaverður kostur

Á það hefur verið bent á í nokkrum pistlum á þessum vettvangi að Íslendingar hljóti að skoða mjög alvarlega möguleika og ávinning af því að leggja sæstreng frá Íslandi til Evrópu. Um er að ræða mikla framkvæmd og eðlilegt að skoða hana vel. Landsvirkjun hefur undanfarin misseri sett aukinn kraft í skoðun á þessum möguleika og byggt upp talsverða þekkingu á þessu sviði. Nú síðast kom skýrsla sem unnin var af sérfræðingum Gamma verðbréfa- og ráðgjafarfyrirtækisins. Sú skýrsla ætti ekki að draga úr áhuga manna.

Staðreyndin er sú að með sæstrengjum fer nú fram mikið starf við að tengja saman orkukerfi ólíkra landa sem getur skapað mikið hagræði. Því ólíkari sem orkuuppsprettan er í hinum einstöku löndum því meira hagræði er af samtengingu. Noregur tengdist Hollandi beint með sæstreng í maí árið 2008. Sá strengur hefur 700 MW flutningsgetu og er nú sá lengsti í heimi eða 580 kílómetra langur. Í skýrslu Gamma er bent á að raforkuvinnsla Noregs kemur að mestu frá fallvötnum og er því háð úrkomu. Ef Noregur væri einangrað og sérstætt orkukerfi þyrfti ávallt að tryggja að nægilegt vatn væri til staðar til þess að skapa orku, jafnvel í hinum þurrustu árum. Umframorkan hleðst upp. „Þessi þörf fyrir umframorku hlýtur að sníða þröngan stakk fyrir aflgetu virkjana og þá jafnframt að orka tapist sem yfirfall á virkjunarlónum ef vatnsárin eru betri en í meðallagi. Með samtengingu við önnur svæði minnkar þessi orkuþurrðaráhætta verulega og í kjölfarið er hægt að auka aflgetu virkjananna og nýta það vatn er áður rann á yfirfalli til sjávar án þess að skila raforku. Tengingin við Holland skapar því bæði mikið öryggi fyrir Noreg og gerir þeim kleift að selja varaaflið þar til þeir þurfa á því að halda," segir í skýrslu Gamma. Þessi orð gætu eins átt við um íslenska orkumarkaðinn.

sæstrengur

Mikil áform um sæstrengi

Eins og áður segir er framþróun á þessu sviði hröð og bæði markaðslegar og ekki síður tæknilegar forsendur ýta á eftir samtengingu markaða. Má þannig benda á að reynslan af sæstrengnum til Hollands hefur verið það góð að Norðmenn hafa þegar lagt drög að nokkrum nýjum strengjum. Á síðustu árum hefur nokkur fjöldi af nýjum strengjum verið lagður á milli landa í Evrópu og fjölmargir til viðbótar eru í þróun. Margir slíkir strengir liggja á hafsbotni um víða veröld og eru þó nokkrir til staðar við Bretland og Skandinavíu. Einn elsti sæstrengur Evrópu er frá 1986 og liggur á milli Bretlands og Frakklands en sá lengsti, hinn 700 MW NorNed strengur, var lagður á árunum 2005-2008 um 580 km vegalengd á milli Noregs og Hollands eins og skýrsla Gamma rekur. Sem dæmi um þann mikla vöxt sem er í lagningu sæstrengja má nefna að í apríl 2011 var um 270 km langur strengur tekinn í notkun á milli Bretlands og Hollands er ber nafnið BritNed og er 1.000 MW að stærð. Reynslan af þessum streng hefur verið það góð að nú hefur verið tilkynnt um lagningu tveggja nýrra slíkra strengja: Annars vegar er um að ræða 570 km langan streng á milli Noregs og Þýskalands með 1.400 MW flutningsgetu sem áætlað er að verði kominn í notkun árið 2018 og hins vegar 720 km langan streng á milli Noregs og Bretlands, einnig með 1.400 MW flutningsgetu sem áætlað er að verði tekinn í notkun árið 2020. Strengirnir verða því með árunum fleiri, lengri, áreiðanlegri og ódýrari.

Margföldun á verði

Þessi áform gera það að verkum að gera má ráð fyrir að fjárfestar fari að huga að rekstri og lagningu sæstrengja í auknum mæli um leið og búast má við ásókn eftir orku frá Íslandi. Í dag kaupa álver um 75% af allri orku sem verður til hér á landi og greiða fyrir það um 40 milljarða króna. Þeir samningar sem þar voru gerðir mótast af því að ekki var fleiri kaupendum til að dreifa. Í ljósi þess að breska stjórnin hefur tilkynnt að hún sé tilbúin að greiða 95-150 bresk pund á MWst fyrir endurnýjanlega orku þá blasir við að íslensk orkufyrirtæki gætu fengið 5 til 7 falt hærra verð erlendis auk þess sem samningsstaðan gagnvart áliðnaðinum gæti breyst. Álfyrirtækin hafa reynst mikilvægur þáttur í atvinnusögu Íslendinga en það er augljóslega til bóta að bæta samningsstöðuna gagnvart þeim og minnka hlutfall orkukaupa þeirra. Þó ekki nema vegna þess hljóta menn að horfa til þess að skoða lagningu sæstrengs.