c

Pistlar:

16. nóvember 2013 kl. 15:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Myndin af Kára

Í fyrsta skiptið sem ég hitti Kára Stefánsson þá var það til að taka viðtal við hann í Viðskiptablaðið. Tilefnið var að nefnd á vegum blaðsins hafði ákveðið að velja hann frumkvöðull ársins. Kári byrjaði viðtalið á að segja að honum fyndist þetta óverðskuldað, hann væri í raun ekki búinn að gera neitt ennþá. Það endurtók hann við verðlaunaafhendinguna. Allt tal um afrek hans eða deCODE væri því ótímabært. Þannig hefur Kári oftast talað, félagið væri hingað komið til að framkvæma rannsóknir á sviði mannerfðafræði. Hugsanlega væri ferðin merkilegri en endastöðin. Þetta væri sannkölluð þekkingaleit eins og á við um flestar vísindarannsóknir.

Fyrst þegar spurðist að Kári væri á leiðinni hingað til landsins með hundruð miljóna Bandaríkjadala í farteskinu vaki það gríðarlega athygli. Slík fjárfesting var óþekkt hér á landi og fæstir vissu neitt um það rannsóknarstarf sem átti að fara af stað. Fljótlega kom í ljós að Kári var ekki allra, sérstaka athygli vaki hve mörgum í læknasamfélaginu virtist vera uppsigað við áformin. Þeir höfðu sig enda mest í frammi. Sú andstaða magnaðist þegar gagnagrunnsmáli fór af stað. Um starfsemi deCODE og síðar Íslenska erfðagreiningu hefur alltaf staðið mikill styr, stundum að því er virðist eingöngu vegna persónu Kára.

Ef maður veltir því fyrir sér hvernig íslenskt samfélag hefði brugðist við ef annar litríkur einstaklingur, sem hafði getið sér gott orð í útlöndum, tökum Björk Guðmundsdóttur sem dæmi, hefði allt i einu komið til landsins með erlent áhættufé og sagst ætla að skapa tónlist fyrir heimsbyggðina. Fljótlega hefðu hundruð íslenskra tónlistarmanna verið ráðnir til starfa og laun og kjör langt umfram það sem þeir höfðu fengið að kynnast áður. Ætlunin væri að semja mikið af metsölulögum. Þegar upp var staðið gekk það ekki eftir, mikið af nýjum laglínum hafði orðið til en engin metsölulög. Samt vissu allir að tónlistarheimurinn yrði ekki samur. Er þetta dæmi svo fjarri lagi? Fellur rannsóknarstarf eins og það sem unnið er hjá Íslenskri erfðagreiningu ekki undir það sem svo margir vilja kalla skapandi greinar? Þessar greinar sem hampað er í tíma og ótíma og taka öðrum störfum fram, sem eru væntanlega síður skapandi. Vitaskuld gleymist að skapandi fólk lifir ekki án þess að við almúginn höfum nóg handa á milli til að kaupa afurðir þeirra. Er svona líking út í bláinn? 

Rekstrarleg óvissuför

Það er hægt að nálgast starf Kára Stefánssonar og Íslenskrar erfðagreiningar með margvíslegum hætti. Það er hægt að rekja sig áfram í gegnum óvissan fyrirtækjarekstur og brostnar vonir fjárfesta. Það er líka hægt að rýna í það gríðarlega vísindastarf og þá miklu þekkingu sem þarna hefur verið kölluð fram. Líklega er ekki á neinn hallað að segja að þarna sé kröftugasta rannsóknarstofa landsins og jafnvel þó víðar væri leitað. Fyrirtækjareksturinn og fjármögnun hans hefur oftar en ekki dregið dám af því umhverfi sem hefur ríkt á hverjum tíma. Þegar bjartsýni er mikil vilja fjárfestar stökkva á vagninn og síður þegar svartsýni ríkir.

IE
Á tímabili ríktu miklar væntingar til líftæknifyrirtækja um allan heim. Fá stóðu undir því þegar upp var staðið en sumir græddu þó og víða varð til þekking sem nýttist á öðrum vettvangi. Stjórnendum Íslenskrar erfðagreiningar hefur tekist að halda lífi í hugmyndinni að baki rekstrinum þó þeir hafi á hverjum tíma orðið að aðlaga sig væntingum fjárfesta. En vinna starfsmenn fyrirtækisins að merkilegum rannsóknum og mikilvæg þekking hefur orðið til á margvíslegum sviðum. Íslenskir vísindamenn hafa fengið einstakt tækifæri og miklum fjölda fólks hefur auðnast að vinna áhugaverða vinnu fyrir laun sem hafa verið talsvert hærri en bjóðast að jafnaði hér á landi. Íslenskt samfélag hefur fengið það margfalt til baka sem í þetta félag hefur verið lagt og enn í dag er það að greiða laun langt umfram meðallaun í landinu, rekið fyrir erlent áhættufé. Að stilla upp yfirlitsmynd af fyrirtækinu eins og var gert fyrir stuttu, án þess að geta þess, er villandi.