c

Pistlar:

23. nóvember 2013 kl. 15:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Slys í vændum á Slippsvæðinu?

Undanfarið hef ég átt því láni að fagna að starfa niðri í miðbæ. Í byrjun ákvað ég að notast sem mest við almenningssamgöngur og auka göngutúra. Mest labba ég þó Laugaveginn. Þó götumyndin sé ansi fjölbreytt og á köflum ósamstæð er margt sem hrífur. Mest þó virðuleg eldri hús með sögu. Ósjálfrátt leiðir gangan til þess að menn byrja að velta fyrir sér hvernig hús falli best að bæjarmyndinni og hvaða skipulag henti best. Sundurleitni getur verið skemmtileg, sérstaklega þegar húsin eru ekki mjög stór, stór hús gera jú allt skipulag erfiðara. Víða eru skipulagsslysin en verst eru þau sem skilja eftir byggingar úr tengslum við umhverfið. Á norðanverðu Lækjartorgi er slíkt hús áberandi, svart og drungalegt og úr takt við þá bæjarmynd sem maður vildi sjá. Hinum megin á torginu eru ný hús í gömlum stíl sem hafa þegar náð hylli borgarbúa. Maður veltir strax fyrir sér af hverju er ekki haldið áfram að reisa slík hús, jafnvel rífa ljóta kumbaldann og loka Lækjartorgið af með slíkri þyrpingu og ramma þar inn lítið torg þar sem aðkoman væri þröng. Heildarmyndin eins og hún lítur út séð frá Laugaveginum og niður myndi ekki skaðast við þetta, gæti menn þess að hafa húsin ekki of há.

Þrátt fyrir að sveitarstjórnum séu stöðugt falin fleiri verkefni þá er eins og skipulagsmál vegi hvað þyngst, ekki hvað síst í Reykjavík. Flugvallarmálið hefur eðlilega verið fyrirferðamikið þó margt bendi til þess að með tíð og tíma muni það leysast af sjálfu sér um leið og minni og minni þörf verður fyrir flugvöllinn. Meðal annars vegna bættra samgangna um landið. Það er ekkert sem segir að Reykvíkingar geti ekki beðið - hins vegar má vel huga að því að breyta ýmsu varðandi flugvöllinn og hefur til dæmis Ómar Ragnarsson greint frá áhugaverðum hugmyndum þar að lútandi, hugmyndir sem geta komið til móts við þarfir beggja hópa, þeirra sem vilja að völlurinn verði og þeirra sem vilja að hann fari. Verðmæti byggingalandsins réttlætir fyllilega að ráðast í uppfyllingar vegna flugvallarins þó þær séu ekki eins stórkostlegar og Hrafn Gunnlaugsson kynnti í eina tíð.

slippur

Slys í vændum á Slippsvæðinu?

Það sem veldur mestum áhyggjum nú er skipulag á svokölluðu Slippsvæði. Þar er augljóst að ráðandi aðilar í skipulagsmálum átta sig ekki á hvaða tækifæri þeir hafa í höndunum. Svæði er liggja að vatni eða sjó eru einstaklega mikilvæg þegar kemur að skipulagi borga og bæja. Vatnið getur skapað áhugavert samspil og eykur á upplifun og stemmningu svæðisins. Hafandi í eina tíð unnið í þeirri byggingu sem nú hýsir Hótel Marina kemur þessi þróun skemmtilega á óvart. Gömul hafnarsvæði hafa víða gengið í endurnýjun lífdaga og orðið miðpunktur mannlífs. Við sjáum merki þess nú þegar þar sem hvalaskoðunarbátar, veitingastaðir og kaffihús hríslast í kringum eldri starfsemi hafnarinnar. Uppbygging fjögurra til fimm hæða steinhúsa fram á hafnarbakkann vekur ekki eftirvæntingu. Líklegt er að það klippi á þróunina og upphefjist eingöngu af eigin þörfum. Það er eins og menn sjái ekki þá lífrænu þróun sem þarna er að verða. Nær væri að gera eins og íbúasamtök Vesturbæjar vilja og leyfa byggð í takt við þá sem fyrir er og láta hana þróast yfir Mýrargötuna og niður að höfninni. Hús í eldri stíl má vel byggja þétt. Nú þegar sjáum við hvað getur gerst. Við hliðina á húsi því sem áður hýsti Ellingsen er risin illa formaður steinkumbaldi sem gleypir nágrenið. Tilvist hans gerir mann orðlausan.  

Það er gamalt og nýtt undrunarefni að menn skuli ekki enn horfa til þess að flytja eitthvað af gömlu húsunum, sem eru uppi í Árbæ, niður í miðbæ. Þaðan eru þau og þar eiga þau að vera. Safn gamalla húsa uppi í Árbæ er hugmynd sem ekki batnar með árunum og skoða ég þau þó árlega. Hús eiga að hafa líf en ekki vera söfn um sig sjálf. Með uppsetningu þeirra á miðbæjarsvæðinu er hægt að styðja við götumyndina eins og hún er sumstaðar fyrir.

Það er ekki verið að leggjast gegn því hér að ný og stór hús rísi í Reykjavík. Ljóst er að það er hlutskipti Borgartúnssvæðisins og enn er mikil áskorun að láta þá þróun ganga upp. Vonandi að það takist. Miðbær Reykjavíkur er hins vegar takmörkuð auðlind sem ber að umgangast sem slíka.