c

Pistlar:

31. desember 2013 kl. 11:19

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fyrrverandi fjármálaráðherra segir frá

Áhugamenn um stjórnmál fengu talsvert lesefni fyrir þessi jól því tveir fyrrverandi ráðherrar síðustu ríkisstjórnarinnar snöruðu fram bókum auk þess sem fyrrverandi forsætisráðherra er fyrirferðamikil í bók sambýliskonu hennar. Þessi útgáfa er vissulega fagnaðarefni fyrir þá sem lifa og hrærast í heimi stjórnmálanna en nokkra athygli hlýtur að vekja hve litla umfjöllun bækurnar fá í fjölmiðlum og er þá sérstaklega átt við þær fréttanæmu upplýsingar sem þar má finna. Hugsanlega stafar það af því að þær koma allar út á einu bretti og ræna þannig athyglinni hver af annarri.

Bók Steingríms J. Sigfússonar, Frá hruni og heim, fjallar um þann tíma sem Steingrímur sat í stól fjármálaráðherra, frá 2009 til 2013. Vissulega viðburðaríkur tími og er bókin augljóslega skrifuð með það fyrir augum að draga fram viðhorf Steingríms til þessa tíma sem verður án efa að teljast hápunkturinn á stjórnmálaferli hans. Bókin er skráð af Birni Þór Sigurbjörnssyni blaðamanni og er textinn ágætlega lipur. Það tekur hins vegar nokkurn tíma að taka frásagnarmátann í sátt en ýmist er um skráningu höfundar á atburðum að ræða eða tilvitnanir í Steingrím. Stundum er beinum spurningum beint til Steingríms sem svarar þá eins og ef um blaðaviðtal væri að ræða. Fyrir vikið verður talmálsstíll á frásögninni sem spillir fyrir því ekki er hægt að tala um viðtalsbók í hefðbundnum skilningi þess orðs. Á einstaka stað er vitnað til minnispunkta Steingríms en hvorki er að sjá að þeim hafi verið haldið saman með skipulegum hætti né að úrvinnslan sé heildstæð. Allt virkar það heldur tilviljunarkennt. Freistandi er að bera það saman við dagbókarfærslur fyrrverandi utanríkisráðherra sem tjáir sínum lesendum að hann hafi skráð þær með kerfisbundum hætti og eru þær uppistaðan í bók hans. Þar hafa reyndar birst vandræðalegar missagnir sem draga úr trúverðugleika dagbókarfærslanna en það er önnur saga.

hrun og heim

Í stjórn eftir átján ára hlé

Fyrsta hreina vinstri stjórnin tók við af minnihlutastjórn sem sat frá febrúar til maí 2009 og átján ára veru Steingríms utan ríkisstjórnar lauk þar með. Margir höfðu talið að hlutskipti Steingríms væri að vera í stjórnarandstöðu og tala mest allra á þingi ár eftir ár. Segja má að atvik hafi hagað því þannig að stjórnin starfaði lengst af kjörtímabilinu sem minnihlutastjórn og þess sjást víða merki þó Steingrímur fari ekki djúpt í þær samningaviðræður og málamiðlanir sem þurfti að ráðast í. Hann lýsir stöðu mála innan VG ágætlega á bls. 197: ,,Ríkisstjórnir á hverjum tíma þurfa auðvitað að búa við gagnrýni, og jafnvel óvægna gagnrýni, frá stjórnarandstöðu. Fátítt er að ríkisstjórnir hafi þurft að þola harða stjórnarandstöðu úr eigin þingliði og enn fátíðara að stjórnarandstöðu sé að finna innan sjálfrar ríkisstjórnarinnar. Sú var hins vegar raunin á kjörtímabilinu 2009-2013. Ögmundur Jónasson gekk úr ríkisstjórn, Jón Bjarnason vann á stundum gegn stefnumálum stjórnarinnar og nokkrum sinnum greiddu þingmenn VG atkvæði á þingi gegn stjórnarfrumvörpum. Á kjörtímabilinu gengu fjórir þingmenn VG úr flokknum og einn afsalaði sér þingmennsku."

Líklega er þetta fágæt lýsing á stjórnarsamstarfi en heimilisbölið var mikið í síðustu ríkisstjórn. Mannaskipti voru tíð og stjórnsýslan fór ekki varhluta af því. Ráðherraskipti í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur voru algengari en við höfum séð áður sem Steingrímur telur að hafi einkum helgast af þeim breytingum sem gerðar voru á skipan stjórnarráðsins. Alls sátu fimmtán manns í stjórninni en á starfstíma hennar fækkaði ráðuneytum úr tólf í átta. Þetta er rakið á bls. 229 í kafla sem ber heitið Ný verkefni, nýtt ráðuneyti: ,,Dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti urðu að innanríkisráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti urðu að velferðarráðuneyti og loks urðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, málefni auðlinda fluttust til að mynda í umhverfisráðuneyti og hluti verkefna efnahags- og viðskiptaráðuneytis í fjármálaráðuneyti."

Þessi lýsing sýnir glögglega þá miklu breytingar sem síðasta ríkisstjórn hugðist ráðast í. Ekki nóg með að hún ætlaði sér að takast á við Hrunið, sem Steingrímur skrifar alltaf með stórum staf, heldur virðist hún hafa ætlað sér að breyta stjórnskipulagi landsins varanlega. Og svo stjórnarskránni í leiðinni!

Bókin skiptist í 15 kafla og formála og eftirmála. Fyrstu fjórir kaflarnir fara í að rekja aðdraganda þess að stjórnarskipti verða í febrúar 2009. Í nýlegri grein í tímaritinu Þjóðmál gerir Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra, samanburð á lýsingum í þessum þremur bókum sem voru nefndar hér í upphafi. Þar skoðar hann mismunandi lýsingar á aðdraganda þess að Samfylkingin gengur út úr ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og myndar minnihlutastjórn með VG. Augljóst er að nokkurs ósamræmis gætir í þeim frásögnum um það hvenær og hvernig minnihlutastjórnin varð til. Verður það verkefni sagnfræðinga og stjórnmálafræðinga framtíðarinnar að greiða úr því.

Nýfrjálshyggja og einkavæðing fá á baukinn

Í öðrum kafla bókarinnar er leitast við að draga fram hugmyndasögulega skýringu á því af hverju verður bankahrun hér á landi. ,,Aðdragandi ófaranna" heitir kaflinn og þar fá nýfrjálshyggjan og einkavæðingin á baukinn. Allt er það þekkt efni af hálfu Steingríms sem sparar sig ekki og ber meðal annars fyrir sig rannsóknarskýrslu Alþingis. Í þeim umræðum sem hafa hér orðið um aðdraganda og eftirmála bankahrunsins nota menn heimtilbúnar skýringar þegar við á og sækja síðan til útlanda skýringar þegar hentar. Skýringar Steingríms eru í þeim anda en hann virðist telja að helstu hagstjórnarmistökin hér á landi hafi verið gerð strax 2003. Og þarf ekki að taka fram að hann var stöðugt að vara við!

Frjálshyggjan fær einnig sneið síðar í bókinni þegar hann gerir upp við hrunið. Á bls. 227 segir: ,,Steingrími er einfaldlega illa við frjálshyggju vegna þess að hann telur þá stjórnmálastefnu skaðlega samfélögum. Þess utan taki frjálshyggjumenn ekki ábyrgð á gjörðum sínum." Í framhaldi þess eyðir Steingrímur nokkru plássi í að útskýra af hverju vinstri menn eru hið ábyrga afl í stjórnmálum. Það er reyndar áhugavert að lesa þegar hann segir að það hafi ekki verið erfitt að skera niður hjá hinu opinbera, það sé nauðsynlegt til að verja velferðarkerfið. Undir það er hægt að taka.

Samstarfið við AGS

Drjúgu plássi er varið í samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Það er fengur að því að fá lýsingar Steingríms á því hvernig það gekk fyrir sig. Ljóst var að það yrði VG erfitt að standa í samstarfi við sjóðinn eins og hann rekur á bls. 71: ,,Þótt Steingrímur hefði metið stöðuna þannig að affarasælast væri að vinna með AGS eins og málum var háttað gilti það síður en svo um alla. Í þingliði VG var fólk sem var allan tímann mjög tortryggið eða meira og minna á móti samstarfinu og var duglegt við að halda þeim skoðunum á lofti. Fóru Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson þar hvað fremst í flokki."

Öllum má vera ljóst að hin praktíski Steingrímur J. Sigfússon ákvað að vinna með AGS og virtist vera orðinn helsti vonarpeningur sjóðsins þegar yfir lauk eins og frægt er orðið. Það var að öllum líkindum farsælt að taka við ráðum og ábendingum frá AGS en það er hins vegar umdeilanlegra hversu náið samstarfið varð. Af samtölum sem pistlahöfundur hefur átt við Lilju Mósesdóttur var það einmitt það sem hún gagnrýndi harðast, að sjóðurinn væri farinn að stýra málum hér á landi of mikið, væri orðin nokkurskonar yfirstjórn landsins. Einnig má velta fyrir ágæti þess að taka við hinum miklu lánum sem fylgdi aðgerðaráætlun AGS. Sem gefur að skilja fylgir þessu gríðarlegur vaxtakostnaður. Margir á hægri væng stjórnmálanna hafa gagnrýnt það ráðsslag enda spurning hve gagnlegur sá gjaldeyrisforði er sem tekinn er að láni. Í raun eru engar skýrar hagfræðikenningar um hve stór gjaldeyrisforðinn á að vera. Sumir segja að þrisvar sinnum innflutningur sé viðmið sem er miklu minna en það sem AGS ráðlagði Íslendingum. Um þetta fjallar Steingrímur ekki í bók sinni.

Í skýrslu AGS í október 2008 var reiknað með að Ísland gæti rétt tiltölulega fljótt úr kútnum, væri rétt að verki staðið. Talið var raunhæft að hagvöxtur yrði 4,5% árin 2011 og 2012 og um 4,2% á þessu ári (í upphafi árs reiknaði Seðlabankinn með 2,1% hagvexti). Endurreisn efnahagslífsins átti að vera lokið í upphafi árs 2013 að mati AGS. Skömmu eftir hrun fjármálakerfisins reiknuðu sérfræðingar sjóðsins með því að Íslendingar gætu notið fullrar atvinnu og stöðugleika á árið 2012. Það gekk ekki eftir og hafði án efa sitt að segja um þá útreið sem ríkisstjórnarflokkarnir fengu í síðustu kosningum.

Icesave-samningarnir

Drjúgu plássi er varið undir Icesave málið í bókinni og er ástæða til að fara yfir það sérstaklega við tækifæri. Forvitni vekur að Steingrímur virðist ekki horfa til hinna afdráttarlaus niðurstöðu sem birtist í dómi EFTA-dómstólsins í upphafi árs. Hann tók af allan vafa um að Íslendingar höfðu lögin sín megin. Pistlahöfundur hefur áður bent á að það var ein aðalstaðhæfing samningarnefndarmannanna Indriða Þorlákssonar og Svavars Gestssonar að það hafi í raun verið komin samningur í október 2008, og þeir hafi alltaf verið að vinda ofan af því. Indriði tjáði undirrituðum það þegar unnið var að bók um Icesave-samninganna árið 2011. Hann sagði að út frá þessu hafi verið unnið við samningagerðina. Steingrímur er á sömu skoðun og augljóst að þetta spillti gríðarlega samningsaðstöðu Íslands. Það var ekki fyrr en Lee C. Buchheit kom að málum sem menn fóru að hugsa öðru vísi. Steingrímur gefur Buchheit lofsamlega umsögn og þó sérstaklega fyrir það hve faglega hann ,,hanteraði" Bjarna Benediktsson og Sigmund Davíð Gunnlaugsson (bls. 183). Eins og það hafi verið helsta vandamálið í Icesave-samningaviðræðunum.

Eins og áður sagði þá horfir Steingrímur framhjá hinum afdráttarlausu niðurstöðu EFTA-dómstólsins og afgreiðir málið með þessum hætti (bls195): ,,Og að lokum þetta: Hvernig hefði umræðan orðið og jafnvel Alþingiskosningar vorið 2013 farið ef við hefðum tapað málinu að einhverju leyti? Það hlálegasta af öllu er að málið er að leysast af sjálfu sér á grundvelli þeirrar leiðar sem náðist fram með samningum vorsins 2009. Gamli Landsbankinn mun borga Icesave, hverja einustu evru og hvert einasta pund af höfuðstólnum." Þarna horfir Steingrímur algerlega framhjá helsta gagnrýnisatriðinu varðandi Svavars-samninginn. Nefnilega þeirri staðreynd að íslenskir skattgreiðendur áttu að borga vexti af fjármununum sem Bretar og Hollendingar ætluðu að lána okkur svo þeir gætu greitt innistæðueigendum strax. Það eru upphæðir sem munaði um fyrir íslenskt samfélag.

Steingrími verður tíðrætt um dugnað sinn og vissulega hefur vinnudagur hans verið langur og strangur. Hann veit sem er að það er ekki horft til þess, heldur hvernig verkin voru unnin, hvaða lausnir fæddust og hvaða árangur náðist. Máltækið, betur vinnur vit en strit, segir okkur að stundum er betra að velta málum fyrir sér og flýta sér hægt. Það hefði líklega verið skynsamlegt í Icesave-málinu og við endurskipulagningu bankakerfisins. Grunnstoðir íslensks hagkerfis voru það sterkar að landið var líklegt til að komast út úr skaflinum, á sumum sviðum vann tíminn með okkur.

Á einum stað talar Steingrímur um ,,ógnartíma" (bls.277). Það er dálítið dramatískt. Þó vissulega hafi umtalsverðir efnahagslegir erfiðleikar steðjað að Íslendingum þá er tæplega hægt að tala um ógnartíma, það dó jú engin vegna bankahrunsins eins og margir hafa orðið til að benda á. En vissulega voru þetta forvitnilegir tímar sem væntanlega á eftir að skrifa margar bækur um til viðbótar. Gott ef Steingrímur hefur ekki gefið í skyn að hann hyggist halda áfram skrifum sínum!