c

Pistlar:

13. janúar 2014 kl. 22:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Velgengni Bláa Lónsins

Það er ekki hægt að segja að val tímaritsins Frjálsrar verslunar á manni ársins í íslensku viðskiptalífi hafi komið á óvart. Uppbygging sú sem hefur átt sér stað í Bláa Lóninu er engu lík og þar á Grímur Sæmundsen, stjórnarformaður fyrirtækisins, stærstan hlut að máli eins og birtist í vali tímaritsins. Frá árinu 1992 hafa rekstraraðilar Bláa Lónsins byggt upp einstakan stað, nánast hvernig sem á hann er litið. Skiptir engu hvort horft er á upplifun þá sem staðurinn býður uppá eða rekstrarlegar forsendur hans. Alls sóttu 635 þúsund gestir Bláa Lónið heim á síðasta ári sem er um 70% þeirra erlendu ferðamanna sem hingað koma.

Rekstur Bláa Lónsins hefur gengið afar vel á undanförnum árum. Rekstrarfélagið skilaði 1,3 milljörðum króna í hagnað eftir skatta á síðasta ári. Hagnaður árið 2012 var um 900 milljónir eftir skatta. Velta síðasta árs var um 5 milljarðar króna og EBITDA-hagnaður um tveir milljarðar króna. Eigið fé félagsins var um 1,6 milljarðar króna í lok síðasta árs. Starfsmenn Bláa Lónsins eru 240 talsins og framundan eru miklar fjárfestingar hjá félaginu.

Mest sótti ferðamannastaðurinn

Frá árinu 2008 hefur Bláa Lónið fest sig í sessi sem vinsælasti og mest sótti ferðamannastaður Íslands. Það er meira afrek en menn grunar og á bak við þann árangur er saga mikillar framsýni og framtakssemi. Menn hafa í gegnum tíðina gantast með að lónið hafi orðið til sem umhverfisslys og víst er að í upphafi sáu fáir fyrir þá möguleika sem þar voru fyrir hendi. Með þrautseigju og einurð hefur tekist að búa til gríðarlega arðsamt félag í kringum starfsemina, félag sem heldur á einu verðmætasta vörumerki landsins í dag. Sú vegferð hefur ekki verið þrautarlaus og rangar ákvarðanir hafa verið teknar. Þau tímabil hafa komið að félagið hefur verið upp á náð og miskunn lánadrottna. Einurð frumherjana og styrkir bakhjarlar hafa hins vegar gert það að verkum að menn misstu ekki móðinn. Enginn sér eftir því í dag.

Þessi staðreynd minnir á að það er síður en svo gefið að nýsköpunar- og frumkvöðlafyrirtæki eins og Bláa Lónið komist á legg. Fjárfestar og aðrir þurfa að sýna slíkum félögum þolinmæði. Nú eru næstum 22 ár síðan Bláa Lónið hóf starfsemi sína og fyrstu 15 árin var félagið rekið með neikvæðri afkomu. Það segir sig sjálft að á þeim tíma er hægt að missa móðinn og einfaldlega gefast upp. Úrtöluraddir voru enda víða.

Eitt af undrum veraldar

Bláa Lónið baðar sig í dag í ljóma vinsælda og fjölda alþjóðlegra viðurkenninga. Tímaritið National Geographic hefur valið lónið sem eitt af 25 undrum veraldar. Það sem er hugsanlega mesta undrið er hve fjölbreytt félagið er. Það er vissulega ferðaþjónustufyrirtæki með öllum þeim fjölbreytileika sem því fylgir. Fyrir utan Bláa Lónið og baðaðstöðuna er þar einnig að finna veitinga- og veisluþjónustu auk þess sem ætlunin er að reisa þar fyrsta fimm stjörnu hótel landsins. Þarna er sömuleiðis að finna lækningaþjónustu og margbreytilega vöruþróun sem að hluta til byggir á því að þróa líftæknivörur. Til að svo megi vera þarf að reka rannsóknar- og þróunarsetur á svæðinu. Því má segja að félagið sé í senn ferðaþjónustu og lækningafyrirtæki og allt þar á milli.

bláa lónið

Getur ævintýrið endurtekið sig með Þríhnjúkagíg?

En uppbygging Bláa Lónsins getur einnig orðið fyrirmynd og áskorun fyrir þá atvinnuuppbyggingu sem við viljum sjá hér í framtíðinni. Hvað ferðaþjónustuna varðar þá hljóta menn að horfa til þess að vinna betur og á skipulegri hátt með þau undur sem hér er að finna. Þar ber fyrst að nefna  Þríhnjúkagíg og þá möguleika sem þar skapast með slíkt undur sem er hér rétt við borgarhlið Reykjavíkur. Er óeðlilegt að ætla að það geti fengið svipaða aðsókn og Bláa Lónið?


Ferðaþjónustan skapar nú meiri gjaldeyri en sjávarútvegurinn og er að verða ein mikilvægasta atvinnugrein landsmanna. Á næsta ári munu um 20 flugfélög fljúga hingað til lands og breska flugfélagið Easy Jet hyggst flytja 125 þúsund farþega hingað á næsta ári sem er um 15% af ferðamannafjölda síðasta árs. Icelandair ætlar að auka sætaframboð sitt um 17% milli ára og svona mætti lengi telja. Miklu skiptir að vinna vel úr þeim spilum sem við höfum og þar er Bláa Lónið sönn fyrirmynd.