c

Pistlar:

10. febrúar 2014 kl. 22:08

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mæjorka norðursins

Engum dylst að ótrúlegir hlutir eru að gerast í íslenskri ferðaþjónustu og þó margir óttist offjárfestingu í greininni virðist ekkert lát vera á ferðamannastraumnum hingað til lands. Er nú svo komið að Ísland er að verða heilsársland, ferðamenn koma á öllum tímum ársins og munurinn milli sumar- og vetrardvalar ferðamanna minnkar stöðugt. Í desember síðastliðnum fóru 41,7 þúsund erlendir gestir frá landinu um Keflavíkurflugvöll, sem er aukning upp á rétt tæp 50% frá sama tíma árið á undan. Vart þarf að nefna að hér er um að ræða langstærsta desembermánuð þegar kemur að fjölda erlendra gesta frá upphafi. Í nýliðnum janúar var einnig ríflega 40% aukning á milli ára og við sem störfum niðri í bæ sjáum umtalsverðar breytingar eiga sér stað í borginni. Nú eru stórir hópar ferðamanna í miðbænum allt árið um kring og bæjarbragurinn er að taka stakkaskiptum. Allir sem þjónusta greinina verða varir við þetta, akstur leigubíla eykst, veitingastaðir eru þéttsetnir og velta í verslunum og afþreyingarfyrirtækjum eykst.  

Milljón ferðamenn árið 2015?

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að árið 2013 er langstærsta ferðamannaár í sögu landsins en þá fóru 781 þúsund erlendir ferðamenn frá landinu um Keflavíkurflugvöll. Jafngildir þetta aukningu upp á um 21% á milli ára, eða sem nemur tæplega 135 þúsund erlendum ferðamönnum. Þetta er hreint ótrúlegar tölur, ekki síst í ljósi þess að gríðarleg aukning hafði verið tvö árin þar á undan, eða um 20% árið 2012 og 18% árið 2011. Þetta jafngildir því að erlendir ferðamenn voru 70% fleiri í fyrra en árið 2010, eða sem nemur 322 þúsund ferðamönnum segir greiningardeild Íslandsbanka. Þetta er umtalsvert meiri fjölgun ferðamanna en þekkist annars staðar. Samkvæmt World Tourism Ranking var aukningin ferðamanna á heimsvísu 4% árið 2012. Vinsælasta ferðamannaland heims, Frakkland, naut 1,8% aukningar en þá sóttu 83 milljónir manna landið heim.

En þessar tölur hér heima segja ekki alla söguna. Í raun komu talsvert fleiri erlendir ferðamenn til landsins en bæta má við þessar tölur þeim fjölda sem kemur hingað til lands með Norrænu sem og um aðra flugvelli. Ferðamálastofa áætlaði að rúmlega 96% erlendra gesta hafi farið um Keflavíkurflugvöll árið 2012, og hafi hið sama verið upp á teningnum í fyrra var fjöldi erlendra gesta 811 þúsund. Þess má geta að í þessum tölum eru ekki meðtaldir þeir farþegar sem koma hingað til lands með skemmtiferðaskipum. Með sömu aukningu ætti milljón ferðamannamarkinu að vera náð 2015. Og ef ekkert lát verður á straumnum getum við náð tveimur milljónum ferðamanna um 2020, rétt eins og forseti Íslands hefur spáð og áður hefur verið fjallað um hér.

Mikil áhrif á efnahag landsins

Þetta hefur vitaskuld umtalsverð áhrif á efnahag landsins og ferðaþjónustan er stöðugt að styrkja sig í sessi meðal undirstöðuatvinnugreina landsins. Benda má á að sá 3,1% hagvöxtur sem mældist á fyrstu 9 mánuðum nýliðins árs var að verulegum hluta drifinn áfram af stórauknum tekjum í ferðaþjónustu, enda var framlag þjónustuviðskipta við útlönd til hagvaxtar 2,0% á tímabilinu samkvæmt því sem greiningardeild Íslandsbanka benti á. Með öðrum orðum lögðu þjónustuviðskipti til tvo þriðju hluta af þeim vexti sem mældist á fyrstu þremur fjórðungum síðasta árs. Jafnframt hefur gengi krónunnar notið góðs af auknu gjaldeyrisinnflæði vegna ferðaþjónustunnar, sem er orðin ein stærsta útflutningsgrein Íslands. ,,Þar er sér í lagi mikilvægt hversu ferðamannastraumur utan háannatíma hefur vaxið mikið undanfarin tvö ár, enda hefur árstíðarsveifla í gjaldeyrisflæði vegna ferðamennsku verið mikil til skamms tíma hér á landi. Aukið gjaldeyrisinnflæði vegna þessa mikla vaxtar ferðaþjónustu hefur raunar vegið upp minnkandi gjaldeyristekjur af útflutningi sjávarafurða og áls, og gott betur," sagði greiningardeild Íslandsbanka.

ferðamenn

Og spárnar gera ráð fyrir umtalsverðri aukningu. Bæði greiningardeildi Íslandsbanka og Arion-banka spá því að erlendum gestum fjölgi verulega á Íslandi. Spárnar hafa verið hógværar og því brugðist í stórum dráttum enda fjölgunin mun meiri en nokkur sá fyrir og nýliðnir mánuðir sýna að ekkert lát er á aukningunni. Líklega má taka af þeim ómakið og spá því að ferðamönnum fjölgi um 15 til 20% á nýhöfnu ári, stöðug aukning í ferðatíðni segir okkur það.

Mæjorka norðursins

En um leið verða landsmenn að fara að svara því hverskonar ferðamannaland vilja þeir hafa hér. Á það hefur verið bent áður hér í pistlum að vandi fylgir vegsemd hverri. Með því að taka við tveimur milljónum ferðamanna erum við farin að taka við sjö sinnum mannfjölda landsins. Það er hlutfall sem við sjáum á stöðum eins og Mæjorka. Til samanburðar má nefna að Írar taka við sem svarar tvisvar sinnum mannfjölda sínum þar sem heimsborgin Dublin gleypir stóran hluta þeirra. Á þessu ári munu ferðamenn að öllum líkindum verða þrisvar sinnum íbúafjöldi hér á landi. Í því mikla ferðamannalandi Danmörku er þetta hlutfall 1,5 sinnum íbúafjöldi, svipað og í Frakklandi. Við Íslendingar stefnum annað en þessar þjóðir.

Nú þegar sjást álagsmerki. Uppbyggingu innviða er ábótavant og vinsælustu staðirnir eru við það að verða ofsetnir. Heimamenn forðast Þingvelli, Gullfoss, Geysir og Landmannalaugar á sumrin. Með aukinni vetrarumferð eykst álag á lögreglu og björgunarsveitir. Fjölgun ferðamanna hefur einnig í för með sér fleiri slys og óhöpp. Vegir landsins meiga illa við auknu álagi, sérstaklega hér nálægt höfuðborginni.

Þá eru ótalið þau áhrif sem ferðamennska hefur á menningu landsins. Aðal verslunargata landsins, Laugarvegurinn, er að taka miklum breytingum, sumt er ánægjulegt en vitaskuld breytast viðskiptahættir. Þar má nú þegar finna nokkrar ,,lunda" búðir. Á einstaka stöðum má sjá undarlegar hugmyndir til að fanga hug ferðamanna, svo sem að reisa tilbúnar veröld með heimagerðum eldfjöllum eða heimsskautagerðum. Við þessar aðstæður er brýnt að huga að menningarminjum landsins. Við vitum að flestir ferðamenn vilja upplifa alvöru hluti rétt eins og landsmenn sjálfir þegar kemur að listum og menningu.

Það er ekki verið að amast við ferðamönnum hér, aðeins benda á að þarna þarf að huga að mörgu í þeim uppgangi sem er framundan. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri sagði á ráðstefnu um ferðamál, fyrir ári síðan að ein mesta áskorun næstu ára væri að tryggja að við gleymum okkur ekki í vextinum og sitjum uppi með slys sem erfitt verður að bæta. „Slys sem hefði áhrif á ímynd, auðlindir, skilaboð sem ferðaþjónustan sendir frá sér og um leið á framþróun greinarinnar sem arðbærs hluta íslensks atvinnulífs." Þetta eru mikilvæg viðvörunarorð.