c

Pistlar:

6. mars 2014 kl. 21:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að afloknu Iðnþingi

Það er alltaf áhugavert að fylgjast með störfum Iðnþings en að þessu sinni fögnuðu þingfulltrúar 20 ára afmæli Samtaka iðnaðarins. Að það skuli ekki vera meira en 20 ár síðan samtökin voru sett á laggirnar vekur furðu en ekki síður sú fjölbreytni sem finna má innan þeirra. Samtök iðnaðarins eru stærstu og öflugustu hagsmunasamtök atvinnurekenda í landinu. Þar má nú finna rúmlega 1200 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda. Þau eru hins vegar mjög ólík innbyrðis, hvort sem litið er til stærðar, framleiðslu eða markaða. Þessi mikla fjölbreytni gerir starfið innan samtakanna í vandasamt þar sem hagsmunirnir geta verið ólíkir en ekki er hægt að segja annað ágætlega hafi tekist til í gegnum tíðina. Það hve ólíkar áherslur eru innan samtakanna sést kannski ágætlega af því að markaðsstjóri matvælaframleiðslufyrirtækis leysti stofnanda hugbúnaðarfyrirtækis af hólmi í kjölfar spennandi formannskosningar.

SI-afmaelislogo

Þingfulltrúar fögnuðu því að fá aftur iðnaðarráðherra á þingið eins og Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, benti á en hann var fundarstjóri. Nafnarugl ráðuneyta undanfarin ár gerir það að verkum að iðnaðarráðherra hefur verið fjarverandi. Nú var hins vegar mætt Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Boðskapur hennar var skýr: Á næstu 20 árum þurfa Íslendingar að skapa 1.000 milljarða í nýjum verðmætum til að mæta þeim áskorunum sem landið stendur frammi fyrir til að standa jafnfætis öðrum þróuðum ríkjum. Máli sínu til stuðnings vitnaði hún í McKinsey-skýrsluna sem kom út á síðasta ári og fjallaði um samkeppnishæfi landsins. Ráðherra sagði að ,,stóra planið" fyrir landið sé að það sé alþjóðlega samkeppnishæft og sagði hún afnám hafta mikilvægt til þess. Um leið lagði Ragnheiður Elín áherslu á að byggja sókn í atvinnumálum á samstöðu.

Rafmagnsöryggi og fríverslunarsamningur við Kína

Orðið plan kom reyndar einnig fyrir í ræðu Guðbjargar Eddu Eggertsdóttur, forstjóra Actavis, en hún beindi sjónum sínum að viðskiptatækifærum alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi, hvað þurfi til að þau vaxi og dafni. Það er viðeigandi að Guðbjörg Edda fjalli um slíkt en ekkert íslenskt fyrirtæki hefur orðið stærra og hún hefur starfað hjá félaginu í þau 30 ár sem það hefur starfað. Þegar litið er til stærðar fyrirtækisins er reyndar hægt að undrast aldurinn en það er nú mjög öflugt, bæði í samheita- og sérlyfjum. Félagið rekur nú 20 þróunarsetur og 40 lyfjaverksmiðjur. Guðbjörg Edda tók undir með ráðherra og sagðist einnig hafa mikið velt fyrir sér McKinsey-skýrslunni. Um leið sagðist hún tala fyrir hönd þess alþjóðlega geira sem skýrsluhöfundum var svo tíðrætt um þegar kom að því að efla hag landsins. Það var margt í ræðu Guðbjargar Eddu sem vakti athygli. Augljóst var að samkeppnishæfni Íslands var ágæt þegar kom að lyfjageiranum en þó má gera betur. Hún nefndi sérstaklega endurbætur á skattkerfinu, alþjóðleg fyrirtæki þyrftu stöðugleika (gera má ráð fyrir að lítil fyrirtæki þurfi þess líka!) og fyrirsjáanleika. Hún sagði að á mörgum sviðum stæði Ísland vel og nefndi sérstaklega öryggi í rafmagnsafhendingu. Var athyglisvert að heyra hana lýsa því að um leið og gengið var frá sameiningu Actavis og Watsons lyfjafyrirtækisins ríkti 10 daga rafmagnsleysi í höfuðstöðvum Watsons í New Jersey í Bandaríkjunum. Guðbjörg Edda sagði að á sama tíma færi rafmagn af í að hámarki 5 mínútur á ári hér á landi. Um leið benti hún á að lyfjaverksmiðja fyrirtækisins væri eina lyfjaverksmiðja í heimi sem væri rekin með 100% endurnýjanlegri orku. Hún sagði að Íslendingar áttuðu sig ekki til fullnustu á mikilvægi þess en erlendum gestum þætti það mikið undrunarefni. Þá kom fram hjá henni að mikil tækifæri fælust í nýlegum fríverslunarsamningi við Kína.

Einnig flutti Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins, erindi um hvað þurfi að gera, að hans mati, til að blása til nýrrar sóknar í atvinnumálum og það sem hann kallaði forsendubreytinguna frá því hann hóf stjórnmálastörf upp úr 1980. Þá flutti Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, fjörugt erindi sem meðal annars fjallaði um sóknarfæri til framtíðar. Öll erindi á þinginu má finna hér

Drifkraftur í iðnaði

Forráðamenn fjögurra ólíkra iðnfyrirtækja sögðu stuttar reynslusögur sem er óhætt að segja að hafi endurspeglað drifkraftinn í íslenskum iðnaði. Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁverks, rakti hvernig stóru byggingaverktakafyrirtæki reiddi af í bankakreppunni en fyrirtækið varð að minnka hratt starfsemi sína á þeim tíma. Aðalheiður Héðinsdóttir, framkvæmdastjóri Kaffitárs, greindi frá því hvernig fyrirtækið hefur vaxið úr lítilli kaffibrennslu í umfangsmikla iðnaðarframleiðslu og veitingaþjónustu. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Kerecis, fjallaði um vöxt í heilbrigðistækni en Kerecis er eitt þeirra fyrirtækja sem hafa þróað vörur úr vannýttu hráefni með nýrri  tækni en það á nú einkaleyfi um nýtingu á fiskroði. Er greinilega mikils að vænta af fyrirtækinu í framtíðinni. Bergsteinn Einarsson, framkvæmdastjóri Sets á Selfossi, sagði frá því hvernig fyrirtækið hefði lagað sig að breyttum aðstæðum í áranna rás með því að leggja áherslu á hátt tæknistig, framleiðni og gæðavitund. Innanlandsmarkaður hrundi og stjórnendur félagsins sóttu á erlenda markaði með ágætum árangri. Bergsteinn er þekkur stuðningsmaður ESB-aðildar og farsæll stjórnandi en hann benti á það í erindi sínu að Íslendingar kynnu ekki að nýta regluverkið til að verja heimamarkaðinn.