c

Pistlar:

3. maí 2014 kl. 14:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Með vindinn í fangið

Fyrir stuttu ók pistlaskrifari í gegnum norðurhéruð Bretlands. Það sem vakti mesta athygli voru vindmyllur þær sem búið var að reisa nánast upp á öllum hæðum á leiðinni á milli Glasgow og Manchester. Nú er það reyndar svo að vindmyllur eru oftast við sjó því þar þykir vindur hvað stöðugastur en engu að síður virðast allar hæðir í Bretlandi vera þaktar þeim í dag. Landslagið hefur fyrir vikið tekið stórkostlegum breytingum. Svo mjög að það sker í augu þeirra sem sjá þetta í fyrsta sinn.

Margir horfa til vindmylla sem mikilvægs kosts í orkumálum og Landsvirkjun hefur meira að segja gefið út að vindurinn verði þriðja stoðin undir orkuvinnslu fyrirtækisins ásamt vatnsorku og jarðvarma. Landsvirkjun  er nú að byggja upp þekkingu á greininni og hefur reist tvær vindmyllur á Hafinu fyrir ofan Búrfell. Fleiri vindmyllur eru fyrirhugaðar en vindmyllurekstur Landsvirkjunar gengur enn út á að rannsaka nýtnihlutfall og öðlast reynslu á rekstri við íslenskar aðstæður með tilliti til ísingar, skafrennings, ösku- og sandfoks, umhverfis- og samfélagsáhrifa. Þetta er í fyrsta sinn sem hagkvæmni raforkuvinnslu með vindorku er könnuð hér á landi. Nú er eitt rekstrarár að baki og samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun benda allar niðurstöður til þess að aðstæður á Íslandi séu óvenjuhagstæðar fyrir raforkuvinnslu úr vindorku. Eftir tæplega eitt ár í rekstri hefur meðalnýting vindmyllanna verið um 40%. Til samanburðar er meðalnýting á heimsvísu 28%.

Með tímanum mun Landsvirkjun væntanlega afla sér þekkingar á þessum orkugjafa eins og félagið hefur gert með vatnsorku og jarðvarma. Vindorka er ótraustari en þessir tveir orkugjafar því hún ræðst eðli samkvæmt að nokkru af því hvernig vindurinn blæs. Hugsanlega má samtvinna hana núverandi miðlunarkerfi og nýta hana til að fylla vatnslónin sem í dag eru besta leiðin til að geyma orku. Vindorka er að mestu afturkræf því einfalt er að rífa vindmyllur kjósi menn það. Eins og segja má að loftlínur séu afturkræfari en jarðlínur. Reyndar er umræða um afturkræfni alltaf þeim annmörkum háð að sínum augum lítur hver silfrið og tímaþátturinn gegnir þar stærstu hlutverki. Ljóst er að stíflur og önnur mannvirki má rífa og að endingu mun náttúran vinna sitt verk.

vindur

Ekki gallalausar

En vindmyllur eru ekki gallalausar. Fyrir það fyrsta eru rafmagn sem fæst með vindmyllum enn dýrt. Það segir sig sjálft að orka sem sótt er með því að reisa vindmyllur úti í sjó er gríðardýr. Árið 2007 var áætlað að stofnkostnaður eins MW frá vindmyllu væri um 1,2 milljónir evra. Talið er að það verði komið niður fyrir 800 þúsund evrur árið 2025. Í dag er á milli 80 og 90% af vindmylluorku heimsins framleidd í Evrópu. (Fracking og aukin nýting leirgass í Bandaríkjunum hefur án efa hægt á nýtingu orku frá vindmyllum þar.) Þá eru vindmyllur dýrar í uppsetningu og viðhald þeirra er kostnaðarfrekt. Talsverð hávaðamengun fylgir vindmyllum þó að ný hönnun á spöðum geri sitt besta til að draga úr því. Þá er ógetið áhrifa þeirra á fugla- og dýralíf. Í Kaliforníu hafa vindmyllur nánast útrýmt staðbundnum arnarstofnum og ljóst að þær höggva stór skörð í einstaka stofna fugla. Sumstaðar hafa þær einnig verið skeinuhættar leðurblökum.

Á þetta er bent hér því margir virðast telja að vindmyllur séu gallalaus lausn á orkuvandamálum heimsins. Vissulega er það ekki svo. Þær eru dýrar og umhverfisspillandi. Í sumum tilvikum mun tíminn vinna með þeim. Það hve mikið er sótt í þær gerir að verkum að gríðarlegum fjármunum er varið í þróun þeirra og því er spáð að hagkvæmni þeirra aukist, vegna betri nýtingar á orku og lækkunar framleiðslukostnaðar. Þar eins og annars staðar mun tækniþróun færa okkur nýjar lausnir. Vissulega hefði verið hægt að verja þeim fjármunum í aðrar lausnir sem einnig hefðu geta nýst til lausnar á orkuvanda heimsins en um það þýðir ekki að ræða. Uppsett afl vindorku í heiminum er nú yfir 3% af allri raforkunotkun, eða 318 GW, og með hröðum tækniframförum verða vindmyllur sífellt hagkvæmari. Alþjóðlegu vindorkusamtökin spá því að uppsett afl frá vindmyllum muni tvöfaldast fyrir lok árs 2016 og innan átta ára gæti uppsett vindafl verið um ein milljón MW.

Vindmyllur og sæstrengur

Við höfum undanfarin misseri orðið var við að Bretar horfa til Íslands varðandi kaup á orku eins og Ketill Sigurjónsson hefur bent á í nokkrum pistlum hér. Það er ljóst að Íslendingar geta ekki leyst orkuvandamál Breta en þegar horft er til kostnaðar og afhendingaröryggis þá er eðlilegt að þeir horfi hingað. Þær áherslur sem hafa verið á vindorku í Bretlandi gera það að verkum að orkuverð hækkar hratt þessi misserin þó vonir standi til að einingarverð lækki eins og áður var vikið að. Það getur fært umræðuna hingað til lands. Umræða um sæstreng verður án efa erfið og margvísleg sjónarmið munu þar vegast á. Ekki er þó hægt með öllu að horfa framhjá þeim kostum sem dregnir hafa verið fram enda segir sig sjálft að það er alltaf til bóta fyrir seljanda orkunnar að fjölga hugsanlegum kaupendum.  

Þróunin áhugaverð

Greiningar benda til þess að raforkuverð á Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu muni hækka á næstu árum. Mörg ríki Evrópu hafa miklar áhyggjur af orkuöryggi og eru tilbúin að gera langtímasamninga á háu verði til þess að tryggja sér raforku á komandi árum. Nú þegar tryggja bresk yfirvöld hátt verð fyrir endurnýjanlega raforkuframleiðslu næstu 15 til 35 árin. Í mörgum nágrannaríkjum Íslands er raforkuverð mun hærra en íslensk orkufyrirtæki hafa samið um við innlenda kaupendur sína.

Í síðustu ársskýrslu Landsvirkjunar kemur fram að fyrirtækið telur sig bjóða hagstæðasta raforkuverðið innan Evrópu í langtímasamningum, $43/MWst. Til samanburðar var meðalmarkaðsverð á raforku á tímabilinu 2010-2013 $66/MWst í Hollandi, $57/MWst í Skandinavíu og $59/MWst í Þýskalandi.

Yfir helmingur allrar raforku í heiminum verður til við bruna á kolum og gasi og búist er við að það hlutfall muni haldast hátt á komandi áratugum. Almennt stýrir verðlag á kolum og gasi verðlagi á raforkumörkuðum. Aukin eftirspurn mun að líkindum þrýsta enn á verðhækkanir kola og gass sem í framhaldinu ýtir óhjákvæmilega undir enn frekari verðhækkanir á raforku á heimsvísu. Þá er líklegt að aukinn stuðningur við að ná tökum á losun gróðurhúsalofttegunda muni einnig leiða til frekari raforkuverðshækkana segir í ársskýrslu Landsvirkjunar.    

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.