c

Pistlar:

29. maí 2014 kl. 11:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Uppgjörið við hrunið - saga Promens

Á næsta ári er von á plastframleiðslufyrirtækinu Promens í skráningu í Kauphöllina hér á landi. Tímabært segja margir en félagið var einmitt í miðjum undirbúningi að kauphallarskráningu þegar bankahrunið dundi yfir árið 2008. Þá var Promens að stærstum hluta í eigu fjárfestingafélagsins Atorku sem hafði unnið að uppbyggingu og endurskipulagningu þess í kjölfar mikilla fyrirtækjakaupa. Á þeim tíma höfðu fjárfestar miklar væntingar til Promens en þær fóru allar út í veður og vind þegar lánamarkaðir lokuðust og bankahrunið dundi yfir.   

Ef við lítum aðeins til fortíðar þá var Atorka skráð í Kauphöll Íslands 1992, lengst af sem Íslenski hlutabréfasjóðurinn sem var fóstraður í Landsbankanum en hann hafði verið stofnaður til að auðvelda fólki að nýta sér skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa á áhættulítinn hátt. Síðar var félaginu breytt í fjárfestingafélag. Árið 2004 sameinaðist félagið síðan Afli fjárfestingafélagi (sem áður hét Íslenski fjársjóðurinn) og voru hluthafar um 5.500 í lok árs 2005. Allt er þetta forvitnileg saga nú þegar rykið er að setjast. 

Ör vöxtur 

Óhætt er að segja að hraður vöxtur, örar breytingar og djörf fjárfestingastefna hafi einkennt fjárfestingafélagið Atorku á þeim til þess að gera skamma tíma sem félagið starfaði. Miklar áherslubreytingar voru gerðar hjá félaginu í lok árs 2005 og stjórnunarteymi það sem rak félagið allt til loka náði meiri og meiri yfirráðum í félaginu. Erlend fjárfesting var efld og félagið tók þátt í einu djarfasta útrásarverkefni góðærisins sem fólst í Geysi Green Energy þar sem Atorka lék lykilhlutverk. Á sama tíma var miklum fjármunum varið í að byggja upp iðnfyrirtækið Promens með þá von að það yrði annað Marel, félag með mikla sérþekkingu og sterka markaðsstöðu.

Á þeim tíma þegar mest var umleikis var Atorka alþjóðlegt eignarhaldsfélag sem fjárfesti í fyrirtækjum er talin voru hafa sérstök tækifæri til vaxtar á heimsmarkaði og félagið studdi jafnt við innri sem ytri vöxt þeirra. Þegar best lét og gengi hlutabréfa Atorku náði hæstum hæðum, í október 2007, nam verðmæti hlutabréfa félagsins 37 milljörðum króna að þávirði og mikil bjartsýni ríkti um að félagið myndi standa af sér þá storma sem voru framundan. Renewable Energy Resources ehf. (Geysir Green) og Promens voru langstærstu og verðmætustu eignir Atorku. Félagið átti einnig hlut í skráðum félögum á erlendum mörkuðum, þ.m.t. Interbulk Group PLC, Clyde Process Solutions, NWF og Asia Environment. Allt öflug rekstrarfélög sem flest starfa enn þann dag í dag.

Þegar bankakerfið íslenska féll voru áhættuskuldbindingar Atorku og tengdra félaga ríflega 50 milljarðar króna og hvíldu þar af ríflega 21 milljarður króna á móðurfélaginu. Landsbankinn var lanstærsti viðskipabanki félagsins en áhættuskuldbindingar við hann einan um 43 milljarðar króna eins og kom fram í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Nauðasamningar við kröfuhafa

Fjárhagsstaða Atorku breyttist eðlilega til hins verra við fall íslenska bankakerfisins á haustmánuðum 2008. Eiginfjárhlutföll fóru öll úr skorðum þegar eignaverð hrundi. Af því leiddi að eigendur Atorku urðu að gangast undir nauðasamning við kröfuhafa félagsins sem gengu út á að lánardrottnar umbreyttu kröfum í skuldabréf og hlutafé. Höfuðmarkmið nauðasamningsins var að vernda verðmæti eignafélagsins og hámarka virði þeirra fyrir lánardrottna. Með samningnum var ætlunin að tryggja fjárhagslega stöðu Atorku, að eiginfjárhlutfall félagsins yrði um 80% og Atorka þannig í stakk búið til að styðja viðeignir sínar og hámarka endurheimtur fyrir lánadrottna. Hluthafar töpuðu öllu sínu og að lokum fór svo að Atorka hafnaði í eigu kröfuhafa. Leið nú og beið og í fjölmiðlum birtust með reglulegu millibili fréttir af afskriftum tengdum eignarahaldsfélögum í kringum Atorku eins og átti við um annað. Milljarðar afskrifaði hér og þar eins og það hljómar í eftirhrunsumræðunni. En engin spurði hvað varð um verðmætin. Skoðum það nánar.

prom

Mikil verðmæti birtast

Promens, helsta eign Atorku, skilaði nýlega uppgjöri fyrir árið 2013 og nam hagnaður félagsins tæplega 20 milljónum evra, eða liðlega 3 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBIDTA, var um 54 milljónir evra eða rúmir 8 milljarðar. Sé miðað við EBIDTA-margfaldara 7 má áætla að heildarvirði félagsins sé í kringum 380 milljónir evra, eða sem svarar um 60 milljörðum króna eins og kom fram í Morgunblaðinu nýverið. Ef litið er á heildarvirði félagsins (e. enterprise value) sést að heildarvirði Promens er hærra en heildarskuldir Atorku voru.

Við skráningu mætti því vænta þess að félagið yrði á meðal fjögurra stærstu félaga í Kauphöll Íslands að markaðsvirði. Eigendur Promens í dag eru Framtakssjóður Íslands, sem er í eigu sextán íslenskra lífeyrissjóða, og Horn, fjárfestingarfélag í eigu Landsbankans. Hvor eigandi fer með um helmingshlut. Ekki liggur fyrir hvernig verðmæti félagsins er skráð í bókum eigendanna en líklega mun skapast myndarlegur hagnaður við skráningu. Ekki verður séð annað en að núverandi eigendur hafi haldið áfram á þeirri braut sem fyrri eigendur mörkuðu varðandi uppbyggingu, stefnu og rekstur þó ekki sé verið að gera lítið úr þeirri vinnu sem þar hefur verið unnin eftir bankahrunið.

Allar þessar tölur eru athyglisverðar þegar við viljum meta tjón af hruninu og úrvinnslu þess eftir á. Í kjölfar bankahrunsins eignuðust kröfuhafar Atorku félagið eins og áður var rakið. Þáverandi hluthafar náðu ekki samningum við lánadrottna félagsins um að þeir fengju að eiga og reka félagið áfram þrátt fyrir eindregin vilja þeirra þar um. Þar vóg þungt að verðmæti á eignum félagsins féll tímabundið meðan skuldir hækkuðu verulega vegna gengishruns og verðbólgu. Í ringulreið hrunsins voru þeir til sem vildu setja fyrirtækið í gjaldþrot sem hefði valdið skelfilegu tjóni og hefði líklega fært skandinavískum bönkum eignirnar á silfurfati. Því miður gerðist slíkt í öðrum félögum. Helstu eignir félagsins voru skráð og óskráð félög, m.a. Promens, Jarðboranir, Björgun og eignarhlutir í nokkrum erlendum framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum sem hefur verið getið hér að framan. Almenningur fékk að sjá stórar tölur um skuldastöðu Atorku en skyldu menn hafa áhuga að reikna til enda uppgjör félagsins nú þegar eignir þess hafa aftur aukist í verði? Eins og áður sagði er verðmæti Promens í dag meira en heildarskuldir Atorku á sínum tíma.  

Þetta má gjarnan hafa í huga þegar stórar tölur birtast um eignarlítil eignarhaldsfélög. Oft er það nefnilega svo að öll verðmæti eru tekin í burtu þegar hlutafé er skrifað niður en kröfurnar lifa áfram. Í umræðunni er lítið gert til að setja samhengi þarna á milli. 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.