c

Pistlar:

15. júní 2014 kl. 15:49

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heimsveldi fótboltans

Heimurinn er dálítið upptekinn af knattspyrnu þessa daganna, það fer líklega ekki framhjá neinum. Vissulega má deila um allt, en fáir bera brigður á að knattspyrna er vinsælasta íþrótt heims. Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu er næst stærsti íþróttaviðburður heims, næst á eftir sjálfum Ólympíuleikunum. Sú staða gerir það að verkum að knattspyrnan hefur efnahagsleg og pólitísk áhrif sem engin ríkisstjórn getur - né vill - sniðganga.

Nú er Brasilía það land sem heimurinn horfir til. Þetta 200 milljón manna ríki hefur verið á fleygiferð efnahagslega undanfarna áratugi og því þótti ráðamönnum þar eðlilegt að sýna mátt sinn og megin. Ekki bara með því að hýsa heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu því sjálfir Ólympíuleikarnir verða þar einnig eftir tvö ár. Kostnaðurinn er gríðarlegur og engu skal til sparað. Áætlanir gerðu ráð fyrir að HM kostaði um 12 milljarða Bandaríkjadala eða sem svaraði einni íslenskri landsframleiðslu en líklega verður kostnaðurinn meiri þegar upp er staðið. Ljóst er að eyðslan er farin að hafa sín áhrif. Um 90% landsmanna voru ánægðir í upphafi með að HM væri haldið í Brasilíu, í fyrsta sinn síðan 1950. Kom kannski ekki á óvart, knattspyrnuáhugi Brasilíumanna er vel þekktur og heimamenn töldu að það færi vel á því að bæta 6 heimsmeistaratitlinum í safnið á heimavelli. En andrúmsloftið hefur verið að breytast. Fólki blöskrar kostnaðurinn og nú eru aðeins um 50% heimamanna tilbúnir að lýsa yfir ánægju sinni með keppnina. Upphaf HM fór fram í skugga mótmæla og aðgerðir yfirvalda verða stöðugt umdeilanlegri.

Einnota knattspyrnuvellir

Almenningi í Brasilíu þykir einfaldlega ekki verjandi að setja svo mikla fjármuni í keppnina, þegar við blasir að um er að ræða sokkinn kostnað. Og það er ekki eins og verkefni vanti í Brasilíu. Umbætur á innviðum vega ekki upp augljósa eyðslu í knattspyrnuvelli sem verða ekki notaðir í framtíðinni. Brasilíumönnum var heimilt að halda keppnina á 8 stöðum en þeir kusu að hafa hana á 12 stöðum. Það þýðir fjórir auka leikvangar? Einn slíkur var byggður í frumskógaborginni Manaus, sem er 1450 km. frá sjó og þangað liggur engin vegur. Þar er ekkert knattspyrnulið en það kom ekki í veg fyrir að þar yrði byggður leikvangur sem kostaði 250 milljónir Bandaríkjadala. Hann var smíðaður í Portúgal og silgt upp eftir Amazon fljótinu þar til hann var settur saman í Manaus.

Ekki náðist að ljúka öllum framkvæmdum í Brasilíu fyrir tilskilin tíma og eftirlitsmenn FIFA, alþjóða knattspyrnusambandsins, voru við það að fara á taugum. Vinnuaðstæður voru erfiðar og verkföll tíð. Átta verkamenn létust á byggingatímanum, sex fleiri en í Suður-Afríku. Þó væntanlega mun færi en í Katar sem mun hýsa leikanna 2022. Sú ákvörðun sýnir kannski enn betur þau vandamál sem við er að glíma innan FIFA.

fifa

Athyglin á FIFA

FIFA er heimsveldi út af fyrir sig og þó að sambandið sé kynnt þannig að það sé rekið án hagnaðar (none profit organization) þá syndir það í peningum. Meðal annars vegna þess að sambandið tekur mest allan hagnaðinn af HM og situr nú á sjóðum sem nema einum milljarði Bandaríkjadala. Forráðamenn FIFA sitja nú undir hörðum ámælum en eigi að síður er þeim tekið eins og þjóðhöfðingjum hvar sem þeir koma. Það er af þessum sökum sem forsætisráðherrar vilja ólmir fá að hitta Sepp Blatter, forseta FIFA. Fáir eða engir hafa náð slíkum tökum á FIFA þó að honum sé sótt núna.

Það má rifja upp árið 1997 þegar Blatter var enn framkvæmdastjóri FIFA. Þá átti John Major, þáverandi forsætisráðherra Breta, brýnt erindi við hann. Major vildi kynna fyrir honum hugmyndir um að Bretar hýstu HM árið 2006, í tilefni þess að 40 ár voru þá liðin frá því að síðasta HM var haldin í þessu höfuðvígi knattspyrnunnar. Mörgum fannst það táknrænt fyrir hlutverk knattspyrnunnar að John Major skyldi nota góðan part úr degi síðustu daga kosningabaráttu sinnar til að sitja fund með framkvæmdastjóra FIFA. Árið eftir tók hann við forsetaembættinu af Brasilíumanninum Joao Havelange sem þótti svo sem ekkert sérstaklega vandur að meðulum.

Slíkur fundur og hann átti með Major er hins vegar ekki óalgengur fyrir Blatter sem gjarnan á fundi með helstu ráðamönnum heims sem sýnir glögglega mikilvægi FIFA Það er margt sem gerir starf Blatters erfiðara en störf stjórnmálamanna eða eins og hann segir sjálfur: ,,Það getur verið erfitt að stjórna einstaka löndum en hjá FIFA þarf að hafa allan heiminn góðan."

John Major stjórnaði 55 milljón manna þegar hann átti fund með þáverandi framkvæmdastjóra FIFA en veldi Blatters nær til um 250 milljón manna sem leika knattspyrnu út um allan heim. Auk þess má segja að um 1,5 milljarður manna hafi dagleg tengsl við knattspyrnu með einum eða öðrum hætti.

Ekki dæmigerð skrifstofublók

Þrátt fyrir þetta er ekki hægt að líta á Blatter sem dæmigerða skrifstofublók í diplómataleik. Hin 78 ára gamli Blatter, sem fæddur er í Sviss, er glaðvær persónuleiki sem á auðvelt með að smita aðra af óbilandi áhuga sínum á knattspyrnu. Um leið hefur hann gaman af stórum tölum. Blatter vitnar gjarnan í skýrslur sem hann hefur látið gera um áhrif knattspyrnunnar og þar má meðal annars finna tölu sem sýnir að auglýsingar á HM hafi með beinum hætti stuðlað að vörukaupum fyrir gríðarlegar fjárhæðir. Þannig nær hann að læsa inni auglýsingasamninga sem fáir geta látið sig dreyma um.

Það leyni sér ekki að Blatter verður að halda vöku sinni til að verja sitt ástkæra FIFA. Mörg vandamál hrúgast inn á hans borð daglega en honum hefur til þessa gengið þokkalega að leysa úr þeim. Á fyrri árum þurfti hann að fást við deilur milli leikmanna og liða vegna samninga og samningsréttar. Einnig að tryggja að rétt væri staðið að málum varðandi sjónvarpssamninga knattspyrnuhreyfingarinnar og tryggja að kostunaraðilar missi ekki áhugann. Allt þetta skiptir miklu við að halda jafn flóknu sambandi og FIFA saman. Sem betur fer hafa góðar og reyndar sívaxandi tekjur orðið til að létta þeim verkið. Peningarnir flæða inn og reyndar á fleiri reikninga en reikninga FIFA.

En óvíst er að Blatter verði mikið lengur við völd hjá FIFA. Líklega verður hann að stíga niður til að friða heiminn vegna hinnar furðulegu ákvörðunar að halda heimsmeistaramótið 2022 í Katar. Þar komu gallar sambandsins í ljós. 5 milljónir Bandaríkjadala virðast hafa skipt máli við ákvörðunina. Ólíklegt er að Blatter sleppi frá þessu en maður skyldi aldrei segja aldrei þegar hann er annars vegar!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð