c

Pistlar:

6. júlí 2014 kl. 13:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Metfjölgun ferðamanna og hvað svo?

Við Íslendingar erum líklega orðnir svo vanir því að sjá tölur um metfjölgun ferðamanna að við erum hættir að kippa okkur upp við slíkt. Nú er enn eitt metárið í uppsiglingu en fjölgun erlendra ferðamanna varð tæplega 32% á fyrstu fimm mánuðum ársins. Það slær út metið frá því í fyrra þegar 30% aukning varð á komum ferðamanna fyrstu fimm mánuði ársins samanborið við árið á undan. Ef miðað er við að sama fjölgun haldist út árið mun milljónamúrinn verða brotinn á árinu að mati Rannsóknarseturs verslunarinnar og fjöldi erlendra ferðamanna verða ein milljón og 24 þúsund.  Í þeirri áætlun er gert ráð fyrir sömu hlutfallsaukningin og verið hefur það sem af er árinu miðað við fjölda ferðamanna í hverjum mánuði í fyrra. Við munum með öðrum orðum að öllum líkindum slá milljón ferðamanna múrinn á þessu ári. Og það sem meira er, ekkert lát er á hlutfallslegri aukningu milli ára sem hlýtur að vekja ákveðnar áhyggjur. Miðað við sömu aukningu gæti tveggja milljón ferðamanna múrinn verið rofinn mun fyrr en áður hefur verið talið, nokkuð sem talið hefur verið umhugsunarvert áður á þessum vettvangi.

Yfir þessu er hægt að gleðjast, ferðamenn hafa margvísleg jákvæð áhrif; renna styrkari stoðum undir efnahag landsins, færa inn nýja strauma og hafa áhrif á þjónustustigið sem mun vissulega koma Íslendingum til góða. Þetta sjá landsmenn á ferð sinni um landið þar sem allskonar þjónusta stendur til boða sem ekki var áður unnt að fá. En um leið breyta ferðamenn gríðarlega miklu, og því meiru sem þeir eru fleiri. Við sjáum slíkt glögglega í deilum um gjaldtöku en vitaskuld eykst álagið á vinsælustu ferðamannastaði sem gerir kostnaðarfrekt að tryggja vernd þeirra og viðhald og halda uppi þjónustustigi. Hver á að borga fyrir það - það er stóra spurningin? Ekki getur verið með öllu sanngjarnt að skattgreiðendur sitji uppi með þennan reikning og það vegna greinar sem seint ætlar að reka af sér slyðruorðið vegna skattsvika.

2014-06-23 14.05.15

Skortur á sérhæfðu starfsfólki

Einnig þarf að horfast í augu við að greinin kallar á nýja sérhæfingu og ljóst að skortur er er að verða á starfsfólki. Hér á mbl.is mátti fyrr í dag lesa frétt um að skortur væri á rútubílstjórum. 30 til 35% aukning ferðamanna kallar á gerbreytta fólksflutninga um landið og setur einnig aukið álag á vegakerfið. Gríðarleg tekjuaukning íslenskra bílaleiga er vísbendingu um slíkt en einnig er hjólreiðamönnum að fjölga. Það er ljóst að vegagerð verður að taka tillit til þessara atriða og þó að þarfir Íslendinga einar og sér kalli á betri vegi þá hlýtur ferðamannafjöldinn að kalla á ný verkefni og umbætur. Ekki hvað síst vegna þess að brýnt er að þeir dreifist sem best um landið. Einnig verður að huga að aukinni vetrarferðamennsku sem síðan kallar á ný viðmið í öryggisgæslu. Útilokað er að ætla að bjögunarsveitunum einum að tryggja öryggi ferðamanna ef þeir tvöfaldast frá því sem nú er.

Ferðamenn vilja alla jafnan gera vel vel við sig í mat og drykk, ekki síst þeir sem dveljast í höfuðborginni. Fréttir eru af því að verulega skorti hæfa matreiðslumenn og þjóna. Þeir sem slægur er í geti farið fram á laun sem eru hærri en þau er forsætisráðherra fær, svo tekið sé mið af viðmiði sem sett var fram eftir bankahrunið.

Láglaunastörf

Augljóslega hefur ferðaþjónustan treyst á lausafólk, sumarfólk, námsmenn og erlenda starfskrafta sem sumir hverjir koma á forsendum ferðamennskunnar. Upplýsingar eru um að í launum og aðbúnaði sé ekki komið vel fram við þetta fólk. Á síðasta ári var haft eftir verkalýðsforkólfum að allt of algengt sé að brotið sé á starfsfólki í ferðaþjónustu. Laun séu undir lágmarkstöxtum og vaktafyrirkomulag ekki í samræmi við kjarasamninga. Þetta gekk svo langt að stéttarfélagið Eining-Iðja sá tilefni til að birta auglýsingar á síðasta ári þar sem minnt var á nokkur áhersluatriði úr kjarasamningum. Þessum auglýsingum var sérstaklega beint að starfsfólki á veitingastöðum, gistiheimilum, hótelum og hjá öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Því miður bendir margt til þess að málin séu í líku horfi í dag. Það verður að tryggja að slíkt sé í lagi því til lítils er siglt ef við sitjum uppi með láglaunastörf og land sem er að drukkna í ferðamönnum. Skerpa þarf á stefnumótun á þessu sviði.     

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.