c

Pistlar:

28. september 2014 kl. 17:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hið svokallaða hrun og hagvöxtur ársins 2007

Í þeirri víðfeðmu umræðu sem orðið hefur um orsakir og afleiðingar bankahrunsins í október 2008 hefur gjarnan verið rætt um réttmæti þess að taka um ,,svokallað hrun". Um það hafa oft spunnist fjörugar umræður, gjarnan með ásökunum í garð þeirra sem svo segja, að þeir afneiti sannleikanum, að minnsta kosti eins og hann birtist í hagtölum. Það má vera rétt og að sjálfsögðu er engin ástæða til að draga úr því að hér varð kollsteypa sem vel má kalla hrun sem smitaðist út í alla geira þjóðlífsins og snerti nánast alla Íslendinga. Það breytir því ekki að umræða um orsakir og afleiðingar hrun bankakerfisins íslenska er oft á misskilningi byggð og mótast fremur af því hvar menn stand í pólitík en sannindum málsins.

Á þetta er minnst hér þar sem fyrir stuttu birtust nýjar tölur frá Hagstofunni þar sem sjá má niðurstöðu þjóðhagsreikninga samkvæmt nýjum staðli, ESA2010. Ekki verður farið út í það hér að rekja gerð staðalsins og þeim sem það vilja bent á skýrslur Hagstofunnar. Nýi staðallinn er þó frábrugðinn þeim eldri hvað varðar umfang og aðferðarfræði. Samhliða upptöku staðalsins hefur Hagstofan gert ýmsar aðrar endurbætur á þjóðhagsreikningum og tímaraðir hafa verið endurskoðaðar allt aftur til 1997. Út úr þessu koma nokkuð aðrar tölur en við höfum verið að horfa til varðandi þjóðarframleiðslu og hagvöxt. Jafnvel svo breyttar tölur að þær kalla á ákveðið endurmat.

2014-04-01 17.26.02

Ofsavöxtur árið 2007

Það sem vekur auðvitað mesta athygli er endurmat landsframleiðslu og hagvaxtar. Nýi staðallinn veldur því að fjárhæð landsframleiðslunnar hækkar nokkuð en mest áhrif á landsframleiðslu hafa breytingar sem gerðar eru á einkaneyslu og fjármunamyndun. Það sem vekur langmesta athygli er að nú reiknast hagvöxtur ársins 2007 hafa verið 9,7% í stað 6% áður. Það er auðvitað gríðarleg breyting en helstu ástæður þessa eru mikil stækkun fjármálakerfisins en eins og sérfræðingar Hagstofunnar segja þá leiddi endurskoðun óbeint mældu fjármálaþjónustunnar til þess að útflutningur slíkrar þjónustu jókst mjög mikið. - Í reiknuðum stærðum vel að merkja. Við hrunið reyndist mikil óvissa um stöðu fjármálafyrirtækja sem kallaði á áætlanir hjá Hagstofunni. Sem hún er að hluta til að vinna úr núna.

En það segir sig sjálft að ef hagvöxtur var 9,7% en ekki 6% (sem mörgum þótti ærið) þá hefur augljóslega verið ofsavöxtur í íslenska hagkerfinu. Vitaskuld má ekki gera of mikið úr þessum breytingum á mældum hagvexti en dregur þó fram hvað stjórnvöld hafa úr ófullkomnum upplýsingum að vinna þegar verið er að taka ákvarðanir. Fyrrverandi forsætisráðherra benti á að í eina tíð hefði t.d. uppgötvast að hagvöxtur ársins 2004 hefði verið miklu meiri en ríkisstjórnin taldi sig hafa upplýsingar um. Rétta talan hefði ekki birst fyrr en tveimur árum síðar. Svo miklu hefði munað að stjórnvöld hefðu talið sig þurfa að grípa miklu harðar inní til að tempra þenslu í hagkerfinu ef þau hefðu vitað hið rétta. Og nú sjáum við að hagvöxtur ársins 2004 var 8,2% en ekki 7,8%. Á sínum tíma taldi ríkisstjórnin sig vera að glíma við 3-4% hagvöxt eða ríflega helmingi minni en reyndin var.

Minni samdráttur?

Það vekur síðan einnig athygli að ,,kreppuárið" 2009 - þegar hrunið var komið fram - þá var fallið í hagvexti minna en talið var, eða samdráttur upp á 5,1% í stað 6,6%. Það gerir það að verkum að hægt er að leika sér með orð eins og ,,svokallað hrun" - sveiflan og þar af leiðandi hrunið, var minni en áður var talið. Einnig má hafa í huga að það varð minni hagvöxtur 2011 og 2012 en lítillega meiri 2013. Hugsanlega hefur það einhver áhrif á það hvenær við teljum að umsnúningur hafi orðið í hagkerfinu og kreppunni lokið.

En það skal ítrekað að hér er ekki verið að gera lítið úr þeim áhrifum sem hrun fjármálakerfisins hafði á líf landsmanna. Eingöngu er minnt á mikilvægi þess að taka tölum með varúð. Um leið hljóta menn að geta tekið undir það sem áður hefur verið bent á hér í pistlum að efla þurfi hagskýrslugerð enn frekar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.