c

Pistlar:

29. nóvember 2014 kl. 16:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er glæpur að verða gjaldþrota?

Í vikunni birtist lítil frétt í Morgunblaðinu sem fór ekki hátt. Þar sagði frá því að gjaldþrot­um einka­hluta­fé­laga hefði fækk­ar jafnt og þétt á sama tíma og ný­skrán­ing­um fé­laga fjölg­ar. Allt er þetta samkvæmt samantekt Hag­stofu Íslands, sem vel að merkja fagnaði 100 ára afmæli sínu í vikunni og á sömu kennitölunni allan tímann! Í fréttinni kom fram að gjaldþrot einka­hluta­fé­laga síðustu 12 mánuði hafa dreg­ist sam­an um 19% sam­an­borið við 12 mánuði þar á und­an. Alls voru 800 fyr­ir­tæki tek­in til gjaldþrota­skipta á tíma­bil­inu. Á sama tíma hafði ný­skrán­ing­um einka­hluta­fé­laga síðustu 12 mánuði fjölgað um 8%. Alls voru 2.036 ný fé­lög skráð á tíma­bil­inu. Allt er þetta heldur ánægjulegt og til vísbendingar um að það sjái fyrir gjaldþrotahrinu þá sem hér varð í kjölfar bankahrunsins. Ekki er síður mikilvægt að nú má aftur sjá áhuga hjá fólki að taka þá áhættu að stofna nýtt félag. Því hefur verið haldið fram að Íslendingar séu í eðli sínu frumkvöðlar og því djarfari en aðrir til að stofna fyrirtæki og taka þá áhættu sem því fylgir. Það væri slæmt ef bankahrunið og sú neikvæða umræða sem því hefur fylgt hefði orðið til að draga úr djörfung og áræðni landsmanna. Vonandi að svo verði ekki þó augljóst sé að samfélagsumræðan ætli mönnum ekki mikið svigrúm. Um leið má leyfa sér að ætla að þeir sem dvelja mest á samfélagsmiðlunum séu minnst líklegir til að láta til sín taka úti í hinu daglega lífi. En það er önnur saga.gjaldþrot

Er glæpur að verða gjaldþrota?

En það má velta fyrir sér hvort það sé í sjálfu sér glæpur að verða gjaldþrota eins og sumir virðast halda. Svarið er líklega einstaklingsbundið en undanfarin misseri hafa spunnist miklar umræður um tíðni og fjölda gjaldþrota í íslensku samfélagi. Á tímabili hélst það í hendur við vangaveltur um hvernig hægt væri að milda áhrif bankahrunsins á einstaklinga og fyrirtæki. Þetta gerði pistlahöfundur að umtalsefni í grein sem birtist í tímaritinu Frjálsri verslun í lok árs 2010. Þá blasti við að búið var að stytta fyrningafrest krafna (skuldafangelsi) niður í tvö ár, þó með þeim afbrigðum að hægt væri að opna kröfuna sæki kröfuhafi það fast. Tvö ár án lánstrausts og kreditkorta í kjölfar gjaldþrots er líklega ásættanlegt og miklu mannúðlegri og skynsamari ráðstöfun en það 10 ára skuldafangelsi það sem áður tíðkaðist. Með slík tímamörk var í raun verið að reka fólk úr lögum við samfélagið; gjaldþrot var skóggangssök og um leið var hætta á að viðkomandi sykki niður í hið svarta hagkerfi og ætti ekki afturkvæmt þaðan. Sá sem þetta ritar fylgdist með gömlum skólafélaga í barnskóla lenda í gjaldþroti upp úr tvítugu eftir iðnskólagöngu og stutta sjálfstæða starfsemi og eiga ekki afturkvæmt inn í hið opinbera hagkerfi. Aðlögunarhæfni manna er mikil og smám saman varð þessi skólafélagi duglegur við að greiða neysluskatta en tekjuskattur var líklega framandi orð fyrir hann. Ég er ekki viss um að svona hefði þurft að fara ef gjaldþrotið hefði ekki verið svona afgerandi og óafturkræft, ekki skorti hann dugnaðinn.   

En gjaldþrot hefur líka afleiðingar á hinni hliðinni; kröfur tapast og skuldaboltinn getur byrjað að rúlla. Í flestum tilfellum verða menn og fyrirtæki gjaldþrota vegna þess að áætlanir hafi ekki staðist, hvort sem það er vegna þess að þær voru svona óraunhæfar eða forsendur breyttust. Mörgum er tamt að segja að fyrirtæki sem fer á hausinn sé dæmi um mistök, afglöp og jafnvel glæpsamlegt athæfi. Því má spyrja hvort gjaldþrot sé refsivert í sjálfu sér? Nú er það þannig að menn hafa stofnað til skuldbindinga sem þeir ráða ekki við, gert óraunsæjar áætlanir og jafnvel gripið tiýmissa úrræða sem þeir að öllu jöfnu hefðu ekki gripið til nema af því að það var farið að þrengja um. Fengið þrotaveikina svokölluðu. Staðreyndin er sú að rekstur, bókhald og áætlanir flestra gjaldþrota fyrirtækja líta afskaplega illa út, svona eftirá! Sögur um kennitöluflakkara eru ekki til að bæta úr en þær byggja á einföldunum, oft snýst ,,kennitöluflakk” um að bjarga þeim verðmætum sem felast í rekstri og viðskiptasamböndum. Því miður hafa menn ekki alltaf gæfu til að standa rétt að málum eða af þeirri hreinskiptni sem nauðsynleg er. Og þolinmæði gagnvart útskýringum hefur sjaldnast verið minni.

En er gjaldþrot sá heimsendir sem margir virðast telja? Er það ekki dæmi um þrótt samfélags ef margir eru tilbúnir til að reyna að fara út í rekstur, hætta einhverju til að skapa eitthvað, eins og vikið var að í upphafi. Eru ekki einu mistökin að reyna ekki? Man eftir öðrum félaga sem sagði gjarnan; sá eini sem ekki gerir mistök er sá sem aldrei gerir neitt! Í Bandaríkjunum er reynt að láta fólk komast snemma upp á lappirnar eftir gjaldþrot (helmingur þeirra einstaklinga sem verða gjaldþrota þar verða það vegna veikinda sem er efni í aðra umræðu) og sama má segja um Bretland, en samkvæmt breskum gjaldþrotalögum eru skuldir gjaldþrota einstaklinga þurrkaðar út á 12 mánuðum. Í Þýskalandi er þessi tími níu ár og á Írlandi 12 ár.

Í fyrirtækjarekstri er mesta áhættan á fyrstu árunum og um 40% af þeim fyrirtækjum sem verða gjaldþrota verða það á fyrstu fjórum árunum í rekstri. Ekkert nýstofnað fyrirtæki er laust við áhættu. Þetta eru tölur sem hinir svartsýnu sjá og þegar horft er til þess að sumir sem standa að stofnun fyrirtækja glata öllu sparifé sínu og enda skuldum vafðir og jafnvel gjaldþrota sjálfir þá er í raun stórfurðulegt að nokkur skuli hefja rekstur. En vitaskuld er myndin ekki svona svört og enn sem komið er, er fyrirtækjarekstur besta leiðin til þess að efnast. Við þurfum á fólki að halda sem vill taka áhættu og reyna að efnast.

Að slá strik yfir hið liðna

Er gjaldþrot eins neikvætt og menn vilja vera láta? Auðvitað verður ekki gert lítið úr þeim erfiðleikum sem þeim fylgja en gjaldþrot er líka leið til að slá strik yfir hið liðna og vonandi marka nýtt upphaf. Það verður líka að horfa á að bæði skuldari og kröfuhafi eru að viðurkenna að áformin, sem báðir ætluðu að hagnast á, gengu ekki eftir. Skipbrotið var sameiginlegt en vitaskuld líta menn sjaldnast svo á. Allra síst sá sem horfir á eftir fjármunum vegna gjaldþrots annarra.

Á tímabili virtist þrótturinn vera að hverfa úr þjóðinni? Í áðurnefndri grein sem pistlahöfundur skrifaði í Frjálsa verslun, og er stuðst við hér, kom fram að skráðum félögum hafði fækkað mikið. Þá voru upplýsingar um að aðeins hefðu verið skráð 133 ný einkahlutafélög í október 2010 samanborið við 256 einkahlutafélög í október 2009, sem jafngildir rúmlega 48% fækkun milli ára. Á sama tíma var gjaldþrotum að fjölga og horfur á að slegið met yrði í gjaldþrotum fyrirtækja, sem varð raunin.

Þá sem nú, má rifja upp að það hefur gjarnan verið talin styrkur okkar Íslendinga að menn rísa skjótt upp á lappirnar aftur og það hefur verið talið mönnum til tekna að gefast ekki upp þó á móti blási. Að gefast upp er einfaldlega ekki ásættanlegt. Pistlahöfundur minnist þess að hafa heyrt haft eftir Markúsi Möller hagfræðingi að það sé skemmtilegra að hjálpa mönnum á fætur en leiða þá til rekkju. Það er nokkuð sem við Íslendingar mættum hafa í huga nú þegar neikvæðnin virðist svipta allt of marga sálarróni og draga úr frumkvæðisvilja annarra.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.