c

Pistlar:

19. desember 2014 kl. 15:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gæði og ending

Í flestu því sem við tökum okkur fyrir hendur viljum við að birtist eitthvað sem skiptir máli, hvort sem skrifuð er grein eins og þessi eða framleiddur er áþreifanlegur hlutur. Sumt fær þá einkunn að vera klassískt eða jafnvel tímalaust en algengara er þó að tímans þungi niður gleypi það með húð og hári. Þeir sem skrifa á netið eru stundum minntir á að það gleymir engu en staðreyndin er sú flest sem þangað fer á skamman og hverfullan líftíma. Og það sama á við ótrúlega margt af því sem mannskepnan skapar - og hún skapar stöðugt meira og meira.

Nýleg frétt um stóla ráðhús Reykjavíkur minnir okkur á að hönnun og sköpun er ætlað að færa okkur verðmæti sem skipta máli og við borgum sérstaklega fyrir. Þess vegna viljum við ekki eftirlíkingar þó margir freistist til að kaupa þær verðsins vegna. Rökin fyrir því að kaupa „alvöruhluti” eru meðal annars að gæði og ending fari saman. Sem það gerir oftast en í tilfelli stóla ráðhússins verður ekki annað séð en að eftirlíkingarnar hafi enst nokkuð vel. Hugsanlega, en tekið skal fram að sá er þetta ritar hefur ekki kynnt sér málið í hörgul.lecorbusier_lc2_sessel_xl Af fjörugum umræðum á netmiðlum að dæma virðist mörgum vera saman um gæði og frumhönnun og horfa fremur til verðs. Það er svo sem skiljanleg afstaða, sérstaklega hjá þeim sem greiða útsvar í Reykjavík. 

En allt minnir þetta okkur á neysluhyggju nútímans og það gríðarlega magn hluta sem við sönkum að okkur. Það má rifja upp að flestir þeir Íslendingar sem fóru vestur um haf á sínum tíma höfðu með sér aleigu sína í litlum hirslum. Þeir efnameiri notuðu koffort en þeir efnaminni kistil. Vissulega höfðu menn selt stærri hluti áður en lagt var upp í ferðina en í dag flytur fólk ekki á milli landa án þess að taka stóran gám með sér. „Fátækir” námsmenn sem koma frá útlöndum flytja með sér jafn mikið af „dóti” og heilu hrepparnir áttu áður fyrr. Þegar dánarbú alþýðufólks frá þeim tíma eru skoðuð þá kemur í ljós flestir áttu fá eða enga veraldlega hluti. Í veski nútímakonu komast fyrir margfalt fleiri hlutir en voru í eigu alþýðukonu 19. aldarinnar. Það er reyndar merkilegt að sjá hve eignarrétturinn var þessu fólki dýrmætur á þessum tíma. Bækur eru merktar eigendum með löngu máli og jafnvel tekið fram að færslan sé „skrifuð með eigin penna.” Og vottar nefndir til því til sönnunar! Eignarrétturinn var og er einnig vörn þeirra efnaminni.

Margfeldi vinnunnar

Eins og lesendur þessara pistla vita þá hefur hér stundum verið vitnað í bók dr. Matt Ridley sem nýlega kom út. Heimur batnandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves) heitir hún. Sérlega áhugaverð lesning en þar fjallar Ridley meðal annars um margfeldi vinnunnar. Hann bendir á að við neytum ekki einungis vinnu og auðlinda annarra, heldur einnig nýsköpunar og hönnunar þeirra. Það færir okkur mikið af nytsömum og fögrum hlutum. Ridley bendir á:

„Þúsundir frumkvöðla og vísindamanna hugsuðu upp hinn flókna dans ljóseinda og rafeinda sem fær sjónvarpið okkar til að verka. Vélar löngu liðinna uppfinningamanna, hetja iðnbyltingarinnar, spinna og vefa bómullina í fötum okkar. Safnarar og veiðimenn í Mesópótamíu nýsteinaldar fundu upp kynblöndun og uppskriftir að brauðinu sem við etum. Þekking þeirra lifir enn í vélum, uppskriftum og forritum sem við njótum góðs af. Meðal þjóna okkar eru frumkvöðlar eins og John Logie Baird, Alexander Graham Bell, Sir Tim Berners Lee, Thomas Crappet, Jonas Salk og heill her annarra uppfinningamanna. Loðvík XIV. naut ekki þjónustu þeirra. Við njótum vinnu þeirra hvort sem þeir eru lífs eða liðnir.”

Við lifum því nú í heimi þar sem öll þessi samvinna leiðir til þess að „minna vinnuafl getur framleitt meira af afurðum,“ svo vitnað sé til Adam Smith.

Nýir neytendur - gamlar þarfir

Allt þetta gerir sífellt fleira fólki um heim allan fært að kaupa og nota hluti sem áður voru ætlaðir fáum. Ef við viljum njóta þeirra hljótum við að gleðjast yfir því að aðrir geri það líka. Efnishyggjan hefur nefnilega haldið innreið sína í þá heimshluta sem við áður töldum fátæka. Forréttindaþjóðum fækkar hvað sem hver segir.

Og vissulega er ofgnóttin meira yfirþyrmandi í Kína en á Íslandi. Þar er nú stærsti markaður fyrir lúxus og hönnunarvörur í heiminum. Það spaugilega er að þar er sífellt stærri hópur sem vill kaupa alvöru hönnun á meðan kínverskt hagkerfi sér einnig um að framleið ofan í okkur eftirlíkingar og falsvörur. Við sjáum á vaxandi fjölda kínverskra ferðamanna sem hingað koma að þeir vilja alvöru íslenska hönnun en þar skortir kannski frekar á framboðshliðina. Kínverskir ferðamenn hafa reynst óseðjandi hvað þetta varðar og er þekkt af hve mikilli einurð þeir tæma danskar hönnunarverslanir.

Danir hafa handverkshefðina og þekkingu kaupmannsins. Kannski öfugt við okkur Íslendinga sem enn erum að færa norrænum konungum drápur og sögur. Það fellur ágætlega að okkar samfélagsumræðu sem fremur lofar skáldið en handverksmanninn. Enda er það skáldið sem er líklegra til að lesa pistil sem þennan en iðnaðarmaðurinn sem minnir okkur á að hönnun getur líka náð til hugmynda. En þegar við erum komin á þær slóðir fer ekki alltaf saman magn og gæði.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.