c

Pistlar:

10. janúar 2015 kl. 16:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sektir fjármálafyrirtækja

Bandaríska hagkerfið er um 20% af hagkerfis heimsins. Þar eru um 40% af hlutabréfamarkaði heimsins og fáir eru sterkari málsvarar þess að markaðurinn eigi að ráða. Því er eðlilegt að heimsbyggðin horfi þangað og fylgist með því hvernig tekist er á við vandamál markaðshagkerfisins.

Í kjölfar bankakreppunnar miklu 2008 brugðust Bandaríkjamenn við með margvíslegum hætti. Tvennt stendur þó uppúr, seðlaprentvélarnar voru settar á fullt og magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing) beitt til að hleypa fjármálakerfinu yfir hjallann. Um leið var brugðist við þeim rangindum sem fjármálakerfið og starfsmenn þess höfðu gert í aðdraganda hrunsins með sektum.

TARP (e. The Troubled Asset Relief Program) leiðin lukkaðist að mestu leyti vel og leysti þann mikla vanda sem skapaðist eftir fall Lehman Brothers. Nú lítur út fyrir að bandaríski seðlabankinn hagnist verulega á þessum úrræðum þegar upp er staðið. Eftir þessar aðgerðir komst fjármálastöðugleiki á, kreppan leystist, heimilum og fyrirtækjum var bjargað og í dag er ástandið í Bandaríkjunum mun betra en í Evrópu. Í dag dylst engum að bandaríska hagkerfið er að ná sér  á strik. Hagvöxtur er nálægt 5% og atvinnuleysi um 5,8%. Mikill uppgangur einkennir bandarískt efnahagslíf og störfum fjölgar mikið. Svo virðist sem aðlögunarhæfni þess sé enn á ný meiri en annarra hagkerfa. Um leið er freistandi að ætla að þeir hafi farið skynsamari leiðir en aðrir við úrvinnslu bankahrunsins.Four-US-Banks

Sektir á sektir ofan

Við skulum skoða aðeins betur hvernig bandarísk yfirvöld sektuðu banka og atvinnulíf í kjölfar hrunsins. Í mars á síðasta ári reiknaðist Financial Times svo til að búið væri að sekta Wall Street banka um sem svarar 100 milljarða bandaríkjadala. Tala sem stendur líklega nálægt  12.900 milljörðum íslenskra króna. Helmingur þeirrar upphæðar féll til árið á undan.  Um leið voru leiddar líkur að því að þessi upphæð ætti enn eftir að hækka verulega, jafnvel um 150 milljarða dala til viðbótar.  Nýlegar sektir, sem vikið verður að á eftir, renna stoðum undir slíkt. Engum gat dulist að bankarnir höfðu misreiknað stöðu sína herfilega og farið illa út af sporinu. Í raun hafa varnir reynst haldlitlar og eftir því sem málum hefur undið fram hafa þeir fremur kosið að semja en að eyða enn meiri fjármunum í málskostnað.

Þegar FT gerði rannsókn sína voru sektir komnar upp í 99,5 milljarða dala, og um 52 milljarðar féllu til á árinu 2013. Sex stærstu bankar Bandaríkjanna; JPMorgan Chase, Bank of America, Citigroup, Wells Fargo, Morgan Stanley og Goldman Sachs högnuðust eigi að síður um 76 milljarða dala 2013, litlu minna en methagnaðarárið 2006. Það tónar við skoðanir margra sem tala fyrir nýju bankakerfi, einfaldlega vegna þess að í brotaforðakerfi skiptir engu hve hár sektir bankar fá, þeir prenta sig alltaf út úr vandanum.

En þessar sektir segja ekki alla söguna því bankarnir hafa þurft að eyða gríðarlegum fjármunum til viðbótar í lögfræðikostnað og dómsmál. Í ágúst 2013 reiknaðist Bloomberg fréttaveitunni svo til að áðurnefndir sex bankar væru búnir að greiða 103 milljarða dala í lögfræðikostnað og málalyktir. Það jafngilti öllum arði sem hluthafar höfðu fengið árin fimm á undan.

Bank of America borgar metsekt

Síðasta stóra sektin féll á Bank of America sem í ágúst síðastliðnum samþykkti að greiða tæpa 16,7 milljarða dala eða tvö þúsund og eitthundrað milljarða íslenskra króna. Sektin er refsing fyrir að villa um fyrir fjárfestum sem keyptu húsnæðislán af bankanum stuttu fyrir efnahagshrunið árið 2008.  Við þetta tilefni var haft eftir Eric Holder, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, að hann fagnaði samningnum við bankann og kallar hann „stórt skref fram á við“. Hluti sektarinnar var greiddur í ríkissjóð en hluti upphæðarinnar átti að renna til lántakenda.

Lánin sem hér um ræðir voru upphaflega veitt af Countrywide Financial og Merrill Lynch eða áður en Bank of America keypti fjármálafyrirtækin árið 2008, í miðri bankakrísunni. Haft var eftir einum ákæranda, þegar niðurstaðan lá fyrir, að engin lánastofnun væri of stór eða öflug til að komast undan refsingu, (e no institution is either too big or too powerful to escape punishment.)

Með þessu tók Bank of America óvinsælt met af JPMorgan fjárfestingabankanum sem hafði árið 2013 samþykkt að greiða sem svaraði 13 milljörðum bandaríkjadala í sekt vegna rangra upplýsinga til lántakenda í húsnæðiskrísunni.

Fleiri dæmi

Og við getum tekið mörg önnur dæmi. Í október 2011 samþykkti bandaríski bankinn Citigroup að greiða stjórnvöldum 285 milljónir Bandaríkjadala, um 37 milljarða króna. Verðbréfa- og kaupþingsnefnd Bandaríkjanna, SEC, sakaði bankann um að hafa blekkt fjárfesta með því að bjóða þeim að fjárfesta í afurðum sem snéru að húsnæðisskuldabréfum. Bankinn var sakaður um að hafa selt fjárfestum húsnæðislánavafninga, en sjálfur tekið stöðu gegn þeim. Fjárfestar voru ekki upplýstir um stöðu bankans gegn þeim. Citigroup samdi sig frá frekari dómsmálum vegna málsins, meðal annars til að þurfa ekki að staðfesta ásakanir yfirvalda. Skömmu áður hafði Credit Suisse sömuleiðis samið sig frá viðlíka máli, og greitt 2,5 milljónir dala án þess að staðfesta né neita ásökunum um blekkingar.

En það eru ekki bara blekkingar í húsnæðislánum sem bankar eru að borga fyrir. Rangindi við hlutabréfaútboð er eitthvað sem þeir hafa þurft að greiða fyrir undanfarið. Og einnig svik á gjaldeyrismarkaði. Í nóvember síðastliðnum voru bandarískir og evrópskir bankar sektaðir um 3,2 milljarða dala, 412 milljarða króna, fyrir markaðsmisnotkun á gjaldeyrismarkaði. Það voru fjármálaeftirlit Bretlands, Bandaríkjanna og Sviss, sem höfðu umsjón með rannsókninni sem teygði sig um allan gjaldeyrismarkað heimsins. Fimm bankar voru sektaðir; bresku bankarnir HSBC og Royal Bank of Scotland (RBS), bandarísku bankarnir Citigroup og JPMorgan Chase og svissneski bankinn UBS. Aldrei áður hafa bankar þurft að greiða jafn háa fjárhæð í sekt vegna gjaldeyrisviðskipta.

Þegar Eliot Spitzer, saksóknari New York, réðist gegn spillingu í bandarískum fjárfestingarbönkum í upphafi síðasta áratugar sagði hann að vandamálið við svikamyllu bankanna væri að hún virtist vera orðin hluti af viðskiptalíkani þeirra. Það sama ætti við um fjárfestingarsjóði og vogunarsjóði. Þetta voru umdeild ummæli á sínum tíma og eru það enn í dag. Á hverjum tíma verða stjórnvöld að fást við þessa risavöxnu gerendur í fjármálalífi, evrópska módelið er að herða regluverkið og þrengja að starfsemi bankanna, það bandaríska er síður heftandi en sektirnar þess meiri. Menn verða svo að meta hvort er árangursríkara.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.