c

Pistlar:

25. mars 2015 kl. 21:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stafræna byltingin og vinnumarkaðurinn

Í upphafi 20. aldar unnu 38% allra starfandi manna í Bandaríkjunum í landbúnað. Í upphafi 21. aldar var þetta hlutfall komið niður í 2%. Fyrir 100 árum hefði engin geta sagt til um í hvaða störf þessi 36% sem færðu sig til færu, hvað þá að benda á fyrirbæri eins og hugbúnaðariðnað eða þjónustu eða annað það sem tekur störfin til sín í dag. Eða ferðaþjónustu sem gleypir flest ný störf á Íslandi í dag. Hefðum við Íslendingar getað séð það fyrir að um fjórðungur landsmanna starfi við ferðaþjónustu eins og nú er að verða að veruleika?

Hvað um það - þetta sýnir vel þá gríðarlegu breytingu sem orðið hefur í samfélaginu og er vitaskuld vísbending um hvaða breytingar eru framundan. Eins og vanalega getum við sagt það eitt, að allt breytist. Breytingarnar ná ekki bara til starfanna heldur einnig umgjörðar þeirra, sjálfs fyrirtækjarekstursins. Líftími fyrirtækja er miklu skemmri en líftími opinberra stofnana. Helmingur stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna árið 1980 er nú horfinn vegna yfirtöku eða gjaldþrota, og helmingur stærstu fyrirtækja dagsins í dag var ekki til árið 1980. Hið sama verður ekki sagt um opinberar einokunarstofnanir, þær deyja ekki, hve vanhæfar sem þær eru eins og Matt Ridley lýsir í bók sinni, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves), en til hennar hefur verið vitnað áður hér í pistlum. Án efa hafa tæknibreytingar minni áhrif á hið opinbera en einkageirann en undanfarið höfum við þó séð tilhneigingu til að skipta um nöfn ráðuneyta, stundum bara til þess að geta þó sýnt fram á þá breytingu.

Stafræna byltingin breytir kröfum til vinnuafls

Það er kannski klisja en við lifum nú miklar tæknilegar breytingar sem munu hafa gríðarleg áhrif á líf okkar flestra og lífshætti. Um leið er ljóst að kröfur til vinnuafls eru að breytast þar sem hin stafræna bylting (e. digital revolution) mun taka yfir stöðugt fleiri störf. Það þarf ekki að lifa í heimi píratans til að átta sig á þeim umskiptum sem eiga stað vegna Internetsins. Úr þeim rafræna samskiptaheimi kemur drifkraftur breytinga, bæði á sviði framleiðslu en þó ekki síður samskipta.

Allar tæknibreytingar hafa í för með sér félagslega áraun, störf tapast vegna vélvæðingar og vaxandi kröfu um aukna framleiðni. Vinnuaflsmarkaðurinn finnur yfirleitt mest fyrir þessu. Nú erum við að sjá að sú sjálfvirkni sem tækniróbótar hafa yfir að ráða er að taka til sín störf í greinum sem við höfum ekki séð áður. Í ríkari löndum getur þetta leitt til frekari ójöfnuðar og höggvið skörð í millistéttina. Á sama tíma gæti iðnvæðing orðið vandasamari í mörgum þróunarríkjum. Spurningin er hvaða truflun á þjóðskipulaginu þessar breytingar valda og hvernig við getum sem best aðlagast.robot

Þegar flest okkar hugsa um um sjálfvirkni höfum við tilhneigingu til að hugsa um vélmenni (róbóta) sem taka vinnu óhaglæðra verkamanna og taka yfir einföld vélræn störf. Við sjáum reyndar að þeir hafa áhrif víða. Nýlega var greint frá því við mikinn fögnuð að nýr róbót hefði verið tekin í notkun á Landspítalanum. Slíkir róbótar geta aukið framleiðni við flóknar lækningaaðgerðir, ýmist stutt við mannshöndina eða komið í stað hennar. Tilvera þeirra staðfestir gríðarlegar breytingar á starfi skurðlækna, ekki að þeim fækki heldur að afkastageta og færni þeirra eykst.

Skrifstofustörf í hættu

Breytt upplýsingatækni hefur leitt til umskipta á mörgum vélrænum og ófaglærðum störfum. Störf sem hafa ekki tiltekna hugsanavirkni og fremur vélbundin og því geta vélmenni tekið þau yfir. Mörg skrifstofustörf sem krefjast taktbundinna (vélritun) og vélrænan hreyfinga eru nú gerð af vélum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um að færibandastörf eru nú flest að verða á færi véla og bílaiðnaðurinn telst ekki samkeppnishæfur nema með hlutfall róbóta aukist stöðugt.

Á sama tíma hafa starfsmenn með meiri menntun grætt á fjölgun atvinnutækifæra. Um leið og geta vélanna eykst og þær verða klárari” þá verða mennirnir einnig að herða sig.

Róbótar og vélvæðing er sannarleg ógn fyrir stóran hluta vinnuafls og fyrir sumum vefst að sjá hvaða afleiðingar það hefur fyrir vinnuafl. Og eins og vanalega óttast margir fremur að þetta leiði til þess að einhverjir hagnist og hafa minni áhyggjur af glötuðum tækifærum. Þeir sem hugsa slíkt eru fljótir til að grípa til orðfæris stéttabaráttunar og segja: Ef þú ert ekki fæddur í efri stéttina hefur þú ekki möguleika. Andstæðurnar munu áfram lifa, hverjar sem tæknibreytingarnar verða.

45% starfa í hættu

Í þróuðum samfélögum eins og Bandaríkjunum er vélvæðing róbótanna farin að ógna fleiri tegundum verka.  Kannanir sýna að 45% starfa í Bandaríkjunum eru í hættu að verða sjálfvirkninni að bráð á næstu áratugum.

Í nýlegri grein Economist tímaritsins kom fram að þessi störf eru þrennskonar:

Ekki mjög krefjandi í sköpun.

Ekki mjög krefjandi í félagsfærni.

Ekki krefjandi í stjórnun eða stýringu (e. manipulation)

En þýðir þetta að allir verði að hafa háskólamenntun? Ja, það erfitt að segja. Líklega munu margskonar millistörf, eins og að afgreiða í banka, dragast saman eða hverfa algerlega. Fólk þar verður að auka talsvert færni sína á vinnumarkaði.

Viðskiptalífið hefur alltaf reynt að framleiða meira með færri höndum/verkamönnum og vitaskuld hafa tækniframfarir hjálpað til.  Við mennirnir getum hugsanlega huggað okkur við að þó tölvur geti leyst mjög flókin vandamál sem eru ekki á færi manna þá hafa þær ekki getuna til að spyrja réttu spurninga og knýja þannig þekkingarleitina áfram. Þar höfum við áfram vonandi eitthvað fram að færa.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.