c

Pistlar:

12. maí 2015 kl. 15:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sameiginlegur vinnumarkaður eða fólksflótti?

Allt frá árinu 1954 hefur samningur um sameiginlegan norrænan vinnumarkað gert norrænum borgurum kleift að starfa og setjast að í norrænum nágrannaríkjum. Norrænn vinnumarkaður er einn samþættasti svæðisbundni vinnumarkaður í heimi og margar viðbætur hafa verið gerðar við samninginn frá 1954. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að tilflutningur sé á vinnuafli á milli þessara landa þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á að gera fólki sem auðveldast að leita að störfum í löndunum. Þessi samningur hefur fengið margar viðbætur en auk þess er önnur megin stoði Íslands á alþjóðlegum vinnumarkaði í gegnum EES samninginn og hinn sameiginlega vinnumarkað Evrópu. Allt er gert til að auðvelda þessa aðlögun vinnuafls og má sem dæmi taka að Vinnumálastofnun hefur í samstarfi við Norræna félagið á Íslandi boðið upp á námskeið fyrir fólk sem vill flytja til Norðurlanda um lengri eða skemmri tíma.

Við höfum séð það í gegnum tíðina að þegar áföll eiga sér stað þá flytja Íslendingar sig til og þá helst til Norðurlanda. Það gerðist með áberandi hætti í kjölfar hruns síldarinnar á sjöunda áratugnum og gerðist aftur í kjölfar bankahrunsins 2008. Þessu til viðbótar hefur það gerst að ásókn hefur verið í sérhæft starfsfólk frá Íslandi en hvorki Noregur og Svíþjóð geta uppfyllt eigin þarfir þegar kemur að heilbrigðisstarfsmönnum. Starfsmannaleigur á Íslandi leigja nú bæði lækna og verkfræðinga til Noregs svo dæmi séu tekin.norden

Oftúlkaðar tölur um brottflutning

Skýrsla Hagstofunnar um mannfjöldabreytingar á 1. ársfjórðungi hefur orðið ýmsum tilefni til fréttaskrifa og bloggskrifa, oft undir heldur neikvæðum formerkjum. Hagstofan sjálf sagði reyndar í fyrirsögn að frétt sinni að landsmönnum fjölgaði um 700 á fyrsta ársfjórðung þannig að Íslendingum er að fjölga, svo það sé á hreinu.

Þegar tölurnar eru skoðaðar nánar sést að brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 370 umfram aðflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 660 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Það er afskaplega óvarlegt að túlka þetta sem sönnun þess að ein fjögurra manna fjölskylda hafi flutt af landi brott hvern einasta dag ársins á 1. ársfjórðungi eins og borið hefur á. Hvernig er hægt að segja slíkt þegar ekkert er vitað um samsetningu hópsins? Hvað þá að fullyrða að þetta fólk sé flúið land eða að landsflótti sé að aukast á ný? Það þekkist nú sem áður að fólk flytji milli landa til að kanna nýja kosti eða af hreinni og klárri ævintýralöngun. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnunar eru flestir þeir sem sækja námskeið þeirra námsmenn sem eru að fara til Norðurlanda. Það má jafnvel leyfa sér að ætla að heldur færist í vöxt að námsmenn leyti þangað. Bæði hefur fólki vaxið kjarkur til að fara út til náms með batnandi hag hér heima og einnig hitt að Norðurlöndin eru fýsilegri staður til að fara í framhaldsnám en áður, meðal annars vegna hækkandi skólagjalda í Ameríku.

En að lokum er það eitt sem skiptir máli umfram annað og það er hvernig hagkerfinu gengur að skapa ný störf. Ef tölur Hagstofunnar á milli mars 2014 og mars 2015 eru skoðaðar þá blasir við að starfandi fólki hér á landi fjölgaði um hvorki meira né minna en 10 þúsund. Það lýsir ekki vinnumarkaði í samdrætti eða vinnumarkað sem fólk er að flýja frá.

Vinnumarkaður ungs fólks í góðu horfi

Þátttaka í atvinnulífi er mikilvæg forsenda vellíðunar einstaklingsins og jafnframt einn af hornsteinum norrænu velferðarsamfélaganna eins og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra sagði á síðasta ári  þegar hún kynnti áherslur Íslands í norrænu samstarfi á sviði vinnumála. Þar benti hún á að efnahagskreppur undanfarinna ára hafa dregið úr möguleikum fólks með skerta færni á þátttöku í atvinnulífi. Mikilvægt er að sporna áfram gegn atvinnuleysi ungs fólks og þeirra sem minna mega sín.  Norrænu ríkin hafa það markmið að öllum gefist tækifæri til virkrar þátttöku á vinnumarkaði. Vinnumarkaður ungs fólks er einmitt eitt þeirra atriða sem Íslendingar geta verið hvað stoltastir yfir. Nú í sumarbyrjun eru flest heimili að venju með áhyggjur af því hvort unga fólkið fái vinnu. Nú virðist flest benda til að horfur séu góðar, og ekki síður hjá því unga fólki sem lokið hefur framhaldsnámi.

Hinn norræni vinnumarkaður hefur undanfarið staðið frammi fyrir mörgum sameiginlegum áskorunum í kjölfar fjármálaþrenginga og afleiðinga lýðfræðilegra breytinga. Ein mikilvægasta áskorun norrænu landanna er að auka framboð vinnuafls en það má meðal annars gera með því að lengja starfsævina og gera aðgang jaðarhópa samfélagsins greiðari að vinnumarkaðnum. Önnur mikilvæg áskorun felst í því að starfsmenn búi yfir þeirri hæfni og þekkingu sem eftirspurn er eftir á vinnumarkaði. Að sporna gegn atvinnuleysi ungs fólks og virkja þá sem hætt er við útilokun frá þátttöku á vinnumarkaði og í samfélaginu almennt er forgangsmál í norrænu samstarfi. Á báðum þessum sviðum virðast Íslendingar standa ágætlega.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.