c

Pistlar:

13. júní 2015 kl. 10:20

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Allir vinna!

Nú þegar sumarið er að hefjast gæti athygli fólks beinst að því að eina tegund frétta vantar. Fréttir af því að ungt fólk fái ekki sumarstörf. Það eru engar fréttir um slíkt, sem betur fer. 1. maí var líka áberandi að engin skilti voru að krefjast þess að störf yrðu sköpuð eða eitthvað væri gert til að taka á atvinnuleysinu. Líklega mætti ætla að 1. maí kröfugerðin hefði verið undirlögð undir kröfuna um ný störf ef atvinnuleysi væri nálægt 10% eða hærra eins og þekkist svo vel í Evrópu. Í dag birtust tölur á vef Vinnumálastofnunar sem sýna að skráð atvinnuleysi nú í maí var 2,9%, en að meðaltali voru 5.157 atvinnulausir í maí og fækkaði atvinnulausum um 478 að meðaltali frá apríl eða um 0,5 prósentustig. En ástandið hefur ekki alltaf verið svona.

Það eru erfiðir tímar,

það er atvinnuþref,

segir í Maístjörnu Halldórs K. Laxness og við minnumst kreppuáranna og atvinnuleysisins. Við Íslendingar getum hins vegar verið þakklát fyrir hátt atvinnustig núna enda hefur störfum fjölgað um 10 til 12 þúsund síðan núverandi ríkisstjórn tók við. Margt bendir til þess að spenna sé að skapast á vinnumarkaði og hjá sumum atvinnurekendum heyrist áhyggjutónn yfir því að fá ekki starfsfólk. Á Íslandi býðst því mikið af störfum þessa stundina þó það sé ekki þar með sagt að allir fái þau störf sem þeir vilja. Það má því segja að slagorðið Allir vinna! eigi vel við núna þó það hafi verið sett fram af öðru tilefni.  Það er einnig rétt sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins benti á í útvarpsviðtali í aðdraganda kjaraviðræðna að fjöldaatvinnuleysi er Íslendingum framandi og allt verður að gera til að koma í veg fyrir það.atvinnuleysi

Kippurinn kom 2013

Í vinnumarkaðsskýrslu Vinnumálastofnunar frá því í apríl síðastliðnum kom fram að undanfarin tvö ár hefur störfum aftur farið fjölgandi á Íslandi eftir litlar breytingar frá hruni. Þar var bent á að miklar sveiflur hafa verið í fjölda starfa síðasta áratug einkum meðal karla. Þannig fjölgaði störfum um nálægt 8.000 bæði árin 2006 og 2007, en fækkaði svo skarpt í kjölfar hrunsins, litlar breytingar urðu á árunum 2010 og 2011, en fjölgun hefur orðið síðan, einkum árið 2013 þegar fjölgaði um nærri 6.000 störf, en einnig árin 2012 og 2014.

Verðum að treysta á innflutning fólks

En það er enn merkilegra að skoða spá Vinnumálastofnunar. Stofnunin bendir á að svo virðist sem fólki á vinnumarkaði muni fjölga heldur minna en sem nemur fjölgun starfa næstu ár og er mismunurinn nálægt 1.000 manns á ári. Með öðrum orðum - íslenskur vinnumarkaður mun þurfa að treysta á innflutning vinnuafls til að mæta þörfum markaðarins. Atvinnulausum mun því fækka samsvarandi um nálægt 1.000 manns ári, sem er svipuð fækkun og verið hefur síðustu 4 ár samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar. Atvinnuleysi mun því áfram fara lækkandi og fara úr 5% á árinu 2014 í um 3,1% árið 2017 gangi hagvaxtarspár eftir að mati Vinnumálastofnunar.

Vissulega er það svo að fjölgun starfa frá 2011 virðist mikið til vera tengd ferðaþjónustu s.s. í veitinga- og gistiþjónustu, flutningastarfsemi, starfsemi ferðaskrifstofa og verslun að einhverju leyti. Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að nokkur fjölgun varð í byggingariðnaði 2013 en fjöldi starfandi í greininni stóð svo í stað á árinu 2014. ætla má þó að þeim fjölgi á árinu og líklega verða sum áætluð stórverkefni ekki framkvæmd nema af innfluttu vinnuafli. Þá hefur störfum fjölgað nokkuð í fræðslustarfsemi síðustu ár.

Fylgni milli hagvaxtar og starfa

Hafa verður í huga að allnokkur fylgni er eðlilega milli hagvaxtar og fjölgunar eða fækkunar starfa. Alla jafna er hlutfallsleg fjölgun starfa nokkrum minni en hagvöxtur þannig að fjölgun starfa liggur nálægt 0,5% fyrir hvert prósentustig hagvaxtar.

Síðustu þrjú árin hefur hlutfallsleg fjölgun starfa á hinn bóginn verið nánast sú sama og hagvöxtur, enda virðist vöxtur í ferðaþjónustu vera mannaflafrekari en vöxtur ýmissa annarra greina sem byggja meira á fjárfestingu í tækni og mannvirkjum.

Spár gera almennt ráð fyrir að hagvöxtur verði töluverður á Íslandi næstu árin. Seðlabankinn spáir í Peningamálum í febrúar s.l. yfir 4% hagvexti árið 2015 og milli 2,5 og 3% hagvexti næstu ár þar á eftir. Gert er ráð fyrir að vöxturinn og fjölgun starfa muni smám saman ná til fleiri sviða og ekki verða eins bundinn ferðaþjónustu og verið hefur.

Fjárfesting tók nokkurn kipp á árinu 2014 og má gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram næstu ár. Þá hefur verið gert átak í að auka aðgang frumkvöðla- og sprotafyrirtækja að fjármagni til þróunar og fjárfestinga í gegnum sérstaka sjóði sem m.a. lífeyrissjóðir eiga hlut í.

3.800 ný störf á árinu

Vinnumálastofnun gerir því ráð fyrir að störfum muni fjölga um nálægt 3.800 á árinu 2015, um 2.500 árið eftir og um 2.300 árið 2017 eða samtals ríflega 8.500 störf á næstu þremur árum. Gert er ráð fyrir að ný störf næstu 3 árin verði að stórum hluta til í greinum sem tengjast ferðaþjónustu.

Þá er því einnig spáð að umsvif í byggingariðnaði muni aukast næstu ár bæði vegna aukinnar þarfar almennt fyrir uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis eftir nokkurra ára stöðnun í greininni og eins vegna áforma um uppbyggingu stóriðju og virkjana sem gert er ráð fyrir að fari vaxandi á næstu árum. Því tengist fjölgun starfa í ýmsum tengdum greinum iðnaðar og þjónustu s.s. starfsemi verkfræði- og arkitekastofa og öðrum afleiddum greinum.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.