c

Pistlar:

3. ágúst 2015 kl. 12:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Örstutt haglýsing

Að öllu jöfnu hægist á íslenska hagkerfinu yfir sumarmánuðina. Sá háttur Íslendinga að vera að skjótast í sumarfrí allt sumarið veldur þar mestu en sumar atvinnugreinar eru árstíðaskiptar. Nú í kringum verslunarmannahelgina er hvað mest ró yfir öllu. Það er nánast eins og slökkt hafi verið á hagkerfinu.

En þrátt fyrir það koma á borð okkar margvíslegar tölur sem við verðum að taka alvarlega og setja í samhengi. Segja má að sumarið hafi verið uppfullt af uppgangi ferðaþjónustunnar og augljóst að aukningin þar er umtalsverð, eitt árið enn. Er nú svo komið að menn hafa litlar áhyggjur af viðskiptajöfnuðinum. Þjónustujöfnuðurinn mun bera hann uppi og gott betur. Við sjáum einnig að margar verslunar- og þjónustugreinar eru að eflast mjög, þökk sé ferðaiðnaðinum. Það sést t.d. af því að á fyrri hluta þessa árs keyptu bílaleigur 5.321 nýja bifreið og er það 19,2% meira en allt árið í fyrra. Þá seldust 4.462 nýir bílar til bílaleiga. Er nú svo komið að bílaleigur kaupa meirihluta nýrra bíla sem seldir eru á Íslandi eins og var rakið í fréttaskýringu Morgunblaðsins um helgina.

Af sama toga eru upplýsingar um að sala á íslensku lambakjöti hafi verið góð að undanförnu og síðustu tólf mánuði, frá 1. júlí að telja, hefur verið 6% söluaukning frá sama tímabili árið á undan. Eitthvað verða allir þessir útlendingar að borða! Augljóst er að íslenskur matvælaiðnaður mun njóta góðs af því í framtíðinni og nú þegar er umtalsverður skortur á innlendu nautakjöti sem óvíst er að verði leyst með innlendri framleiðsluaukningu.hagsæld

En helstu stærðir eru jákvæðar, horfur eru á að hagvöxtur og atvinnuleysi verði á líku róli, í kringum 4%. Það er einstakur árangur. Verðbólga er ásættanleg þó að verðbólguvæntingar hafi aukist eins og sést af hækkun stýrivaxta. Heimili landsins og ríkissjóður eru að lækka skuldir um leið og kaupmáttur vex. Það hefur í för með sér að neysla fer vaxandi sem mun um hafa jákvæð áhrif á ríkissjóð. Enn sem komið er er ekki tímabært að tala um þenslu í hagkerfinu þó menn verði að vera á varðbergi.

Allt hefur þetta jákvæð áhrif þegar kemur að hinu félagslega sviði eins og sést glögglega af því að hlutfall fólks sem skorti efnisleg gæði á Íslandi lækkaði úr 6,6% í 5,5% milli áranna 2013 og 2014. Ekkert bendir til annars en að þetta hlutfall geti lækkað enn frekar á næstunni.

En lítum á nokkrar nýlegar tölur:

  • 5,9 millj­arða króna halli var á vöru­skipt­um við út­lönd á fyrri helm­ingi árs­ins 2015, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Hag­stofu Íslands. Á sama tíma í fyrra voru vöru­skipt­in óhag­stæð um 9,8 millj­arða króna. Vöru­skipta­jöfnuður­inn er því 3,9 millj­örðum hag­stæðari í ár en í fyrra.
  • Eignir lífeyrissjóðanna hérlendis hafa vaxið um þriðjung að raunvirði frá árinu 2008. Þannig hafa eignir þeirra aldrei mælst meiri en í árslok 2014 þegar þær námu 2.925 milljörðum króna. Í árslok 2008 voru eignirnar metnar á 1.598 milljarða og höfðu þá rýrnað töluvert frá fyrra ári þegar þær námu 1.697 milljörðum króna. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu í dag. Raunávöxtun þeirra nam 7,1% að meðaltali. Til samanburðar nam raunávöxtun þeirra árið á undan 5,3% að meðaltali.
  • Öll þrjú stærstu alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtækin; Fitch, Standard og Poor's og Moody´s hafa hækkað lánshæfismat ríkissjóðs, eingöngu á grundvelli haftaafnámsáætlunar ríkisstjórnarinnar. Leiðarahöfundur DV telur að innan 10 til 18 mánaða verði ríkissjóður kominn með A einkunn.
  • Nýskráningum einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá júlí 2014 til júní 2015, hefur fjölgað um 11% samanborið við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 2.173 ný félög skráð á tímabilinu. Mest er fjölgun nýskráninga í flokknum Byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, 48% á síðustu 12 mánuðum.
  • Gjaldþrot einkahlutafélaga síðustu 12 mánuði, frá júlí 2014 til júní 2015, hafa dregist saman um 12% samanborið við 12 mánuði þar á undan. Alls voru 744 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu. Gjaldþrotum í flokknum framleiðsla hefur fækkað mest, eða um 24% á síðustu 12 mánuðum.
  • Alls greiddu erlendir ferðamenn 18,4 milljarða króna með greiðslukortum sínum hérlendis í júní en það er 32,4% meira en í sama mánuði í fyrra og 65% meira en í júní árið 2013. Sumarmánuðirnir júní, júlí og ágúst eru jafnan veltuhæstu mánuðir ársins og er útlit fyrir að samanlögð velta þessara þriggja mánaða verði um 66 milljarðar þetta árið eða 35% meiri en í fyrra.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.