c

Pistlar:

15. september 2015 kl. 16:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fjárlög á fimm mínútum

Þriðja árið í röð er fjárlagafrumvarpið lagt fram með afgangi og er gert ráð fyrir 15,3 milljarða króna afgangi á fjárlögum árið 2016. Það er þrisvar sinnum betra en 3,6 milljarða króna afgangur, sem gert var ráð fyrir í fjárlögum 2015. Rekstrarafgangurinn verður líklega hlutfallslega meiri en nokkurs staðar annars staðar í Evrópu að Noregi undanskildum.

Í fjárlagafrumvarpinu er nú lagt upp með hóflegra aðhald í vexti frumútgjalda en síðustu ár. Forgangsraða á fjármunum sérstaklega í þágu almannatrygginga, heilbrigðis- og menntamála. Engin krafa verður t.d. gerð um um aðhaldsráðstafanir á almannatryggingar og atvinnuleysistryggingar eins og verið hefur á síðustu árum. Því er ekki óeðlilegt að segja að ríkisstjórnin sé að kynna velferðarfjárlög, byggð á sterkum efnahagslegum grunni.

Sem dæmi má nefna að hrein aukning framlaga til heilbrigðis- og félagsmála á kjörtímabilinu nemur 26 milljörðum króna og er þá bæði búið að undanskilja launa- og verðlagshækkanir. Þetta samsvarar því að hálfur Landspítali hafi bæst við velferðarútgjöldin á kjörtímabilinu. Allar líkur eru á því að svigrúm verði til að gera enn betur á næstu árum.

Eins og  áður segir er ríkissjóður Íslands er rekinn með afgangi þriðja árið í röð Þetta skiptir gríðarmiklu máli því það þýðir að við, ólíkt flestum Evrópulöndum, erum við hætt að safna skuldum, við erum að greiða þær niður. Afgangur af frumjöfnuði verður áfram verulegur, eða um 73 milljarðar króna sem er meira en í flestum öðrum löndum um þessar mundir.Fjarlagafrumvarp2016-2

Lífeyrismál efld

Lífeyrir eldri borgara og öryrkja verður hækkaður meira á næsta ári en nokkru sinni áður. Þá er gert ráð fyrir 9,4% hækkun á bótum elli- og örorkulífeyrisþega og atvinnuleysisbóta. Þó eru stjórnvöld meðvituð um að þar megi ekki láta staðar numið og haldið verður áfram að skoða málið.

Framlög til vísinda efld

Framlög til vísinda, rannsóknar- og þróunarstarfs verða áfram stóraukin og rekstur helstu menningarstofnana efldur. Stutt er við nýsköpun og vísindi með verulega auknum framlögum til þessara mála. Aukningin nemur 2 milljörðum króna á næsta ári, á grundvelli stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2014–2016.

Breytingar á skattlagningu

Ráðist hefur verið í verulegar breytingar á skattlagningu og gjaldtöku ríkisins með það að markmiði að styrkja heimilisbókhald fólks með millitekjur og lægri tekjur.

Það má því áfram gera ráð fyrir að kjör allra batni, en þó sérstaklega millitekju- og lágtekjufólks, og þannig batni lífskjör á Íslandi áfram en um leið aukist jöfnuður áfram.

Tekjuskattur lægri- og  millitekjuhópa lækkar og tollar verða afnumdir á yfir 1600 vöruflokkum en með því styrkja stjórnvöld stöðu íslenskra neytenda og íslenskrar verslunar.

Stærsta breytingin snýr að tekjuskatti einstaklinga og afnámi tolla á fatnað og skó. Stefnt er að því að tollar á fatnað og skó verði afnumdir við næstu áramót. Þá er jafnframt áformað að allir aðrir tollar en þeir sem leggjast á tiltekin matvæli verði lagðir af 1. janúar 2017. Greiðslur barnabóta halda áfram að hækka, en frumvarpið gerir ráð fyrir 3% hækkun bótafjárhæða.

Niðurfelling tolla

Niðurfelling tolla hefur umtalsverð áhrif á smásöluverð.

Ætla má að vísitala neysluverðs geti lækkað um allt að 0,5% á árinu 2016 og nái 1%  lækkun árið 2017.

Ráðstöfunartekjur heimila hækka með þessu en aðgerðinni er jafnframt ætla að stuðla að að samkeppnishæfari verslun á Íslandi. Alls lækkar bein álagning af hálfu ríkisins á innfluttar vörur um 4,4 milljarða króna.

Skuldahlutfallið lækkar hratt

Skuldahlutfall ríkissjóðs af landsframleiðslu hefur lækkað ört síðustu ár.

Skuldaþróunin verður enn þá hagstæðari en samkvæmt stefnumiði voráætlunar þessa árs. Áætlað er að nafnvirði heildarskulda lækki um 15% á tímabilinu í stað um 10% og að hlutfall heildarskuldanna af VLF lækki um 21% í stað 18%.

Í lok þessa árs er gert ráð fyrir að skuldahlutfallið  verði 62% af landsframleiðslu og um 50% í lok árs 2016, en hlutfallið fór hæst í 85% í lok árs 2011. þetat er ótrúlegur umsnúningur.

Við erum að nálgast svipaðan stað og Þýskaland og Holland. Vaxtagjöld ríkissjóðs lækka um 8,1 milljarða króna á næsta ári miðað við gildandi fjárlög. Mestu munar um uppgreiðslu skuldabréfs vegna endurfjármögnunar Seðlabanka Íslands eftir fjármálahrunið.

Stjórnvöld stafna að því að greiða niður skuldir sem auka ekki peningamagn í umferð og þar ber fyrst að nefna skuldabréfið sem er á milli Seðlabankans og ríkissjóðs.

Framlög til heilbrigðismála aukast

Framlög til heilbrigðismála aukast, svo sem með styrkingu á rekstrargrunni sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana, auknum framlögum til heilsugæslunnar og til framkvæmdaáætlunar um byggingu nýrra hjúkrunarheimila. Jafnframt er gert ráð fyrir framlögum til að ljúka hönnun meðferðarkjarna Landspítala og byggingu sjúkrahótels. Ríkisstjórnin hefur verið að auka verulega framlagið til heilbrigðismála.