c

Pistlar:

11. október 2015 kl. 14:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Spilavíti, Uber og tækifærin í Ameríku

Stærð og umfanga bandaríska hagkerfisins ætti flestum að vera ljóst. Það er áhugavert að fá að kynnast því í nálægð en stutt ferð til Washington DC gefur ágæta innsýn í hvernig hlutirnir eru gerðir í landi tækifæranna. Mikill uppgangur einkennir Washington svæðið um þessar mundir. Má sem dæmi taka að flugvöllurinn (Washington Dulles International Airport) er nýuppgerður með miklum viðbótum og ekki síður hótelsvæðið við National Harbor, suður í Maryland en þar er risastórt ráðstefnuhótel (með 2000 herbergjum) þungamiðja í nýju atvinnu- og íbúðasvæði. Hótelið sjálft er ígildi stóriðjuvers með um 1000 störfum og afleiddri starfsemi. Á National Harbor svæðinu er augljóslega ætlunin að halda áfram uppbygginu og risavaxið spilavíti og hótel er að rísa í jaðri svæðisins. Þar standa á milli 20 og 25 byggingakranar upp úr jörðinni og filipískur Uber-bílstjóri gat ekki leynt spenning sínum. Sagði að þetta nýja spilavíti myndi stytta höfuðborgarbúum mjög leiðina að grænu borði áhættunnar. Heimsókn í splunkunýja verslunarmiðstöð í Springfield sýndi að bandarískir neytendur eru fullir sjálfstrausts þó ekki geti ég sagt að ég hafi hrifist af umhverfinu. Satt best að segja kom manni á óvart hvað bandarískir neytendur láta stíl og arkitektúr sig litlu skipta. En auðvitað á maður ekki að alhæfa út frá einu dæmi.

Allt Washington svæðið virðist í uppbyggingu og greinilegt að stjórnsýsla auðugasta ríkis heims kallar á stöðugt meiri umsvif. Áberandi voru gríðarlegar endurbætur á samgöngumannvirkjum þó flestir teldu innviði samgöngumála nokkuð myndarlega fyrir. Á borgarmörkunum hlykkjast bílarnir í gegnum steypukastala og umferðaslaufur sem eru engu líkar. Þetta er að sjálfsögðu ekki bundið við Washington enda flestar borgir heims að glíma við að ná tökum á almenningssamgöngum. Þannig tók pistlahöfundur eftir því í Madríd fyrir skömmu að þegar keyrt var út á flugvöll úr miðbænum þá var það langleiðina í gegnum neðanjarðarmannvirki, frekar nýleg. Dagar bílsins eru sannarlega ekki taldir í Washington en margt er eigi að síður að breytast enda mikil áhersla á að efla almenningssamgöngur og ekki síst hjólreiðar. Borgin hefur ráðist í mikla hjólavæðingu og standa nú ókeypis hjól til boða út um allt. Ekki sér maður þó mikið af sérstökum hjólreiðastígum en Washington búar segja stoltir að New York sé nú að leita í reynslubrunn þeirra á þessu sviði.2015-10-05 15.47.48

Öflugt hagkerfi

Bandarísk hagkerfi stendur traustum fótum eins og kemur fram í nýlegri úttekt The Economist tímaritsins. Þar er þó vakin athygli á því sem hugsanlega er ástæða til að hafa mestar áhyggjur af, veikari stjórnmál og veikari málefnagrunnur og um leið tækifærissinnaðri stjórnmálamenn. Margt hefur gengið á í samskiptum þingsins í gegnum tíðina en nú finnst mörgum að keyri um þverbak. Reyndur stjórnmálamaður tjáði mér að hann hefði aldrei orðið vitni að öðrum eins munnsöfnuði og nú tíðkaðist í kringum kosningarnar. Á sama tíma virðast forkosningarnar helst snúast um fólk sem engin hefur trú á að verði að endingu kosið forseti Bandaríkjanna. Forkosningar flokkanna snúast oftar en ekki um að brýna málefnastöðuna en að lokum er reynt að velja þann sem er talin líklegastur til að verða kosinn á landsvísu. Menn byrja að tala sig utan af kanti stjórnmálanna inn á miðju, eins  og á við um flest lönd. En til að ná kjöri í valdamesta embætti heims þurfa menn að safna gríðarlega miklum fjármunum. Nokkuð sem allir segja að Clinton-hjónin séu afskaplega góð í. Nú, ólíkindatólið Donald Trump virðist ekki þurfa að hafa áhyggjur af fjársöfnunum, á líklega nóga peninga til að reka eina kosningabaráttu. Hann hefur haldið sér ótrúlega lengi inni í baráttunni og heldur enn athyglinni og hugsanlega er það það sem fyrir honum vakir. Allt hans veldi þrífst á athygli og hann er einn fárra manna sem í gegnum tíðina hefur reynt að kæra sig inn á auðmannalista, líklega til að bæta lánstraustið.  Á forsíðu USA Today á miðvikudag stóð: A President Trump could keep business empire. Kannski ekki aðalatriðið í augum þeirra sem horfa á málin utanfrá en er samt hluti af umræðunni. Bandaríkjamenn virða árangur og á meðan Trump virðist maður sem nær árangri er hann enn í baráttunni.  Sérfræðingar vestra hafa þó fundið út að tíðni málfars- og stafsetningavillna er mest á facebook síðu hans af öllum frambjóðendum. Hann virðist greinilega spara við sig prófarkalestur.

Skapandi eyðilegging Uber

En aðeins aftur að bandaríska hagkerfinu og kannski ekki síst því sem austurrísk-bandaríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter kallaði skapandi eyðileggingu (e. creative destruction og get ég ekki stillt mig um að láta þýska heitið fylgja með: schöpferische Zerstörung!) Fátt nær betur að lýsa endurnýjunarmætti bandaríska hagkerfisins sem stöðugt endurraðar atvinnulífinu og endurskapar heilu atvinnugreinarnar. Dæmi um slíkt er deilihagkerfið sem með algerlega nýrri nálgun tekur yfir heilu atvinnugreinarnar. Heimilisfang deilihagkerfisins er í Bandaríkjunum en  síðustu vikuna hef ég notað mikið Uber leigubílaþjónustuna. Hún var stofnuð í mars 2009 í San Francisco (rétt áður en ég dvaldi þar í viku tíma en tók aldrei eftir því á þeim tíma). Nú er Uber að taka yfir hefðbundna leigubílaþjónustu og að jafnaði greiðir notandinn helmingi lægra verð en ef hann á viðskipti við hefðbundna leigubílastöð. Þá skiptir ekki minna máli að mikill þægindaauki fylgir þjónustunni en hún er í senn lipur og áfallalítil. Því miður virðast þeir sem hafa fjárfest í eldri leigubílakerfum - og borguðu í sumum tilfellum háar upphæðir fyrir leyfi -  (heyrði að í New York hefðu leyfin gengið á eina milljón dollara) uppi með Svarta Pétur. Það er með ólíkindum að eitt app geti svipt fótunum undan aldargömlu kerfi og breytt leikreglunum svona algerlega.

Það var forvitnilegt að spjalla við þá Uber bílstjóra sem keyrðu mig um í Washington. Allir nema einn voru Afro-American og sumir ekki búnir að vera lengi í landinu. Einn kom frá Nígeríu og hugðist fara þangað aftur þegar hann væri búinn að safna nokkrum peningum. Annar var frá Eþíópíu og gaf sig út fyrir að vera ljóðskáld og blaðamaður og skrifaði meðal annars fyrir blað í Addis Ababa. Hjarta hans var greinilega enn í fæðingarlandinu og hann virtist eiga þann draum að fara aftur þangað. Einn var þó borinn og barnfæddur í Bandaríkjunum, hafði unnið sem millistjórnandi en starfaði nú hjá Uber til að borga af veðlánunum. Hann sagðist líta á starfið hjá Uber sem millibilsástand enda væri hann að leita að nýju starfi.

Sjálfsagt er það svo að fyrir marga er tilkoma Uber endalok á ákveðnum starfsferli og einhverjir sitja uppi með ónýtar fjárfestingar. En um leið virðast neytendur njóta talverðrar verðlækkunar og hagræðingar og fjöldi fólks fær tækifæri til að koma undir sig fótunum eða halda sér á floti. Þannig virkar líklega ameríski draumurinn.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.