c

Pistlar:

18. október 2015 kl. 22:18

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Noregur heillar ekki lengur

Í gær var áhugaverð frétt í Morgunblaðinu. Þar sagði frá því að stjórnendur vinnumiðlunarinnar Eures á Íslandi hefðu ákveðið að hætta í bili að kynna laus störf í Nor­egi fyr­ir Íslend­ing­um. Haft er eftir Þóru Ágústs­dóttur, verk­efna­stjóri hjá Eures, að vegna bættr­ar stöðu á ís­lensk­um vinnu­markaði sé ekki leng­ur tal­in vera eft­ir­spurn eft­ir slík­um kynn­ing­um. Þegar mest var voru slíkar kynningar tvisvar á ári. Þvert á móti, nú sækist fólk eftir því að koma til Íslands. Munur á atvinnuleysi á Íslandi og í Noregi er um leið orði talsverður. Miklar uppsagnir hafa dunið yfir Norðmenn enda norskt hagkerfi að aðlagast verulegri lækkun á helstu útflutningsvöru landsins, olíunni.noregur

Þetta kemur ekki á óvart. Ljóst er að undanfarið hafa erlendir vinnumarkaðir misst aðdráttarafl sitt og þá sérstaklega Noregur en mikil og sterkur áróður hefur verið rekin, nánast í trúboðsstíl, um að þar sé fyrirheitna landið að finna fyrir íslenska launþega. Það var aldrei svo og enn síður nú þegar umrædd vinnumiðlun sér ekki lengur ástæðu til að sækja hingað starfskrafta. Það var reyndar ekki að undra að nágranalönd okkar sæktu í margt af okkar góða vinnuafli, sérstaklega í heilbrigðisgeiranum. Noregur og Svíþjóð eru engan veginn að mennta þá heilbrigðisstarfsmenn sem þá vantar. Og um leið virðist ungt fólk ekki sækjast eftir því langskólanámi sem fylgir.  Um líkt leyti urðu til sérstakar vinnumiðlanir sem gerðu mun auðveldara fyrir starfsmenn að sækja út fyrir landssteinanna, í það minnsta tímabundið. Nóg var að skrá sig til leiks og vinnumiðlunin sá um allt. Margir íslenskir heilbrigðisstarfsmenn nýttu sér þessi tækifæri enda þvarr kaupmáttur á Íslandi í kringum hrunið og með veikingu krónunnar. Það er liðin tíð og nú eru miklu fleiri sögur af Íslendingum sem sækja til baka, þó fjölmiðlar séum margir hverjir heldur þöglir um það.

Skýringin birtist skýrast í nýju Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands sem birt var á föstudaginn. Þar kemur fram að vísitala kaupmáttar hefur aldrei hækkað jafn mikið hér á landi og hún gerði frá miðju ári 2014 og til júlíloka 2015. Kaupmáttur jókst um 5,9 prósent á tímabilinu. Seðlabankinn áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna hækki um 7,6 prósent í ár, sem er því hæsta sem hefur sést.  Þetta er fágætur árangur og þeir sem kjósa með fótunum sjá það glögglega. Til landsins streymir nú fólk til að taka þátt í atvinnulífinu og þar á meðal eru sumir þeirra sem flúðu til Noregs undanfarin ár. Atvinnuleysi þar er enda 25 til 30% meira en hér núna. Samkvæmt könnunum óttast 38% launþega í Noregi að missa vinnuna.

En ef við skoðum aftur umrædda frétt í Morgunblaðinu þá vekur einnig mikla athygli þróun gengis íslensku krónunnar, sérstaklega borið saman við þá norsku.  Meðalgengi norskrar krónu var 15,4 íslenskar krónur á föstudaginn en 18,2 krónur sama dag fyrir ári síðan. Miðgengi norsku krónunnar var 23,5 krónur 30. janúar 2013. Þetta jafngildir 34% lækkun norsku krónunnar gagnvart þeirri íslensku á 32 mánuðum.

Það hefur verið lögð áhersla á það að auðvelda flutning vinnuafls milli landa og er það vel. Það getur eflt sveigjanleika mismunandi vinnumarkaða upp að vissu marki og búið til heilbrigða samkeppni. Þess nýtur íslenskur vinnumarkaður nú.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.