c

Pistlar:

25. október 2015 kl. 14:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Öfundsverðar skammtímahorfur!

Þeir sem rýna í ástandið í hagkerfinu eru margir á því að sjaldan eða aldrei hafi aðstæður verið eins góðar; rífandi hagvöxtur, umtalsverð kaupmáttaraukning, verðbólgan í ásættanlegu ástandi (samkvæmt tölum Eurostadt er verðhjöðnun), atvinnuleysi í algeru lágmarki, viðskiptajöfnuður hagstæður, gjaldeyrir streymir inn og óskuldsettur gjaldeyrisforði að aukast hröðum skrefum (hver hefði trúað því fyrir ári síðan að hann væri orðin ríflega 200 milljarðar), og mörg og áhugaverð fjárfestingaverkefni í pípunum. Um leið eru skuldir ríkissjóðs og heimilanna að minnka.

Ferðaþjónustan er í örum vexti, mikill uppgangur í sjávarútvegi og veruleg fjárfesting að eiga sér stað í fjölbreyttri iðnaðarstarfsemi. Um leið er verið að fella niður tolla, afnema vörugjöld og bætur hafa hækkað. Allt þetta hefur gerst á sama tíma og fjárlögum hefur verið skilað með afgangi og skuldir ríkisins lækka hratt. Lánshæfismat á Íslandi hefur hækkað hjá öllum þremur matsfyrirtækjunum og horfur á að Íslands verði komið í A flokk lánshæfis innan ekki langs tíma, jafnvel á næsta ári.

Hagvöxtur hefur nú verið 19 mánuði í röð sem er með því lengst sem við höfum séð. Greiningaraðilar eru að halda fyrirlestra undir heitunum: Á fullu stími – vörumst skerin" og þekktur hagfræðingur talar um Öfundsverðar skammtímahorfur". Fyrirsögnin að þessum pistli er fengin að láni þaðan en vissulega er hún í og með að minna okkur á fallvaltleika hlutann og sterk vísun í skammsýni greiningaraðila frá fyrri tíð. Í þessu sambandi má þó minna á að í vikunni var sagt frá því að Partýbúðin væri farin að skila hagnaði og greiddi nú eigendum sínum arð! Á helstu hagvísum má sjá að slakinn er að hverfa úr hagkerfinu um þessar mundir og er því hagkerfið að starfa við fulla framleiðslugetu. Að flestu leyti blasir við að við búum við einstaka stöðu þó miklar og ögrandi áskoranir séu framundan, sérstaklega á vinnumarkaði. ferðamenn

Umtalsverður hagvöxtur framundan

Hagvaxtarhorfur til næstu tveggja ára eru meðal þeirra bestu meðal þróaðra ríkja samkvæmt spá AGS (sem telst varfærin samkvæmt spá innlendra aðila).

Greiningardeild Arion spáir því að hagvöxtur í ár verði 5,4%, sem er mesti hagvöxtur sem mælst hefur síðan 2007, en að hagvöxtur áranna 2016-2018 verði nokkru minni og nálægt langtímameðaltali.

Gert er ráð fyrir að vöxturinn verði að mestu leyti drifinn áfram af vexti í fjárfestingu og einkaneyslu.

Líklega verður aukinn ferðamannastraumur ein helsta driffjöður vaxtar í útflutningi á komandi árum. Þó er gert ráð fyrir að framlag utanríkisviðskipta verði lítillega neikvætt á næstu tveimur árum þar sem gert er ráð fyrir talverðum vexti í innflutningi. Talið er að viðskiptajöfnuður verði engu að síður jákvæður á næstunni, að gefnu föstu gengi.

Á morgunfundi greiningardeildar Arion-banka í vikunni var einnig farið yfir að hvaða leyti núverandi uppsveifla líkist þeirri síðustu en margir hagvísar nú eru á svipuðu róli og árið 2004. Má þar m.a. nefna kröftugan vöxt innlendrar eftirspurnar, framleiðsluslaki er að breytast í framleiðsluspennu og hefur störfum farið ört fjölgandi samhliða kaupmáttaraukningu. Þegar nánar er rýnt í tölurnar er staða hagkerfisins þó frábrugðin árunum 2004 til 2007 að mörgu leyti. Margt bendir til að hlutirnir séu að þróast með öðrum hætti en þá. Það breytir því ekki að hagstjórn er og verður vandasöm í okkar litla hagkerfi.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.