c

Pistlar:

31. október 2015 kl. 14:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að vera frumlegur og framsýnn

Er í senn hægt að vera frumlegur og framsýnn, skynsamur og skapandi? Þetta er ekki sett hér fram vegna þess að undirritaður trúi að um sé að ræða andstæður. Heldur hitt að stundum virðast fleiri sækjast eftir að vera frumlegir og skapandi, fremur en skynsamir og framsýnir. Farsælt væri að þetta færi saman en það er engin trygging fyrir því að svo sé. Með reglulegu millibili hefur umræðan á vesturlöndum fyllst af einhverskonar framfarahyggju sem stundum getur verið villuljós að því leyti sem hún leiðir til skipulagshyggju, jafnvel nauðhyggju. Í sinni einföldustu mynd má segja að framfararhyggja  er sú hugmynd eða söguspeki að jafnt og þétt batni ástand mannkyns eftir því sem tíminn líður. Sannarlega ánægjulegt og vissulega er margt sem bendir til þess að ný og aukin þekking geti að mestu leyti nýst til góðs. Það er þó ekki víst að viska fylgi þekkingu, rétt eins og við áttum okkur oft á því að gáfað fólk er ekki alltaf skynsamt.

Það er furðu oft sem umræðan berst frá framfarahyggju til þekkingarfræði og með ákveðnum einföldunum getur maður leikið sér með þá hugmynd að orðið pósitivismi nái yfir hvoru tveggja, hvort sem það er skrifað með v-i eða f-i! Og þó ekki. Pósitívismi dregur nafn sitt af þekkingarfræðilegri afstöðu en franski heimspekingurinn og rithöfundurinn Auguste Comte (1798-1857) kynnti til sögunnar en hann taldi að öll raunveruleg þekking hlyti að byggja á reynslu og röklegri og stærðfræðilegri greiningu mannlegrar skynsemi á þeirri reynslu. Eindregin raunhyggja í þekkingarfræðilegu tilliti er grundvallarþáttur pósitívisma í öllum þeim myndum sem hann hefur tekið á sig.

Fyrir Comte vakti þó annað og meira en að ræða þekkingarfræði. Hann vildi skapa heildstætt heimspekilegt kerfi sem tæki til allra sviða mannlífs, sögu og samfélags eins og lesa má nánar um hér. Þar segir:  „Comte taldi að saga mannkynsins skiptist í þrjú stig, sem hvert um sig hafði bæði sérstök félagsleg og þekkingarfræðileg einkenni sem kölluðust á. Fyrsta stigið var stig trúarbragða sem viðtekinnar uppsprettu mannlegrar þekkingar og hernaðar sem ráðandi einkenni á samfélagsgerðinni. Annað stigið var tímabil frumspekilegra rannsókna í þekkingarfræðilegu tilliti og lagatækni í félagslegu tilliti. Lokaskeiðið (sem Comte taldi að væri svo til nýhafið eða í þann veginn að hefjast) var tímabil pósitífískrar þekkingar annars vegar og iðnaðar hins vegar. Pósitífismi Comte lagði mikla áherslu á hina vísindalegu aðferð sem einu leið mannsins að raunverulegri þekkingu.”

Iðnbyltingin og aðrar byltingar

Á þeim tíma þegar Comte var að fást við skilgreiningar sínar var mannkynið að upplifa  árdaga iðnbyltingarinnar. Samhliða henni var að þróast og festast í sessi markaðsskipulag efnahagsmála og lýðræðisskipulag stjórnmála. Hvort um sig fól í sér byltingarkennd umskipti með meiri og afdrifaríkari breytingum á lífsskilyrðum manna en áður eru dæmi um á jafn skömmum tíma í veraldarsögunni. Lífslíkur jukust stórlega og meðalævi sömuleiðis. Um leið náðu hugmyndir Adams Smith um að auðlegð þjóða skapaðist vegna viðskipta og verkaskiptingar að festa sig í sessi í hinni hagfræðilegu umræðu en hagfræðin hefur gert sitt besta til að skýra tilurð auðs og hagsældar. Pistlahöfundur hefur áður gert að umtalsefni þá ólíku þróun sem varð sitt hvoru megin Ermasundsins í kjölfar frönsku byltingarinnar.

Þýðing lýðræðis- og markaðsskipulagsins fólst ekki hvað síst í því, að innan þess urðu breytingar að stöðugu ferli, ólíkt því sem áður hafði verið. Með öðrum orðum, hraði breytinganna jókst nánast veldisfalt. Comte upplifið fyrst og fremst iðnbyltingu en síðar áttu eftir að koma allskonar byltingar eins og sú er fylgdi sprengihreyflinum, borgarvæðingu, mannfjöldabreytingum, tölvum og nú hugsanlega orkubyltingu sem gæti fært okkur ástand þar sem orka er alltaf næg og ódýr.

Víxlfrjóvgun hugmynda

Hér í þessum pistlum hefur stundum verið vitnað til tveggja manna sem líklega verða að kallast framfararsinnar, jafnvel pósitívistar. Annars vegar er það Matt Ridley og hins vegar sænski læknirinn Hans Rosling. Þegar hlustað er á þá blasir við að þeir eru í mörgum tilvikum að horfa á sömu tölfræðigögn þegar þeir meta stöðu og horfur í heiminum. Báðum verður þeim tíðrætt um þá dökku mynd sem almennt er dregin upp af stöðu mála og hefur fengið viðurkenningu álitsgjafa og fjölmiðla. Þetta er mynd sem þeir ganga á hólm við. Þeir hafa báðir gagnrýnt fjölmiðla harkalega fyrir nálgun sína á helstu viðfangsefni dagsins í dag og sérstaklega er Rosling þungorður þegar kemur að umfjöllun um þróunarríki.

Styrkur Matt Ridley er hve víða nálgun hann hefur á efni sitt. Hann nálgast það í senn sem vísindamaður og rithöfundur. Hann á auðvelt með að setja hluti í hugmyndasögulegt samhengi eins og birtist í þessum orðum hans: „Væri menning það eitt að tileinka sér siðvenjur annarra myndi hún fljótt staðna. Til þess að menning geti hlaðið utan á sig verða hugmyndir að mætast og tímgast. „Víxlfrjóvgun hugmynda” er tugga, en sú tugga er óvænt afar frjósöm.” Hér vísar hann til þess hve gríðarleg breyting hefur orðið í hugmyndaheiminum þar sem hugmyndir geta mæst á örskotsstundu fyrir tilverknað netsins. Áður þurfti jafnvel að sigla milli landa til að koma slíkri víxlverkun af stað.

Fyrir ríflega 20 árum komst Stefán Ólafsson, þá dósent við Háskóla Íslands, að þeirri niðurstöðu í blaðagrein að það væri skipulagskreppa frekar en hugarfarskreppa, sem væri sé helsti Þrándur í Götu frekari framfara á Íslandi á þeim tíma. Í dag er hins vegar ljóst að kreppuhugsun er ráðandi afl í íslenskri umræðu nú og hefur verið allt frá bankahruni. Það birtist meðal annars í því að þegar ljóst er að tilkynnt er um að ríkið hafi eignast heilan banka þá er helsta áhyggjuefni margra hvernig hann verði seldur. Þannig eru furðu margir bundnir á klafa skipulagshyggju sem meðal annars krefst þess að ríkið eigi allt, sjái um allt eftirlit - í staðinn t.d. fyrir markaðinn, og beri að lokum ábyrgð á öllu. En um leið sé að sjálfsögu engum treystandi til þess að fara með þessa ábyrgð.NFF

Í liðinni viku komu saman til fundar hér í Reykjavík leiðtogar níu landa  á málþinginu, Northern Future Forum. Þar var rætt um vöxt og viðgang skapandi greina og nýsköpun í opinberum rekstri í þeim tilgangi að auka gæði opinberrar þjónustu. Leiðtogarnir fengu til liðs við sig forystumenn úr atvinnulífi og reyndu að hugsa út fyrir boxið, meðal annars með því að reyna að skapa önd úr 6 legókubbum en til þess munu víst vera 900 milljón ólíkar leiðir!

Að sjálfsögðu má deila um árangur slíkra funda einna og sér en mikilvægi þeirra felst líklega fyrst og fremst í því að brjóta niður múra, færa fólk nær hvert öðru og ræða hluti á nýstárlegan hátt. Hluti bresku pressunnar sem fjallaði um fundinn sýndi hins vegar glögglega þá hugarfarskreppu sem getur étið sig inn í heimsýn fólks og staðfestir gagnrýni Rossling sem getið var hér að framan. Það mega þó íslenskir fjölmiðlar eiga að þeir voru opnari fyrir nýjum hugmyndum og bindisleysi þó einn og einn fjölmiðlamaður hafi fallið í þá freistni að taka af sér selfie með forsætisráðherra Bretlands! Það er jú bara mannlegt!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.