c

Pistlar:

8. nóvember 2015 kl. 16:05

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bókadómur - Barnið sem varð að harðstjóra

Það berst margt skemmtilegt með jólabókaflóðinu eins og endranær og hætt er við að mörg ágætisbókin tínist í hamaganginum. Sagnfræðirit fyrir almenning eru því miður ekki algeng en þessari bók Boga Arasonar blaðamanns og sagnfræðings er ætlað að bæta úr því. Hér er um að ræða fjörlega skrifaða sagnfræði þar sem hlaupið er yfir ævi nokkurra helstu einræðisherra 20. aldarinnar, s.s. Hitler, Stalín, Franco, Maó, Ceausescu, Pol Pot, Saddam Hussein, Khomeini og Idi Amin. Bókin varpar fram áhugaverðu sjónarhorni á þessa einstaklinga sem sumir hverjir tóku yfir heilu heimsálfurnar og breyttu mannkynssögunni. Hér er sérstaklega horft á uppvöxt þessara manna, tengsl þeirra við foreldra, fjölskyldu og vini og reynt að setja orð þeirra og athafnir í samhengi. Það er forvitnilegt að sjá hvað er líkt með þeim og hvað ólíkt og óhætt að segja að bókin dýpki skilning okkar á sögu 20 aldarinnar, sem breski sagnfræðingurinn Eric Hobsbawm (1917-2012) kallaði réttilega öld öfganna. barnið

Nálgun höfundar á viðfangsefni er forvitnileg og veitir lesendum talsverða hugmyndafræðilega dýpt þó að hér séu einstaklingar í forgrunni. Enski heimspekingurinn og sagnfræðingurinn R.G. Collingwood (1889-1943) reyndi á sínum tíma að berjast gegn vaxandi tilhneigingu fræðimanna til þess að beita aðferðum náttúruvísinda við rannsóknir á mannlegu framferði. Hugsanlega sem innlegg í hina eigindarlegu og megindarlegu baráttu sem hófst með þekkingarfræðilegri afstöðu  franska heimspekingsins og rithöfundarins Auguste Comte (1798-1857) sem sagt var frá hér í pistli fyrir skömmu. Comte taldi að öll raunveruleg þekking hlyti að byggja á reynslu og röklegri og stærðfræðilegri greiningu mannlegrar skynsemi á þeirri reynslu.

Collingwood taldi aftur á móti að mannlegt eðli væri háð stöðugum umbreytingum í þeim skilningi að menn eru stöðugt að laga hæfileika, viðhorf og aðferðir að þeim veruleika sem þeir upplifa á hverjum tíma. Þetta taldi Collingwood að gerði sagnfræðingum nánast útilokað að bera saman atburði samkvæmt einhverju lögmáli. Atburð yrði að skilja sem eitthvað sem tengdist farvegi hugsunar og vilja. Sagnfræðingurinn þurfi því að reyna að lifa sig inn í hugsunarhátt þess fólks sem hann er að fjalla um. Collingwood taldi sagnfræðinginn ekki aðeins vera að fást við atburði heldur einnig hegðun. Fyrir söguna er markmiðið ekki atburðurinn sjálfur heldur sú hugsun sem hann lýsir. Að uppgötva þessa hugsun er að skilja atburðinn. Að hluta til virðist þetta vera nálgun Boga og hann er ekki dómharður við sína menn þó hann hlífi þeim heldur ekki. Það sést ágætlega af þessari samantekt á bls. 260:

Engum vafa er undirorpið að Khomeini vildi þjóð sinni vel, líkt og segja má um fleiri harðstjóra. Kommúnistarnir Stalín, Maó og Pol Pot vildu koma á stéttlausu sæluríki, Hitler boðaði þúsund ára paradís fyrir þjóð sína og Khomeini kvaðst berjast fyrir réttlátu samfélagi þar sem íslömsk siðferðisgildi væru höfð í heiðri. Harðstjórarnir á öld öfganna eiga þó allir það sameiginlegt að knýja hugsjónir sínar fram með kúgun sem reist var á hatri, öfund og öllu því versta í mannlegu eðli: hatri kommúnista á stéttaróvinum, hatri Hitlers á gyðingum, hatri Francos á kommúnistum og hatri Khomeinis á Bandaríkjunum og Ísrael, svo dæmi séu tekin.”

Þessi nálgun höfundar færir okkur inn í áhugaverða umræðu um Maó, hvort hann hafi verið skrímsli eða hvort kerfið (kommúnisminn) hafi gert honum kleyft að stýra eins og hann gerði en það er reyndar niðurstaða höfundar. Í sumum tilvikum störfuðu þessir harðstjórar á umbrotatímum þar sem öllum lýðræðislegum viðmiðum var vikið til hliðar og þá um leið mannréttindum. Það reyndist stutt frá harðstjórn yfir í hreinan og klára hryllingsstjórn (terror). Höfundur fjallar skynsamlega um bók þeirra Jung Chang og Jon Halliday um Maó sem hét á ensku Mao: The Unknown Story eða Maó: Sagan sem aldrei var sögð eins og hún hét í íslenskri þýðingu. Þau Chang og Halliday einbeita sér að persónu Maó sem þau telja að hafi verið djöfull í mannsmynd. Hugsanlega af því að þau vildu vernda hugsjónir kommúnismans. Því hafnar höfundur og færir fyrir því ágæt rök. Við getum ekki fríað kerfið sem gerir gölluðu fólki kleift að haga sér eins og harðstjórar þessar bóka gera.

Mestu plássi er varið undir Hitler, Stalín og Maó. Hinir fylla upp í myndina en líklega er saga þeirra minna þekkt. Gunnar Karlsson sagnfræðiprófessor hefur líklega skrifað manna mest hér á landi um hina sagnfræðilegu aðferð. Hann skrifaði í einni bóka sinna að sagnfræðin hefði orðið hógvær og fyrirferðarlítil grein í háskólum heimsins, en sögubækurnar sem fólk les skrifi skáld og blaðamenn. Bogi sannar þetta hér en hann hefur skrifað erlendar fréttir í 30 ár á Morgunblaðinu og gerþekkir viðfangsefnið. Stíll hans er lipur og þægilegur sem gerir það að verkum að frásögnin er grípandi og áhugaverð. Á einstaka stað má greina tvítekningar en þó ekki svo að það spilli frásögninni.

Tilurð og ævi harðstjóra er leyndardómur út af fyrir sig og líklega er það rétt að þeir séu hryllilegir og heillandi í senn. Sögulegt mikilvægi þeirra verður ekki skýrt með því að segja að þeir séu einfaldlega partur af sögulegu eða félagslegu ferli. Þess vegna verður alltaf áhugi á að kynna sér sögu þeirra sem síðan verður væntanlega endurmetin með reglulegu millibili. Það skiptir þjóðir miklu að rétt fólk veljist til forystu þó að flestir þeir sem hér um ræðir hafi einfaldlega hrifsað til sín völdin. Við sjáum þetta best af því að um svipað leyti og Nelson Mandela tók við völdum í S-Afríku hrifsaði Slobodan Milosevic völdin í Serbíu. Heldur var þar ólíku saman að jafna.

Barnið sem varð að harðstjóra

  • saga helstu einræðisherra 20. aldar.

Höfundur: Bogi Arason

Útgefandi: Almenna bókafélagið

286 bls.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.