c

Pistlar:

13. desember 2015 kl. 23:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Knattspyrnuleikvangar - hin nýju musteri átrúnaðarins

Stór hluti þeirra Íslendinga sem heimsækir erlendar stórborgir gerir það í þeim tilgangi að sjá fótboltaleiki. Sérstakleg á það við um þá sem heimsækja England. Og þar eru knattspyrnuleikvangarnir hin nýju musteri átrúnaðarins. Í dag hafa knattspyrnuleikvangar - og hugsanlega flugvellir - leyst dómkirkjurnar af hólmi sem helstu áfangastaðir ferðamanna. Nýlega átti pistlahöfundur því láni að fagna að heimsækja borgina Manchester í miðju Bretlands í þeim fyrirsjáanlega tilgangi að horfa á knattspyrnuleik. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Manchester er sótt heim en borgin nýtur þess nú að hýsa tvö af auðugustu liðum Bretlandseyja. Og enska knattspyrnan hefur ótrúlegt aðdráttarafl. Svo mikið að þúsundir manna fljúga til Manchester um hverja helgi til að sjá borgarliðin, City og United, etja kappi við önnur lið í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er stóriðnaður á alla vegu og borgarbúar kætast.

Í Manchester búa um 600 þúsund manns en svæðið í kring er þéttbyggt og má segja að í nágrenni borgarinnar búi allt að 17 milljónir manna, í borgum eins og Liverpool, Bolton, Oldham, Bury, Rochdale og Wigan. Það þarf ekki að taka fram að allir þessi bæir státa af þekktum knattspyrnuliðum þó Manchesterliðin, ásamt auðvitað Liverpool, beri höfuð og herðar yfir önnur lið. Eins og áður sagði þá treystir Manchester á aðdráttarafl knattspyrnunnar þegar kemur að ferðamannaiðnaði. Lætur nærri að um helmingur þeirra ferðamanna sem sækir borgina heim um helgar séu tengdir knattspyrnu. Manchester United er án efa þekktasta vörumerki borgarinnar og eitt helsta aðdráttarafl en City sækir vissulega fast á.

Skrautlegir eigendur

Að þessu sinni sá ég leik Manchester City og Liverpool, leik sem heimamenn vilja gleyma sem fyrst. Milljónalið City var niðurlægt af mun fátækari klúbb úr bítlaborginni. Að vísu er saga Liverpool glæsilegri en City datt í lukkupottinn fyrir nokkrum árum. Árið 2008 breyttist nefnilega allt hjá þessu ,,litla” liði Manchester. Nýir eigendur Manchester City, furstafjölskyldan í Abu Dhabi, keyptu liði og spöruðu ekki stóryrðin, sögðust ætla að gera það að stórveldi á 10 árum.  Með sölunni lauk sérkennilegum eigendakafla í sögu City en seljandi var Takshin Sinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra Taílands, sem hafði þá fengið réttarstöðu útlaga!

Furstafjölskyldan er óumdeilanlega langríkustu núverandi eigenda ensku knattspyrnuliðanna og eyðslufrekari en aðrir. Jafnvel svo að Roman Abramovich, hinn rússneski eigandi Chelsea, færðist niður í annað sæti eyðsluseggja enda munu auðævi hans ekki vera nema fimmtungur þess sem Abu Dhabi menn státa af. Svona geta hlutirnir breyst og Manchester City hefur óumdeilanlega sótt í sig veðrið og telst nú eitt af þeim stóru þó árangurinn sé ekki með öllu í samræmi við eyðsluna. Félagið greiðir hæstu launin á Englandi og þangað sækja knattspyrnumenn með fjárhagslegan metnað. 2015-11-21 17.25.46 

Metnaðarfull áform

Árið 2002 eignaðist félagið nýjan og glæsilegan völl sem leysti hinn gamla Main Road  völl af hólmi. Manchester völlur (City of Manchester Stadium) tók þá 48.500 áhorfendur og var einn sá stærsti í Englandi en hann var byggður í tengslum við Samveldisleikanna auk þess sem hann var notaður þegar EM í knattspyrnu var haldið í Englandi 1996. Nafni vallarins hefur verið breytt aftur og nú ber hann nafnið Etihad Stadium. Hann tekur nú tæplega 56.000 manns í sæti og er sá þriðji stærsti í ensku úrvalsdeildinni. Stoltur stuðningsmaður rakti fyrir mér fyrirhugaðar stækkanir sem eiga að gera 80.000 manns fært að koma á völlinn innan nokkurra ára. Þar með yrði hann stærsti völlurinn í úrvalsdeildinni. Ekki nóg með það. Mikil uppbygging er framundan á svæðinu. Ætlunin er að byggja hótel og spilavíti við hliðina á vellinum en nú þegar má þar sjá margvísleg mannvirki sem ætlað er að auka á upplifun þeirra sem koma á völlinn.  Þannig er ætlunin að nýta fótboltafíknina til að draga að fleiri og fleiri ferðamenn og selja þeim fjölbreyttari tegundir af skemmtun og afþreyingu.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.