c

Pistlar:

28. desember 2015 kl. 16:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Flóttamaðurinn - maður ársins

Líklega munu margir freistast til að nefna flóttamanninn, mann ársins. Ekki einhvern einn mann heldur þann mikla fjölda sem nú er á faraldsfæti og Evrópa hefur fengið að kynnast svo rækilega. Talið er að um 60 milljónir flóttamanna séu í heiminum og um ein milljón þeirra hafi lagt leið sína til Evrópu á þessu ári. Þar hefur ástandið í Sýrlandi haft mest áhrif en stór hluti landsmanna hefur neyðst til að flýja borgarastyrjöldina sem engan endir virðist ætla að taka. Af 20 milljónum Sýrlendinga eru á milli 12 og 14 milljónir á flótta. Stór hluti er á vergangi innan eigin lands eða í nágranalöndunum, Líbanon, Tyrklandi og Jórdaníu. Þessi lönd hafa staðið sig vel við móttöku flóttamanna en ljóst er að álagið er gríðarlegt. Sérstaklega í Líbanon og Jórdaníu.

Innrás flóttamanna í Evrópu hefur haft margvísleg áhrif. Schengen samkomulagið riðar til falls og þeir samningar sem þar eru að baki eru nánast ógildir. Einstaka þjóðir Evrópu hafa gengið langt í því að beina strauminum frá sér og sumar hafa reynt að girða lönd sín af.  Sérstaklega er þetta áberandi í Austur-Evrópu, þar virðist lítill áhugi á að taka við flóttamönnum. Evrópusambandið hefur reynt að ná samkomulagi sem yfirleitt er brotið þegar ráðamennirnir eru komnir úr hinu sameiginlega fundarherbergi. Þolinmæði almennings þverr, sérstaklega í þeim löndum sem hafa tekið við flestum flóttamönnum, svo sem Svíþjóð og Þýskalandi.

Fyrir skömmu var greint frá því að meira en helmingur sænsku þjóðarinnar vill að Svíþjóð taki á móti færri flóttamönnum. Viðhorf Svía til móttöku flóttafólks hefur breyst mikið á undanförnum þremur mánuðum. Samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í dagblaðinu Dagens Nyheter vilja 55 prósent Svía taka á móti nokkuð eða umtalsvert færri flóttamönnum. Þegar sama spurning var borin upp í september vildu 44 prósent taka á móti fleiri flóttamönnum en 30 prósent vildu taka á móti færri. Þröskuldurinn hefur verið lægstur í Svíþjóð og um leið og hann hækkar verða hinar norðurlandaþjóðirnar að fylgjast með. Straumurinn leitar þangað sem fyrirstaðan er minnst. Þetta vita Danir sem hafa reynt sitt besta til að draga úr straumi flóttafólks. Þannig lagði danska ríkisstjórnin fram 34 tillögur um miðjan nóvember sem ætlað er að herða á stefnu í málefnum flóttafólks. Um leið hefur verið upplýst um áform um að reisa háa girðingu á milli lestarpalla við Kastrup-alþjóðaflugvöllinn í nágrenni Kaupmannahafnar til að koma í veg fyrir streymi flóttamanna. Almenningur í Svíþjóð og Danmörku finnur sjálfsagt mest fyrir því að ferðir á milli landanna eru nú orðnar að landamæramartröð.

Alþjóðastofnanir óundirbúnar

Ljóst er að alþjóðastofnanir voru algerlega óundirbúnar fyrir þetta ástand. Þannig taldi  Flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) að ríki heims urðu að ver undirbúin fyrir að taka  á móti allt að 30 þúsund sýrlenskum flóttamönnum fyrir lok árs 2014. Stofnunin var því algerlega  óundirbúin fyrir þann mikla fjölda sem lagði land undir fót á árinu. Því var það svo að áður en árið 2015 gekk í garð voru flestar þjóðir að undirbúa sig undir að taka við örfáum flóttamönnum. Ljóst er að Tyrkir hafa meðvitað eða ómeðvitað ákveðið að beina strauminum til Evrópu. Um leið virðist efnahagsflóttamönnum frá Afríku vera að fjölga.flóttamenn

En það er ekki bára flóttamenn utan Evrópu sem reyna að bæta hag sinn. Við Íslendingar voru minntir illþyrmilega  á að í Albaníu eru margir sem vilja freista gæfunnar utan landamæranna. Fólk sem er að flýja fátækt heima fyrir eða hreinlega komast í betra velferðar- eða heilsugæslukerfi. Slíkt reynir á, sérstakleg ef hin lögbundnu réttindi eða lagaumgjörð dugar ekki til að mati almennings. Á komandi ári munu fyrstu flóttamennirnir frá Sýrlandi koma til landsins og mikilvægt að móttaka þeirra takist vel. Íslensk yfirvöld hafa lagt áherslu á að taka vel á móti þeim sem koma, fremur en að einblína á fjölda.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.