c

Pistlar:

16. janúar 2016 kl. 13:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skuldir og vextir lækka og lánshæfið batnar

Stundum er sagt að sá sem skuldar sé ekki frjáls og flest fjármálaráðgjöf snýst um það að kenna fólki að samræma tekjur og útgjöld. Þeir sem taka lán fyrir neyslu sinni finna skjótt að slíkur lífsmáti gengur ekki til lengdar. Að taka langtímalán fyrir einhverju sem notað er í skamman tíma er ekki skynsamlegt. Lántaka hins opinbera er alltaf nokkurskonar uppgjör á milli kynslóða. Ef núverandi kynslóðir taka há lán og skila þannig miklum skuldum til næstu kynslóða til að fást við er augljóslega verið að ganga á lífsgæði þeirra sem á eftir koma. Fátt er mikilvægara fyrir ungt fólk í dag en að lán hins opinbera séu greidd niður. Sem betur fer birtir hratt yfir skuldastöðu Íslands þessi misseri og skýrasti vitnisburður þess er hækkun á lánshæfi landsins auk staðfestingar á fyrra mati sem birtist nú í vikunni. Betra lánshæfi ríkissjóðs mun skjótt skila sér í betri lánakjörum til fyrirtækja og að lokum einstaklinga. Hér á þessum vettvangi hefur alloft verið fjallað um skuldastöðuna og er reyndar ótrúlegt að sjá þá breytingu sem orðið hefur síðan núverandi ríkisstjórn tók við.

Lítum á nokkrar tölur. Áformað er að lækka skuldir ríkissjóðs um 13% á þessu ári. Í lok ársins ætti skuldahlutfallið að vera komið undir 50% en það var hæst 86% á árinu 2011. Á síðastliðnu ári fyrirframgreiddi ríkissjóður um 150 milljarða króna af innlendum og erlendum skuldum. Umræddar fyrirframgreiðslur hafa að öðru óbreyttu um 7 milljarða kr. áhrif til lækkunar vaxtagjalda á ári hverju. Heildarskuldir ríkissjóðs í árslok 2015 eru áætlaðar um 1.349 milljarðar kr. til samanburðar við 1.492 milljarða kr. í árslok 2014. Samsvarar það um 10% lækkun skulda á milli ára. Á árinu 2016 er áætlað að skuldir ríkissjóðs lækki enn frekar og nemi 1.171 milljörðum kr. í lok ársins.skuldir

Ein stærsta afborgun á skuldum

Kjarninn í ríkisfjármálastefnu núverandi ríkisstjórnar er lækkun skulda. Með stöðuleikaframlagi slitabúa föllnu bankanna og annarra aðgerða vegna losunar fjármagnshafta skapast einstakt tækifæri til lækkunar skulda. Svo einstakt að menn undrast erlendis. Í lok árs 2015 greiddi ríkissjóður 49,9 milljarða króna inn á skuldabréf Seðlabanka Íslands. Er þetta ein stærsta einstaka afborgun af skuldum ríkissjóðs til þessa. Afborguninni var mætt með lækkun á sjóðsstöðu ríkissjóðs hjá Seðlabankanum.

Skuldabréfið, sem upphaflega var gefið út í janúar 2009 til styrkingar eiginfjárstöðu Seðlabankans, er afborgunarbréf og nemur árleg afborgun 5 milljörðum kr. Á árinu 2015 greiddi ríkissjóður um 47 milljarða til viðbótar árlegri afborgun af bréfinu og nema eftirstöðvar þess í árslok um 90 milljörðum kr.  Áætlað er að greiða bréfið upp að fullu á yfirstandandi ári. Að teknu tilliti til greiðslu á skuldabréfi Seðlabankans nam sjóðsstaða ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands um 88,5 milljörðum kr. í árslok 2015.

Ríkissjóður forgreiddi einnig stóran hluta af útistandandi erlendum lánum á síðasta ári eða um 103 milljarða kr. Á fyrri hluta ársins keypti ríkissjóður tæplega helming af útistandandi skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjadölum frá árinu 2011 eða sem samsvarar um 67 milljörðum kr. Í maí forgreiddi ríkissjóður lán frá Póllandi sem veitt var í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og námu þær um 7,5 milljörðum kr. Þá fyrirframgreiddi ríkissjóður svokallað Avens-skuldabréf í júlí að fjárhæð 28,3 milljörðum kr.

Við sjáum aldrei kröfu um að lækka skuldir í hinni almennu umræðu. Sem gefur að skilja er alltaf til ósk um að fá að eyða fjármunum í annað en að greiða skuldir. Það er því ekki til vinsælda fallið að fara þá leið og óhætt að segja að það þurfi nokkuð sterk bein, bæði heima fyrir og hjá ríkissjóði. En ávinningurinn er gríðarlegur. Þeir fjármunir sem skapast vegna lægri vaxtagreiðslna og afborgana nýtast til uppbyggingar í samfélaginu. Og með lækkun skulda verður allur vaxtakostnaður lægri vegna þess að lánshæfismatið hækkar. Eins erfitt og það er þegar þessi spírall skrúfast upp - þeas. lán aukast, lánshæfismat lækkar og vextir hækka - þess ánægjulegra er það þegar spírallinn fer í hina áttina. Það er því til einhvers að vinna að lækka skuldir.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.