c

Pistlar:

27. febrúar 2016 kl. 13:39

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Erfið ár hjá Finnum

Finnar ganga nú í gegnum mikla efnahagserfiðleika og því miður virðist ekki sjá fyrir endann á því. Spár gera ráð fyrir að finnskur efnahagur verði slakastur allra í Evrópu á þessu ári, að Grikklandi undanskyldu. Há laun og launatengd gjöld valda því að samkeppnishæfni Finnlands hefur verulega gefið eftir um leið og fjármögnun landsins verður erfiðari og erfiðari. Þetta er þekktur spírall en Standard & Poor’s lækkaði einkunn Finnlands í október síðastliðnum og Fitch Ratings færði horfur yfir í neikvæðar í mars á síðasta ári. Efnahagur Finnlands hefur yfirbragð kreppuhagkerfis og menn ekki á eitt sáttir um hvaða leiðir séu bestar út úr því nú þegar landið er að hefja sitt fimmta samdráttarár.

Ytra umhverfi hefur einnig verið erfitt en þrenginganna má að hluta til rekja erfiðleika í hátækni- og pappírsiðnaði, viðskiptaþvingana gagnvart Rússlandi og almennum samdrætti í heiminum, en Finnar eru rétt eins og Íslendingar mjög háðir útflutningsverslun. Alvarlegast er þó að samkeppnisstaða landsins hefur versnað mjög vegna launaþróunar og hve illa gengur að aðlaga laun að framleiðslugetu hagkerfisins.finnland-110390

Gullöldin liðin?

Alexander Stubb, fjármálaráðherra, hefur lagt áherslu á að bæta samkeppnishæfni landsins. Hann hefur varað landsmenn við því að „gullöldin” sé liðin og þeir verði einfaldlega að horfast í augu við það að efnahagurinn stendur ekki undir lífskjaravæntingum fólks. Eða í það minnsta verði Finnar að draga úr væntingum sínum um tíma. Eina ráðið sé því að ráðast í nokkurs konar „gengisfellingu“ innanlands, þ.e. lækkun launa og annars kostnaðar. Þjóðverjar lækkuðu launin þegar þeir gengu inn í evrusamstarfið á sínum tíma, meðal annars til að bæta samkeppnisstöðu þýsks iðnaðar. Ekkert þó í líkingu við það sem rætt er um í Finnlandi en margir hagfræðingar halda því fram að 15% lækkun sé nauðsynleg en launakostnaður í Finnlandi er talin vera um það bil 20% hærri en að meðaltali í Evrópusambandinu. Finnar hafa verið fyrirmyndar ESB-þjóð síðan þeir gengu í sambandið 1995. Já, nánast samviskusamir úr hófi en nú örlar á efasemdum en þeir eru eina norðurlandaþjóðin sem notar evru. Þeir lýstu yfir aðild að evrunni 1999 og tóku hana formlega upp 2002.

Könnun finnska rík­is­út­varpsins í desember síðastliðnum leiddi í ljós að rúm­lega tvö­falt fleiri Finn­ar töldu að finnskt efna­hags­líf væri í betri stöðu án evr­unn­ar en þeir sem töldu að það hefði slæm áhrif að segja skilið við hana. Engu að síður vildu fleiri halda í evr­una en þeir sem vildu hætta að nota hana sem gjald­miðil Finn­lands. Könnunin leiddi einnig í ljós að sam­tals eru 44% Finna á því að efna­hag­ur landsins væri betur settur án evr­unn­ar. 20% töldu að finnskt efna­hags­líf væri í verri stöðu utan evru­svæðis­ins. 30% sögðu að það myndi engu skipta. En eftir sem áður vildu 54% Finna halda evr­unni en 31% sögðust vilja segja skilið við hana.

Evran í kastljósinu

Í framhaldi könnunarinnar sagði Timo Soini, utanríkisráðherra Finnlands, að landið hefði aldrei átt að taka upp evruna sem gjaldmiðil. Hann sagði að evran gerði það að verkum að ekki væri unnt að veikja gengi gjaldmiðilsins til að endurheimta samkeppnishæfni landsins gagnvart öðrum ríkjum. Það er svo sem ekkert nýtt að slík ummæli komi úr munni Timo Soini sem fer fyrir flokki Sannra Finna en þeir byggja stefnu sína að hluta til á andstöðu við Evrópusambandið.

Finnar eru dugleg þjóð og hafa lagt mikla áherslu á efla menntun, meðal annars til að styðja við nýsköpun sem þeir vonast til þess að skili hátækniiðnaði sem borgi vel. Vissulega er staðan núna áfall fyrir Finna og ekki síður fyrir fylgismenn evrunnar. Sumir segja að finnsku þjóðarsálinni sé eiginlegt að að mála skrattann á vegginn og Finnum er ekki tamt að sleppa fram af sér beislinu sem sést af því að finnskir skrifstofumenn smyrja ennþá nesti fyrir vinnuna. Þá hefur finnskur húmor orð á sér fyrir að vera engum líkur. „Finnar hlæja þegar engum öðrum stekkur bros,“ segja Finnar. Sömuleiðis séu Finnar ekki mikið fyrir samræður og tjái sig helst sem minnst og haft var eftir finnska rithöfundinum Tuomas Kyrö í viðtali að hann skrifaði til að þurfa ekki að tala. Þeir sem hafa hins vegar heyrt sögur af þeim félögum Pekka og Toivonen vita að finnskur húmor getur verið óborganlegur.

Finnskur vinnumarkaður þarf hins vegar á samtali að halda núna. Verkföll hafa verið boðuð og launþegahreyfingar hafa mótmælt öllum áformum um launalækkanir og höfnuðu nýlega tillögum Juha Sipila, forsætisráðherra Finnlands, um að lækka laun um sem svarar 5% fram til ársins 2019. Tölur í upphafi árs sýna aukið atvinnuleysi og jafnvel þó að væntingar séu um örlítin hagvöxt á árinu þá blasir við að áframhaldandi átök verða í finnsku samfélagi um stefnu og leiðir.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.