c

Pistlar:

13. mars 2016 kl. 16:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heilbrigður hagvöxtur og horfur góðar

Hagstofan hefur nú birt nýja útreikninga á hagvexti síðustu ára sem varpa athyglisverðu ljósi á hagkerfið. Það er reyndar ástæða til að vekja athygli á því að yfirleitt hækkar Hagstofan hagvaxtartölur sínar eftir því sem lengra líður á. Þannig virðist hún hafa tilhneigingu til að vanmeta hagvöxt til skemmri tíma sem gerir það að verkum að við fáum einstaka sinnum svona leiðara í útbreiddasta blaði landsins. Hvað um það, þegar hagvöxtur undanfarið er skoðaður sést að hann er heilbrigður, byggist að miklu leyti á fjárfestingu og afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum. landsfram

En lítum á samantekt Hagstofunnar. Þar birtist að halli á launa- og fjáreignatekjum frá útlöndum minnkaði um 14 milljarða króna árið 2015, samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabanka. Það ásamt 155,1 milljarðs afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum leiddi til jákvæðs viðskiptajafnaðar sem nam tæpum 135 milljörðum króna án rekstrarframlaga, eða 6,1% af landsframleiðslu ársins. Til samanburðar var viðskiptajöfnuður jákvæður um tæpa 90 milljarða árið 2014.

Viðskiptakjaraáhrif, sem hlutfall af landsframleiðslu fyrra árs, voru jákvæð um 3,9% á árinu 2015. Það ásamt jákvæðum viðskiptajöfnuði varð til þess að þjóðartekjur jukust meira en nam vexti landsframleiðslu eða um 8,7% samanborið við 3,4% aukningu árið áður.

Landsframleiðslan meiri en áður hefur þekkst

Hagstofan birtir nú fyrstu áætlun um þjóðhagsreikninga árið 2015. Samkvæmt henni nam landsframleiðsla ársins 2015 2.205 milljörðum króna en það er tæpum 202 milljörðum eða 10,1% hærri fjárhæð en árið áður. Að teknu tilliti til verðbreytinga jókst landsframleiðslan að raungildi um 4,0% samanborið við 2,0% vöxt árið áður. Landsframleiðsla á liðnu ári er nú 5,0% meiri en var árið 2008. Landsframleiðsla á mann að raungildi jókst um 2,8% árið 2015 að teknu tilliti til mannfjöldaaukningar, sem nam 1,1%. Á mann er raungildi landsframleiðslunnar 0,2% hærra en það var árið 2007, hærra en áður hefur þekkst.

Fjárfesting heldur áfram að aukast

Fjárfesting jókst um 18,6% á síðasta ári en árið 2014 jókst hún um 16,0%. Á árunum 2007–2010 dróst hún mikið saman og nam samdrátturinn 47,8% árið 2009 og 8,6% árið 2010. Fjárfesting, sem hlutfall af landsframleiðslu, nam 19,1% á árinu 2015 og hefur þetta hlutfall verið í sögulegu lágmarki síðustu sjö ár en var að meðaltali 21,3% árin 1980–2015. Sambærilegt hlutfall fyrir OECD ríkin í heild hefur verið mun stöðugra, rétt undir 20% undanfarinn aldarfjórðung.

Mikill vöxtur er í fjárfestingu atvinnuveganna, eða 29,5% árið 2015 samanborðið við 17,3% vöxt árið 2014 en á árinu 2013 dróst hún saman um 2,1%. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði dróst saman um 3,1% í fyrra, samanborið við 14,8% aukningu árið 2014. Fjárfesting hins opinbera dróst saman um 1,1% á liðnu ári en jókst um 12,5% árið 2014.

Lægsta hlutfall einkaneyslu

Árið 2015 reyndist hlutfall einkaneyslu af landsframleiðslu vera 50,1% sem er lægsta hlutfall frá því að mælingar hófust árið 1945. Þetta hlutfall hefur verið mjög lágt frá árinu 2008 eða að meðaltali 51,9% samanborið við 58,4% á tímabilinu 1980 til 2007. Þetta lága hlutfall einkaneyslu gefur átæðu til að ætla að hagvöxturinn standi á óvenju traustum grunni en væntanælega mun aukin kaupmáttur skila aukinni einkaneyslu á þessu ári.

Endurreiknaður hagvöxtur

Niðurstöður þjóðhagsreikninga vegna fyrri ára hafa breyst lítillega frá síðustu birtingu. Fjárfesting áranna 2013 og 2014 var endurskoðuð og hækkaði við það um 9,3 milljarða árið 2013 og 13,8 miljarða árið 2014. Ástæður þessa eru aðallega ýtarlegri gögn um fjárfestingu atvinnuveganna segir í samantekt Hagstofunnar. Endurskoðun annarra liða var smávægileg, aðallega vegna óbeint mældrar fjármálaþjónustu. Vegna þessara breytinga jókst hagvöxtur ársins 2014 úr 1,8% í 2,0% og ársins 2013 úr 3,9% í 4,4%.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.