c

Pistlar:

31. mars 2016 kl. 23:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Marokkó - land ferðalangsins

Þekking er betri en auður, þú þarft að gæta auðsins en þekkingin gætir þín. Vel að orði komist, en svona hljómar berberskur málsháttur en líklega er óhætt að segja að Berbar séu áberandi í Marokkó og þeir gera sitt besta til að viðhalda sérstöðu sinni. Þeir eru nánast sem sérheimur í hinu að mörgu leyti nútímalega ríki Marokkó. Fyrir stuttu var fjallað um landið á þessu vettvangi en nú hefur pistlahöfundur fengið tækifæri til að skoða það nánar. Engum dylst að Marokkó hefur upp á geysimargt að bjóða, fjölbreytta náttúru og litríkt mannlíf. Það verður því engin svikin af því að heimsækja það en leiðin lá í upphafi til strandbæjarins Agadír en þangað er þriggja og hálfs tíma flug frá London, nánast í hásuður enda á sama tímabelti.2016-03-23 17.02.15

Arabíska er hið opinbera tungumál landsins en Berbar viðhalda sínu tungumáli þó þeir hafi ekki við prentmál að styðjast. Orðið guð er t.d. ólíkt milli tungumála. Flestir Marokkóbúar tala frönsku til viðbótar sem er oftast notuð í viðskiptum og við stjórnsýslu. Berbar eru hins vegar þekktir tungumálamenn og einstaklega fljótir að grípa upp orð og frasa í viðskiptum en í gegnum aldirnar hafa þeir flutt varning á milli landa og svæða í Afríku. Þessi leikni í að grípa ný tungumál sást greinilega hjá Berba þeim sem sem sá um að koma okkur í stuttan útreiðatúr á kameldýr (fræðiheiti: Camelus bactrianus) en hann flutti ferðamönnum mannlífsfyrirlestra á milli þess sem hann stillti sér upp í myndatökur með tilþrifum. Útreiðatúrinn sjálfur var eftirminnilegur en kameldýr eru  klaufdýr af úlfaldaætt sem teljast, ásamt drómedara, til úlfalda. Þessi dýr eru þeirrar gerðar að þau geta komist af án drykkjar í mánuð og geta borið umtalsverða byrði. Hvoru tveggja atriði sem vefjast fyrir nútíma Íslendingnum! Klaufar dýrsins fletjast út í sandinum og drómedinn getur hreyft sig ótrúlega hratt þó á það hafi ekki reynt í túristareið þeirri sem við stunduðum undir fjörugri leiðsögn tveggja Berba sem hlupu um á sandölum og reyndu að skemmta ferðamönnunum.

En aðeins meira um Berba. Sagan segir að þeir komi úr sunnanverðum Nílardölum sem þá tilheyrðu Eþíópíu. Þjóðflokkur Berba nam síðar þau landsvæði Norður-Afríku sem nú kallast Alsír, Túnis og Marokkó. Berbar eru einnig þekktir sem Márar og undir því heiti eru þeir frægastir fyrir að hafa lagt undir sig Hispaníu á Íberíuskaga í upphafi 8. aldar. Márar voru jafnan nefndir blámenn í norrænum heimildum og þeir voru taldir hinir verstu viðureignar enda helstu óvinir kristninnar í suðri. Sé allrar sanngirni gætt þá byggðu þeir upp merka menningu á Suður-Spáni sem ríkti fram undir aldamótin 1500 og er reyndar enn áberandi víða á Spáni, sérstaklega í Andalúsíu. 

Mikill og vaxandi ferðamannaiðnaður

Í Marokkó eru nú mikil áform um að byggja upp ferðamannaiðnað, rétt eins og hér á Íslandi. Í dag koma um 10 milljónir ferðamanna til landsins og væntingar um að tvöfalda þann fjölda á næstu árum. Í Marokkó búa nú um 35 milljónir manna, þeir eru því 100 sinnum fleiri en við Íslendingar og því er ljóst að hlutfallslega er ferðamannaiðnaðurinn að verða mun stærri hér á landi.

Þegar ferðast er um Marokkó sjást andstæðurnar. Ný mannvirki og nútímaleg uppbygging en um leið fólk með asnakerrur og augljós fátækt sem meðal annars birtist í blygðunarlausu betli. Augljóslega er innviðafjárfesting mikil. Á milli Agadír og Marrakesh er splunkuný hraðbraut sem er um 300 km. löng. Í Marrakesh var verið að byggja nýja og glæsilega flugstöð. Í báðum borgum var mikill fjöldi byggingakrana og nýjar hótelbyggingar fyrirferðamiklar. Einnig er verið að leggja vegi víða og sérstaklega unnið að því að tengja betur Suður-Sahara við aðra hluta landsins. Pólitískum óróa þar er haldið niðri með niðurgreiðslum á nauðsynjum og fjárgjöfum til ættarhöfðingja.

Meirihluti Marokkóbúa iðka íslam sem stjórnar einkalífi þeirra, pólitísku, efnahagslegu og einnig lagalegri hlið lífs þeirra. Það síastnefnda er líklega okkur Vesturlandabúum erfiðast að skilja. Í hinum helga Ramadan-mánuði verða allir múslimar að fasta frá dögun til rökkurs og mega aðeins vinna í sex tíma á dag. Áhrif Otómansveldisins náðu hins vegar aldrei til Marokkó og því er trú þeirra hófstillt. Marokkó-búar sjálfir segjast vera álitnir heiðnir af strangtrúuðum annars staðar frá og augljóslega er frjálsræði talsvert.

Fólk er óþvingað og mörgum í mun að tala fyrir jafnrétti kynjanna þó stundum sé erfitt að átta sig á því hvað það nær langt. Augljóst er þó að menntun í landinu eykst og metnaður stendur til að útrýma ólæsi. Friður ríkir í landinu en heimamenn vita að það er ekki sjálfgefið. Um leið og fréttir bárust af hryðjuverkum í Brussel birtust vopnaðir verðir út um allt. Hvernig fer kemur í ljós, eða „Insha’Allah“ eins og múslimar segja svo gjarnan en það er eitt algengasta ávarpsorð í hinum arabíska heimi og merkir einfaldlega: Ef Guð lofar.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.