c

Pistlar:

21. apríl 2016 kl. 23:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mikilvæg ráðstefna um samkeppnishæfni

Að setja skynsama mælikvarða á samkeppnishæfni þjóða getur verið vandasamt, einfaldlega af því að alltaf má deila um mælinguna sjálfa. Það er hins vegar mikilvægt að geta horft til viðmiða sem hjálpa okkur að skilja eigið þjóðfélag og sjá betur hvar við stöndum og hvað má bæta og laga. Lesendur þessara pistla hafa án efa tekið eftir margvíslegri umfjöllun í gegnum tíðina um samanburð milli landa og mælingar á samkeppnishæfni þjóða. Nú í næstu viku rekur merkan viðburð á fjörur okkar Íslendinga þar sem við fáum að kynnast betur nálgunum á slíkan samanburð.

Fimmtudaginn 28. apríl næstkomandi koma saman á alþjóðlegri ráðstefnu hér á Íslandi margir af fremstu vísinda- og fræðimönnum heims á sviði samkeppnishæfni þjóða og stefnumótunar fyrirtækja. Fundarefnið er ný aðferð til að mæla efnahagslega velgengni þjóða, sem kallast mælikvarði um gæði samfélagsinnviða. Hér er um að ræða svokallaðan Social Progress Index (SPI) sem settur er saman af teymi hagfræðinga undir stjórn Michael Porter, prófessors í hagfræði við Harvard háskóla. Porter ætti ekki að þurfa að kynna fyrir Íslendingum en hin svokallaða klasahugsun er byggð á nálgun sem hann setti fram en hann hefur oft áður komið til landsins. Við uppröðun á lista SPI er horft framhjá hefðbundnum mælikvörðum hagfræðinnar á borð við hagvöxt og þess í stað litið til lífsgæða og tækifæra til velgengni. Styðst listinn við opinber gögn frá alþjóðastofnunum og er meðal annars litið til heilsufars, mannréttinda og menntunar, auk annarra þátta.porter

Ísland í hópi fremstu þjóða

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að Ísland er meðal fremstu þjóða þegar stuðst er við mælikvarða sem mælir gæði samfélagsins almennt. Í mælingum World Economic Forum (WEF) er Ísland í 29. sæti af 140 þjóðum en þegar hagsæld á Íslandi er metin út frá nýlegum mælikvarða um gæði samfélagsinnviða er landið í 4. sæti af 133 þjóðum, aðeins Noregur, Sviss og Svíþjóð. Listi SPI styðst við opinber gögn frá alþjóðastofnunum og er meðal annars litið til heilsufars, mannréttinda og menntunar, auk annarra þátta.

Listinn var fyrst settur saman 2013 og hefur vakið mikla athygli en pistlahöfundur hefur eins og áður sagði fjallað um hann áður. Þessi mælikvarði er mjög ólíkur World Economic Forum, meðal annars vegna þess að hann tekur eingöngu til samfélagslegra og umhverfislegra þátta en ekki neinna hagrænna eða peningalegra breyta. Þá er ekki verið að mæla hagstærðir og efnahagsskipan heldur einfaldlega hvernig þegnunum líður. Til dæmis myndi SPI aldrei mæla „hlutfall af vergri landsframleiðslu“ sem mælikvarða – heldur mæla lýðheilsuþætti til dæmis lífaldur, ungbarnadauða, farsóttir og slíkt. Og þetta mat skilaði Íslandi í 4. sætið á síðasta ári eða mun ofar en á lista WEF. Fróðlegt verður að sjá hvernig mæling þessa árs kemur út.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.