c

Pistlar:

16. maí 2016 kl. 10:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kjör og aðstæður ungs fólks

Að undanförnu hefur farið fram töluverð umræða um lífskjör ungs fólks og margir virðast telja að þau hafi dregist aftur úr kjörum annarra á síðustu árum. Umræðan hefur snúist nokkuð um svokallaða Y-kynslóð eða aldamótakynslóðina – fólk sem er fætt á tímabilinu 1980 til 1994. Því hefur verið haldið fram að það sé erfiðara fyrir þessa kynslóð að finna vinnu og húsnæði en áður hefur verið og að leiðin að fullorðinsárum sé lengri og torsóttari en áður.

Það eru nokkrir þættir sem verður að hafa í huga þegar staða ungs fólks er metin. Í fyrsta lagi þá er augljóst að ungt fólk nýtur þess ef foreldrum þeirra vegnar betur. Ungt fólk var líklegra til að búa hjá foreldrum sínum árið 2014 en 2004 samkvæmt upplýsingum úr lífskjararannsókn EU-SILC sem Hagstofa Íslands tók saman. Það getur stafað af mörgum ástæðum en ein er án efa sú að það er hagkvæmara. Allar hagtölur segja okkur að almennt vegni fólk betur á Íslandi í dag. Við sjáum það að neysla eykst (bæði á dýrari vörum og dagvöru) og skuldir lækka um leið og ráðstöfunartekjur aukast umtalsvert. Heimilunum farnast einfaldlega betur. Nákvæmlega á hvaða aldri ungur fólki hentar að fara að heiman getur verið breytilegt, auk þess sem stundum geta tímabundnar kringumstæður valdið því að það kemur aftur í foreldrahús. Nú eru á miðjum aldri kynslóðir sem eiga líklega stærri hús en áður hefur verið í Íslandssögunni. Það hlýtur að hafa áhrif.

Tækifærin skipta máli

Í annan stað þá skipta tækifæri ungt fólk mikið. Sjálfsagt horfa margir til náms og þeirra tækifæra sem þar bjóðast og líklega hafa tækifæri til háskólanáms aldrei verið meiri eða betri og aldrei hafa fleiri stundað háskólanám. Enda er það svo að hærra hlutfall ungs fólks er í námi núna, eða rúmlega 31% samanborið við rúm 26% árið 2004 samkvæmt áðurnefndum upplýsingum úr lífskjararannsókn EU-SILC.  Um leið hefur þeim sem leggja í framhaldsnám, svo sem doktorsnám, fjölgað verulega.

En það skiptir ungt fólk ekki síður máli að hafa aðgang að vinnu. Atvinnustigið á Íslandi er þannig þetta vorið að það vantar fólk í vinnu allstaðar. Það felur auðvitað ekki í sér að allir fái samstundis þá vinnu sem þeir kjósa eða sem hentar þeirra menntun. Það á sjaldnast við um vinnu til skemmri tíma né fyrstu vinnu eftir nám. En þegar horft er til þess að atvinnuleysis meðal ungs fólks víða í Evrópu er á milli 30 og 50% þá sést að þarna skilur himinn og haf á milli. Í þeim samanburði sem liggur til grundvallar Social Progress Index (SPI) vísitölu, sem hér hefur verið talsvert til umræðu undanfarið, kemur fram að tækifæri (e. opportunity) skipta gríðarlega miklu. Á meðan fólk upplifir að tækifæri séu fyrir hendi þá er það tilbúið að gefa samfélagi sínu háa einkunn. Þar skiptir aðgangur að menntun miklu eins og áður sagði.

Skuldir og ungt fólk

En það er annað sem einnig skiptir miklu máli fyrir ungt fólk þó það liggi ekki alltaf í augum uppi. Það er skuldastaða þjóðarbúsins. Það segir sig sjálft að þjóðfélag sem hefur eytt framtíðartekjum sínum með óhóflegri skuldsetningu hefur mun minna að bjóða fyrir ungt fólk. Jafnvel svo að það hefur áhrif á það hvar það sest að. Undanfarið hefur náðst ótrúlegur árangur við að færa niður skuldir ríkissjóðs og allt stefnir í að ríkissjóður verði í einstakri stöðu innan skamms. Það gefur ríkisvaldinu tækifæri til að verja meira fé til nauðsynlegra verkefna og lækka skuldir. Það veltur að sjálfsögðu á hinni pólitísku stefnumótun í hvaða skrefum það er tekið en horfur eru á að vaxtakostnaður ríkissjóðs og opinberra fyrirtækja geti lækkað um tugi milljarða á kjörtímabilinu. Bætt lánshæfi fylgir í kjölfarið sem síðan lækkar fjármögnunarkostnað enn frekar. Hér fylgir með graf sem sýnir hina ótrúlegu breytingu sem hefur orðið á skuldastöðu þjóðarinnar. 

skuldir

Það er ekki víst að allir átti sig á mikilvægi þessara hluta en breski sagnfræðingurinn Niall Ferguson hefur bent á í skrifum sínum að hin óhóflega skuldasöfnun vestrænna ríkja geti leitt til alvarlegs uppgjörs milli kynslóða. Með ósjálfbærri skuldasöfnun séu núverandi kynslóðir að rjúfa sáttmála kynslóðanna og skilja reikninginn eftir fyrir þá sem síðar koma. Kynslóðareikningar eru ekki einfalt dæmi en þetta skiptir augljóslega miklu máli.

 

Lífeyriskerfið og ungt fólk

En það skiptir ekki síður máli að lífeyriskerfi landsins er mjög öflugt. Fá lönd hafa eins sterka stöðu þegar kemur að fjármögnun lífeyrissskuldbindinga eins og Ísland. Öfugt við lönd eins og Frakkland sem treysta á gegnumstreymissjóði og ætla því komandi kynslóðum að greiða lífeyri þeirra eldri. Er það heillandi framtíðarsýn fyrir unga fólkið? Sjóðssöfnunarkerfi eins og hér tryggir að hver kynslóð ber sínar byrðar.

Því er spáð að vinnandi fólk verður innan við 60% þjóðarinnar 2065 en þetta hlutfall er er 67% nú. Fólk á eftirlaunaaldri verður hátt í fjórðungur þjóðarinnar 2065 en er 11% nú. Segir sig ekki sjálft að þjóðin verður að búa í haginn fyrir þessar breytingar og undirbúa að ýmis þjónusta við fólk á síðari hluta ævinnar þurfi að aukast?

Einnig verða ríki og sveitarfélög að undirbúa sig fyrir hlutfallslega minni skatttekjur þegar það verða færri á vinnumarkaði á móti hverjum lífeyrisþega. Augljósasta, sanngjarnasta og brýnasta leiðin er auðvitað að grynnka á skuldum til þess að framtíðarkynslóðir geti nýtt að mestu þá skatta sem greiddir verða í framtíðinni. Ef það verður ekki gert munu þær þurfa að standa undir skuldum fyrri kynslóðar og á sama tíma fjármagna þjónustu við eldri borgara eða sömu kynslóð og eftirlét þeim skuldirnar. Það er afar ósanngjarnt að velta slíkum skuldbindingum yfir á framtíðarkynslóðir.

Undanfarið höfum við séð tilhneigingu í þá átt að ungt menntað fólk telji að það sé betra að dveljast erlendis. Jafnvel setjast þar að þó líkleg blundi í flestum að vilja koma heim. Það er vissulega markmið á öllum tímum að tryggja að vel menntað fólk sjái tækifæri á Íslandi þó það segi sig sjálft að það getur verið erfitt fyrir lítið land að vera samkeppnisfært þegar kemur að sérhæfðri vinnu. Þá er einnig augljóst að með bættum samskiptum og bættum samskiptatækjum er auðveldara fyrir fólk að dveljast fjarri fjölskyldu sinni hér heima, en fjölskyldan var og er sterkasta aðdráttaraflið.  Það breytist vonandi seint.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.