c

Pistlar:

12. júlí 2016 kl. 20:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagkvæmni virkjanakosta vikið til hliðar?

Allir Íslendingar ættu að hafa skilning á því að nauðsynlegt er að horft sé til hagkvæmnissjónarmiða við mat á virkjunarkostum. Undanfarið hefur verið byggt upp flókið matskerfi sem hefur því miður haft tilhneigingu til þess að horfa framhjá hagkvæmni við mat á  virkjanakostum. Það er ótækt.

Það er ekkert leyndarmál að Samorka, samtök orkufyrirtækja, hefur lengi gagnrýnt þetta. Nú hefur Samorka lagt fram aðferðarfræði og útreikning á mismunandi hagkvæmni virkjunarkosta sem til umfjöllunar eru í 3. áfanga rammaáætlunar. Umfjöllun um þetta hefur verið næsta lítil, að því er séð verður, fyrst og fremst bundin við Morgunblaðið.

Aðferðarfræðin sem hér um ræðir kallast LCOE, eða Levelized Cost of Energy. Hún er vel þekkt á alþjóðavettvangi í skýrslum um orkumál þó að ekki hafi hún verið notuð hingað til hér á landi. Með LCOE er hægt að nota „sömu mælistiku“ í samanburði ólíkra virkjunarkosta. Skýrsluna vann Kristján B. Ólafsson, rekstrarhagfræðingur. Svo virðist sem aðferðafræði LCOE geti komið að góðu gagni við frekari úrvinnslu, stefnumörkun og röðun virkjunarkosta.nordlingaalda

Hagkvæmni virkjanakosta vikið til hliðar

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að tveir af tíu hagkvæmustu virkjunarkostunum sem fjallað er um í Rammaáætlun séu í nýtingarflokki, sjö í biðflokki og einn í verndarflokki.

Það kemur fáum á óvart að samkvæmt skýrslunni er Norðlingaölduveita hagkvæmasti virkjunarkosturinn en sem stendur er hún í biðflokki. Norðlingaölduveita myndi efla gríðarlega nýtingu allra virkjana á Þjórsársvæði sínu með miðlunargetu sinni en hún sést hér á meðfylgjandi mynd. Hagkvæmasti virkjunarkosturinn í nýtingarflokki er Þeistareykjavirkjun.

Vatnsaflsvirkjanir ódýrari en jarðvarminn með betri nýtingu

Virkjunarkostir landsmanna eru fjölmargir með mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað, orkuvinnslugetu, nýtingu og fleira. Vatnsaflsvirkjanir hafa almennt verið ódýrari í stofnkostnaði á hvert uppsett megavatt (MW) en á móti hafa jarðhitavirkjanir skilað hærri nýtingu. Flókið getur verið að leggja mat á hagkvæmni þegar um ólíka kosti er að ræða.

Í fyrirliggjandi skýrslu þriðja áfanga rammaáætlunar, sem nú er í umsagnarferli, var einungis tekið tillit til niðurstaðna frá faghópum 1 og 2, sem fjalla um náttúru- og menningarminjar og auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu. Ekki er stuðst við niðurstöður frá faghópum 3 og 4, sem áttu að fjalla um efnahags- og samfélagsleg áhrif af virkjanakostum. Að mati Samorku vantar mikið upp á ef ekki er tekið tillit til þeirra þátta. Þeir ættu að vera mikilvægur hluti af heildarmyndinni líkt og sjónarmið náttúruverndar og annarrar nýtingar á borð við ferðaþjónustu.

Gríðarlegur kostnaðarmunur

Skýrslan sýnir að allt að alls getur munað tugum, jafnvel yfir hundrað milljörðum króna, á samanlögðum stofnkostnaði við virkjanakosti í núgildandi nýtingarflokki annars vegar og ef valdir væru hagkvæmustu kostirnir hins vegar. Hún sýnir einnig að árlegur kostnaður við orkuframleiðslu er mörgum milljörðum króna meiri við kosti í núverandi orkunýtingarflokki en við hagkvæmustu uppröðun.  Að sjálfsögðu koma fleiri sjónarmið en hagkvæmni virkjanakosta við sögu við röðun virkjunarkosta. Að þessu leyti er ekki annað hægt en að taka undir með Samorku um mikilvægi þess að horft verði til hagkvæmni, sem og efnahags- og samfélagslegra áhrifa við röðun virkjunarkosta.

Í gögnum og skýrslu Orkustofnunar frá ágúst 2015 um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga rammaáætlunar eru alls 70 mismunandi virkjunarkostir og 4.400 MW í svokölluðum orkunýtingarflokki og biðflokk eins og tekið er saman í skýrslu Samorku. Til viðbótar eru 13 virkjunarkostir og 1.240 MW í verndarflokki. Er þá vindorkan ekki meðtalin. Virkjunarkostir landsmanna eru þannig fjölmargir með mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað, orkuvinnslugetu og LCOE eða „núvirtan meðalkostnað“. Hægt er að taka undir þau sjónarmið sem segja að aðferðafræði LCOE getur komið að gagni við frekari úrvinnslu, stefnumörkun og röðun virkjunarkosta.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.