c

Pistlar:

28. júlí 2016 kl. 23:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Metin falla í ferðaþjónustunni

Ferðamenn streyma sem aldrei fyrr til landsins og ljóst að enn eitt metið verður slegið í ár. Og í raun falla met á öllum stigum ferðamennsku; fjölda ferðamanna yfir árið, fjöldi í einstaka mánuðum og svo að sjálfsögðu þegar kemur að eyðslu ferðamanna. Já, að öllu leyti blasir við að við Íslendingar erum að njóta einstakrar velgengni í ferðamennskunni.

En eins og oft áður sjá margir hin miklu velgengni í ferðaþjónustunni sem vandamál. Jú, vissulega þarf að takast á við margvíslega þætti sem fylgja óneitanlega hinni miklu fjölgun. Og það er einnig ljóst að engin ein atvinnugrein mun hafa meiri eða djúpstæðari áhrif á þjóðina. Um það var skrifað hér í almörgum pistlum í þann mund þegar ferðamannabólan var að byrja að blása út. Einnig þótti skrifara augljóst að menn væru að vanmeta aukninguna á þeim tíma og vitnaði meðal annars í orð Ólafs Ragnars Grímssonar sem virtist skynja fljótt hvernig hlutirnir væru að þróast.2016-07-17 12.09.45

Landsbyggðin lifnar við

En er hægt að horfa framhjá því að ferðaþjónustan skiptir efnahag landsins gríðarlega miklu máli og hefur skapað þúsundir nýrra starfa undanfarið? Þegar ferðast er um Ísland blasir ný mynd við. Ferðamenn streyma um allt land og hafa umbreytt atvinnu- og mannlífi, oftast á jákvæðan hátt en vitaskuld fylgja vaxtaverkir og það virðast vera þeir sem fjallað er um í fréttum. Í síðustu viku rakti ég breytinguna á Siglufirði. En sama má sjá annars staðar. Á Hvammstanga eru komnir tveir góðir veitingastaðir sem vert er að heimsækja en mörgum hefur þótt heldur úrleiðis að kíkja þar við. Á Hófsósi er nú komin margvísleg þjónusta auk þess sem þar er að finna eitt forvitnilegasta safnaumhverfi landsins. Á Sauðárkróki er verið að dytta að húsum og víða er að spretta fram þjónusta sem bæði heimamenn og ferðamenn njóta. Mannlífið verður fjörugra og áhugaverðara. Að ekki sé minnst á Siglufjörð en þessi nyrsti bær landsins hefur tekið stakkaskiptum og er nú ansi alþjóðlegur á að líta með fjölmörgum valkostum þegar kemur að gistingu, matsölu og þjónustu. Og nú leggst bærinn ekki í dvala langar heimskautsnæturnar heldur dregur til sín ferðamenn á öðrum forsendum yfir vetrarmánuðina, þökk sé stórbættum samgöngum.2016-07-17 15.29.26

Allir á ferðinni

Aldrei hafa eins margir jarðarbúar ferðast eins og síðustu ár og heldur UNWTO (The World Tourism Organization) utan um þær tölulegu upplýsingar og greiningar eins og sjá má í nýrri grein á heimasíðu Íslenska ferðaklasans. Þar má sjá upplýsingar um að hvorki fleiri né færri en 1.186 milljónir manna ferðuðust um heiminn 2015. Alþjóðlegur ferðamannaiðnaður stendur nú undir 7% af þjónustu og vöruútflutningi og tengja má 11 hvert starf í heiminum við ferðaþjónustu. Til samanburðar ferðuðust 25 milljónir manna um heiminn árið 1950.  Í langtímaáætlunum er gert ráð fyrir að vöxtur í alþjóðlegum ferðum verði 3,3% til ársins 2030. Það þýðir að tala þeirra sem ferðast í heiminum verður 1.800 milljónir á þeim tíma, fólk sem eru ýmist í leit að ævintýrum og nýjum upplifunum sem og ráðstefnu og fundagestir sem er ört stækkandi hluti í ferðaþjónustu.

En þrátt fyrir þennan vöxt er ekki sjálfgefið að þróunin sé á þennan hátt, víða um heim fækkar ferðamönnum. Sumstaðar svo að um munar. Þar eru lönd sem hafa lent í ófriði fyrirferðamest. Fólk vill enda ekki hætta lífi eða limum vegna ferðalaga í sumarleyfinu. Ferðamönnum í því forna menningarríki Egyptalandi hefur fækkað um helming á síðustu 10 árum. Sama á við um önnur ríki í Miðausturlöndum. Því að fara þangað sem fólk er óvelkomið í fríinu sínu? Ísland er að flestra mati álitið friðsemdarland og þess njótum við. Ferðamenn telja sér ekki ógnað hér.

Frábær nýting

En lítum á nokkrar tölur. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru gistinætur á hótelum í júní 357.400 sem er 25% aukning miðað við júní 2015. Mestu skiptir þó að gistinætur erlendra gesta voru 93% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 27% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði aðeins um 3%. Undirritaður fékk að kynnast því fyrir stuttu að gisting á Suðurlandi er meira og minna upppöntuð í byrjun ársins. Er að undra að menn keppist við að setja upp nýja gististaði?

Flestar gistinætur á hótelum í júní voru á höfuðborgarsvæðinu eða 206.400 sem er 29% aukning miðað við júní 2015. Um 58% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 53.300. Erlendir gestir með flestar gistinætur í júní voru: Bandaríkjamenn með 90.700, Þjóðverjar með 62.100 og Bretar með 36.800 gistinætur.

Á tólf mánaða tímabili frá júlí 2015 til júní 2016 voru gistinætur á hótelum 3.222.300 sem er 28% aukning miðað við sama tímabil árið áður. En það sem mest er um vert er að 82,6% nýting var á herbergjum herbergja á hótelum í júní 2016 en þar af var nýting herbergja best á höfuðborgarsvæðinu í júní eða um 87,4%.

Þetta sýnir glögglega að fjárfestingar í ferðaþjónustu eru að skila sínu og við blasir að fjárfesting verði gríðarleg í íslenskri ferðaþjónustu á þessu ári. Ruðningsáhrif þess eru án efa umtalsverð því þetta kemur niður á annarri byggingastarfsemi, svo sem að byggja yfir íbúa landsins.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.