c

Pistlar:

10. ágúst 2016 kl. 10:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Peningahlið Ólympíuleikanna

Um þessar mundir fylgist heimsbyggðin með Ólympíuleikunum sem nú eru haldnir í Ríó í Brasilíu og hafa margir orðið til að rifja upp að hér er um að ræða ansi dýrt partý. Einn hagfræðingur sagði að engin ætti að halda leikanna af því að hann héldi að hægt væri að græða á þeim! Það er líklega ástæða fyrir stjórnvöld hina einstöku ríkja að hugsa sig vandlega um áður en samþykkt er að senda inn tilboð. Leikarnir geta orðið gríðarlega kostnaðarsamir og í sumum tilfellum hafa þeir haft afdrifaríkar afleiðingar. Þannig er margt sem bendir til þess að leikarnir í Aþenu árið 2004 hafi orðið upphafið að skuldavanda Grikkja og enn þann dag í dag megi rekja um 5% af skuldum gríska þjóðarbúsins til leikanna. Nokkur uppgangur ríkti í Grikklandi þegar ákveðið var að hýsa leikanna en í dag er efnahagur landsins í rúst en talið er að kostnaður Grikkja af leikunum hafi numið 16 milljörðum Bandaríkjadala. Ekki er hægt að hengja allt á leikanna sjálfa en þó er ljóst að þeir höfðu örlagaríkar afleiðingar. Sagan segir að borgin Montreal í Kanada hafi þurft 30 ár til að jafna sig eftir leikanna 1976 en borgin fór nánast á hausinn í miðju kafi og náði ekki einu sinni að klára sjálfan Ólympíuleikvanginn og hefur reyndar ekki tekist ennþá. summer-olympics

Pólitískar sýningar

Í sumum tilfellum hafa leikarnir verið hugsaði til að varpa ljóma á viðkomandi ríki. Það var ætlunin 1936 þegar leikarnir voru haldnir í Berlín á tíma nasista. Sagan segir að Adolf Hitler hafi ekki verið svo áhugasamur um leikanna framan af enda ekki mikill íþróttaáhugamaður. En þegar Hitler áttaði sig á að það væri hægt að ráðast í byggingu allskonar mannvirkja espaðist hann upp og leikarnir urðu að einhverskonar sýningu á sköpunarmætti nasismans. Leikarnir í Berlín kostuðu jafn mikið og allir leikar fram að því eða frá því þeir höfðu verið endurvaktir í Aþenu 40 árum áður. Hitler var að lokum svo áhugasamur að hann mætti alla keppnisdaga og tók mest alla hirð sína með sér. Að sumra dómi voru leikarnir í Bejing 2008 einnig mikil hugmyndafræðileg sýning. Kínverjum var mikið í mun að sýna að þeir gætu leyst slíkt verkefni af hólmi svo eftir væri tekið. Það sást greinilega í yfirdrifnustu opnunarhátíð sem sést hefur og vissulega ríkti nokkur glæsibragur yfir leikunum og menn ýttu til hliðar kvörtunarröddum sem minntu á að fátæktarhverfum hefði verið sópað til hliðar og verkamenn hefðu verið hart leiknir í aðdragandanum. Allt slíkt virðist gleymast þegar leikarnir hefjast og yfirvöld í Ríó vona það sama gerist en mótmæli íbúa hafa heldur skyggt á gleðina.

Útvistaðir leikar

Einu leikarnir sem hafa staðið almennilega undir sér eru leikarnir í Los Angeles 1984. Engu skipti þó að austurblokkin mætti ekki til að hefna fyrir skróp vesturblokkarinnar í Moskvu 1980. Los Angeles fór þá leið að útvista sem mestu af starfseminni og náði þannig niður rekstrarkostnaðinum. Keppendur og gestir virtust ekki kvarta yfir því og svo tókst borginni einnig vel upp við nýtingu þeirra mannvirkja sem voru fyrir. Dapurlegast er þegar gríðarleg mannvirki eru byggð, nánast sem einnota eins og þekkist í nokkur skipti. Flestir hafa séð íþróttamannvirki frá Aþenuleikunum sem virðast ekki hafa verið notuð síðar. Sama gerðist í Bejing og reyndar á fleiri stöðum. Það er ekki til að gleðja skattgreiðendur þeirra landa og borga sem halda leikanna og nú virðast íbúar  Ríó ætla að gera sitt besta til að mótmæla fjáraustrinum. Þó að milljón gestir séu væntanlegir til borgarinnar (og 10 þúsund keppendur) hefur engin trú á að þeir muni standa undir sér. Þegar Ríó sóttist eftir leikunum var mikill efnahagslegur uppgangur í Brasilíu. Nú er öldin önnur og efast má um að landið hafi efni á þessari skrautsýningu.

Ásóknin dofnað

Næstu leikar verða í Tokýó og Japanir hafa lofað að halda sparlega um budduna. Reyndar var svo komið að ásókn í að halda ólympíuleika hefur dofnað og á það sérstaklega við um vetrarleikanna. Pútin Rússlandsforseta tókst að eyða sem svaraði 51 milljarði dala í vetrarleikana í Sochi fyrir tveimur árum og sló þar met sem seint verður slegið. Ætlunin er að nota mannvirkin að hluta til fyrir heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu 2018 en svona haga bara einræðisherrar sér. Vissulega verða til störf á meðan á leikunum stendur en flest bendir til þess að það sé ofmetið. Fyrir leikana í London 2012 er talið að hafi orðið til um 50 þúsund tímabundin störf en í fæstum tilvikum var um að ræða starfsfólk sem hafði ekki verið með vinnu. Vissulega grípa margar þjóðir til þess að ráðast í nauðsynlega uppbyggingu á innviðum og mannvirkjum. Í Aþenu varð til jarðlestakerfi og hafnarsvæðið í Barcelóna gerbreyttist til hins betra eftir leikana 1992. Vissulega nýtast slík mannvirki eftirá en spurning er hvort það sé hagkvæmt að byggja þau í kapphlaupi við tímapressu næstu leika. Það hefur komið á daginn að oft er kastað til höndunum og því verr af stað farið en heima setið.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.