c

Pistlar:

21. ágúst 2016 kl. 13:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísland best í heimi - á margan hátt

Með reglulegu millibili hefur sá er þetta skrifar tekið saman stutt yfirlit sem sýnir hvar við Íslendingar stöndum á heimssviðinu, nokkurskonar uppgjör á samanburðafræðum þjóðanna! Í upphafi var það undir fyrirsögninni „Ísland best í heimi” þar sem hlaupið var vítt yfir sviðið, svona meira til fróðleiks og gamans og ekki tæmandi á nokkurn hátt. Þetta hefur verið endurtekið nokkrum sinnum, síðast í ágúst á síðasta ári.Fagna-515    

Hér verður gerð tilraun til að uppfæra þessa upptalninguna og rakin þau tilvik sem hafa annað hvort bæst í flóruna eða önnur þau sem hafa endurnýjast á einhvern hátt. Samantektinni er ætlað að útlista röðun Íslands eins og hún er í dag og er hér sem áður stuðst við upplýsingar sem hafa birst í íslenskum fjölmiðlum undanfarin misseri:

  • Ísland er í 13. sæti yfir þau ríki sem standa fremst hvað varðar ný­sköp­un samkvæmt lista Global Innovati­on Index 2016. Þetta er ní­unda árið í röð sem list­inn er tek­inn sam­an en það er Cornell-há­skól­inn sem ann­ast gagna­söfn­un. Sviss er í fyrsta sæti og Svíþjóð er í öðru sæti. Finn­ar eru í fimmta sæti og Dan­ir eru í átt­unda sæti list­ans. Ísland skipaði einnig 13. sætið á list­an­um í fyrra.
  • Hús­hit­un­ar­kostnaður er lang­lægst­ur á Íslandi og er þre­falt minni en þar sem næ­stó­dýr­ast er að hita. Þetta kem­ur fram í nýrri sam­an­tekt Samorku um hús­hit­un­ar­kostnað á Norður­lönd­um. Stuðst er við töl­ur frá stærstu veitu­fyr­ir­tækj­um í hverri höfuðborg. Þar seg­ir að ár­leg­ur kostnaður við að hita heim­ili á Íslandi sé rúm­ar 85 þúsund krón­ur á ári fyr­ir íbúa á höfuðborg­ar­svæðinu. Íbúi í Hels­inki þarf hins­veg­ar að borga hátt í hálfa millj­ón ár­lega, eða um 428 þúsund krón­ur. Í Stokk­hólmi er næst­dýr­ast að hita húsið sitt, en þar greiða íbú­ar rúm­lega 300 þúsund krón­ur á ári. Íbúar í Kaup­manna­höfn og Osló borga svipað á ári, tæp­lega 300 þúsund krón­ur. Í sam­an­tekt­inni seg­ir að skatt­ar vegi nokkuð þungt á hús­hit­un­ar­reikn­ingi Norður­landa­búa, en auk virðis­auka­skatts er inn­heimt­ur sér­stak­ur orku­skatt­ur. Á Íslandi er hann 2% á heitt vatn. Lang­flest heim­ili lands­ins eru hituð upp með jarðhita, eða 90%. Í Reykja­vík er þetta hlut­fall 100%. Auk þess að vera ódýr kost­ur er jarðhiti að auki end­ur­nýj­an­leg­ur og um­hverf­i­s­vænn orku­gjafi.
  • Það er ekki víst að allir séu uppnumdir yfir því að Ísland þykir vera ákjós­an­leg­ur kost­ur fyr­ir staðsetn­ingu gagna­vera. Í áhættu­grein­ing­ar­skýrslu Cus­hm­an & Wakefield, Data Center Risk Index 2016, fær Ísland hæstu ein­kunn en þar á eftir eru Nor­eg­ur, Sviss, Finn­land og Svíþjóð. Ísland er að fikra sig upp listann en þrjú ár eru frá síðustu skýrslu Cus­hm­an & Wakefield um áhættuþætti tengda gagna­ver­um. Þá sat Ísland í sjö­unda sæti list­ans, að því er fram kem­ur í um­fjöll­un um þetta mál í ViðskiptaMogg­an­um.
  • Það sem mörgum þykir vænst um þessa daganna er að íslenska karla­landsliðið í knatt­spyrnu tók risa­stökk á styrk­leikalista Alþjóðaknatt­spyrnu­sam­bands­ins, FIFA, eftir EM í sumar. Ísland var í 22. sæti á list­an­um eftir EM og hafði aldrei verið svo of­ar­lega en liðið var í 34. sæti á síðasta lista sem kom út í byrj­un júní. Frá­bært gengi á Evr­ópu­mót­inu í Frakklandi kem­ur Íslend­ing­um í þetta sæti.
  • En það er líklega enn meiri ástæða til að fagna því að Ísland trónir á toppi listans yfir friðsælustu ríki í heimi samkvæmt friðarvísitölu Institute for Economics and Peace. Fjölmörg atriði eru lögð til grundvallar útreikningunum; má þar nefna glæpatíðni, pólitískan stöðugleika, samskipti við önnur ríki og hernaðarátök svo dæmi séu tekin. Ísland er sem fyrr segir á toppi listans, Danmörk í 2. sæti og Austurríki í 3. sæti. Þessar þrjár þjóðir röðuðu sér í þessi sömu sæti á listanum sem kom út í fyrra. Engin önnur Norðurlandaþjóð kemst á topp 10 listann. Finnland er í 11. sæti, Svíþjóð í 14. sæti og Noregur í 17. Sæti.
  • En stundum getur einkunnin batnað en Ísland færst í lægra sæti. Það sást glögglega þegar upplýstist að Ísland var í 10. sæti af 133 þjóðum á nýjum alþjóðlegum lista yfir velferð og gæði samfélagsinnviða og hafði Ísland lækkað um 6. sæti milli ára. Listinn, Social Progress Index (SPI), er tekinn saman af Social Progress Imperative stofnuninni, sem hefur aðsetur í Washington og London og byggir á fræðagrunni sem Micheal E. Porter, hagfræðiprófessor frá Harvard, hefur átt mestan þátt í að þróa og undirritaður hefur talsvert fjallað um. En lægra sæti þýðir þó ekki að velferð hafi minnkað á þessum tíma, þvert á móti hefur velferðarvísitalan hækkað hér á landi. Á móti kemur að hún hefur hækkað enn meira í öðrum löndum sem skjótast þar með upp fyrir Ísland, sem nú er neðst Norðurlanda á listanum. Finnland trónir í efsta sætinu, Kanada er í öðru sæti, Danmörk í þriðja, Svíar verma 6. sætið en Norðmenn það sjöunda en þeir lækka um sex sæti, eins og Íslendingar. Tölfræðilega er mjög lítill munur á efstu sætunum en tölur um Ísland byggja á gögnum frá 2012 til 2016.
  • Í maí síðastliðnum gaf tímaritið Economist Íslandi hæstu einkunn í árlegri glerþaksvísitölu sinni. Vísitalan tekur saman hlutfall kynjanna á vinnumarkaði og í stjórnum fyrirtækja, kynbundinn launamun og hlutfall kvenna á þingi. Þá er einnig tekið í reikninginn hversu langt fæðingarorlof konum býðst, auk þess sem hlutfall kvenna með háskólagráður er tekið inn í jöfnuna eins og sagði í frétt Viðskiptablaðsins þá. Samantekt Economist tekur til aðstæðna á vinnumarkaði og stjórnmála til greina og nauðsynlegt er að hafa það í huga við lestur samantektarinnar. Af 100 mögulegum stigum er Ísland með 82,6 og er því hæst á listanum. Rétt á eftir Íslandi er Noregur með 79,3 og þar á eftir eru Svíþjóð og Finnland. Ungverjaland rekur svo lest þessara fimm efstu ríkja. Neðst á listanum er Suður-Kórea með aðeins 25 stig, næstneðst er Tyrkland og þar að ofan eru Japan, Sviss og Írland.
  • Margir gleðjast án efa yfir því að Ísland er í 3. sæti þegar kemur að þéttleika þungarokksveita (hevy metal). Það er reyndar verið að tala um landfræðilegan þéttleika í könnuninni en við viljum fremur horfa til taktsins þegar talað er um þéttleika hljómsveita!
  • Í maí upplýsti Hagstofan okkur um að sé horft á tíu ára tímabil, 2005–2014, var meðalævi karla á Íslandi 80,2 ár og í Sviss 80 ár og skipuðu þeir fyrsta og annað sætið meðal Evrópulanda. Fast á hæla þeim komu karlar frá Svíþjóð og Liechtenstein (79,5 ár), Ítalíu (79,4), Noregi og Spáni (78,9 ár). Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Moldavíu (65,6), Úkraínu (64) og Rússlandi (61,6). Íslenskar konur eru ekki alveg eins ofarlega en á sama tíu ára tímabili, 2005–2014, var meðalævi kvenna hæst í Frakklandi og á Spáni 85,1 ár og skipuðu þær fyrsta sætið í Evrópu. Næstar í röðinni voru konur frá Sviss (84,7), Ítalíu (84,6) og Liechtenstein (84,1) og því næst Íslandi (83,7 ár´), í 6. Sæti sé þannig horft á það. Meðalævilengd kvenna er styst í Úkraínu (74,8), Rússlandi (74) og Moldavíu (73,6 ár).
  • Í mars upplýstist að Ísland er í 18. sæti af 141 landi yfir samkeppnishæfustu ferðamannalönd heim. Eru þetta niðurstöður World Economic Forum í skýrslu sem var reyndar birt á síðasta ári.
  • Heilbrigðiskerfið á Íslandi reyndist vera það 8. besta í Evrópu, samkvæmt úttekt Health Consumer Powerhouse (HCP). Samkvæmt úttektinni er Ísland fyrir ofan Svíþjóð og Danmörku á listanum sem birtist í byrjun ársins. HCP birtir árlega lista yfir frammistöðu heilbrigðiskerfa, svokallaðan Euro Health Consumer Index, í 35 Evrópulöndum. Úttektin tekur til 48 þátta heilbrigðiskerfisins, svo sem réttindi sjúklinga, aðgang að umönnun, árangur meðferða, fjölbreytni þjónustu, forvarna og fleira. Gefin eru stig fyrir hvern þátt og geta löndin fengið einkunn á bilinu 0 til 1000. Samkvæmt þessu er besta heilbrigðiskerfið í Hollandi sem skorar 916 stig af þúsund mögulegum. Þar á eftir koma Sviss (894), Noregur (854), Finnland (8745) og Belgía (836). Ísland er í áttunda sæti listans með 825 stig, mitt á milli Þýskalands (828) og Danmörku (793). Svíþjóð (786) er svo í 10. sæti listans. Ísland skorar hæst allra landa, ásamt Noregi og Hollandi, í flokknum árangur meðferða. Þrátt fyrir að skora sjö stigum hærra en í fyrra fellur Ísland um eitt sæti á listanum á milli ára.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.