c

Pistlar:

7. september 2016 kl. 23:33

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ekki er allt sem sýnist

Þeim sem reyna að fá einhvern skynsamlegan botn í dægurmálaumræðuna hér á landi er sjálfsagt lítill greiði gerður með því að benda þeim á nýlega frétt um íslenskan karlmann sem virðist eiga við spilafíkn að eiga. Hann hefur nú stefnt rekstraraðilum spilakassa hér á landi og krefst 77 milljóna í skaðabætur frá þeim auk þeirra 24 milljóna sem hann hefur spilað fyrir í spilakössum. Viðkomandi segir í stefnu sinni að það versta sem fyrir hann hafi komið sé að hafa unnið rúmar 4 milljónir í spilakassa. Við það hafi hann nefnilega algjörlega misst stjórn á spilafíkninni sem hann telur augljóst að aðrir bera ábyrgð á. En ef háskinn býr innra með honum sjálfum má velta fyrir sér hvort sanngjarnt sé að gera aðra ábyrga fyrir fallinu.

En svona nokkuð verður tæpast skáldað upp. Og þó. Það virðist ansi algengt að fólk átti sig ekki á orsakasambandi atburða eða gerir sér að leik að snúa út úr þekktum staðreyndum. Jafnvel svo að það neiti að horfast í augu við eigið framferði og afleiðingar þess eins og í tilvitnaðri frétt. Líklega hefur Árni Magnússon handritasafnari haft eitthvað slíkt í huga þegar hann skrifaði:  „Svo gengur það til í heiminum, að sumir hjálpa erroribus á gáng, og aðrir leitast síðan við að útryðja aftur þeim sömu arroribus. Hafa svo hverir tveggja nokkuð að iðja.“ Við skulum skoða nokkur tilvik um háskan sem sem okkur er búinn í í hagkerfinu.

Háskalegt bankakerfi

Að afla skynsamlegs skilnings á því sem gerðist getur sannarlega vafist fyrir mönnum á öllum tímum. Og sá ágæti ásetningur að ætla sér að halda sig við staðreyndir málsins dugar ekki alltaf. Það rifjaðist upp á fundi sem haldin var á mánudagsmorgun í tilefni af skýrslu um nýja skipan fjármálakerfa. Fyrir lá skýrsla sem unnin hafði verið af endurskoðunarfyrirtækinu KPMG í samstarfi við forsætisráðuneytið. Fundurinn var fróðlegur en ef ég á að vera alveg heiðarlegur get ég ekki sagt að ég hafi skilið allt sem þar fór fram. Í grunninn má þó segja að sífellt fleiri hafi efasemdir um uppbyggingu fjármálakerfis heimsins eins og við þekkjum það best hér á Vesturlöndum. Það kerfi virðist færa okkur umtalsverða óvissu og ógna þeim stöðugleika sem flestir virðast þrá enda duglegur skammtur af stöðugleika talin forsenda efnahagslegs velfarnaðar. Um leið virðist sem aðrir en þeir sem stjórna fjármálakerfinu beri alltaf að endingu ábyrgð á því, svona þegar á reynir. Það birtist meðal annars í því að fjármálakerfi hafa tilhneigingu til þess að vera á ábyrgð skattgreiðenda þegar í harðbakkann slær. Þess á milli virðist vera nokkuð áhugavert að vera þar innanborðs, laun hærri en gengur og gerist og almennt góð stemmning.

Ísland skipar sérstakan sess í bankasögu heimsins. Lítið land með veigalítinn gjaldmiðil og var  nokkurn veginn á á hættulegasta stað sem hægt var að vera, þegar versta bankakreppa heims í áratugi dundi yfir. Líklega þarf að fara til kreppunnar miklu til að finna samanburð. Hvað nákvæmlega gerist er enn deilumál þrátt fyrir endurteknar rannsóknir, langar skýrslur og nánast endalausa umræðu. Sú staða sem Ísland er í í dag er hins vegar ótrúleg miðað við hvernig útlitið var eftir bankahrunið. En um þetta allt er deilt eins og gefur að skilja og ekki víst að einu sinni áreiðanlegasta staðreyndavakt í heimi geti komið skikki á þá umræðu.

Augljóst var af þeim ræðum sem fluttar voru á mánudaginn að enn sjá menn upphaf og framvindu bankakreppunnar í ólíku ljósi. Hvað þá að menn séu á eitt sáttir um hve langt eigi að ganga til að breyta kerfinu. Það er líklega rétt sem einn ræðumanna sagði að það væru miklar sálfræðilegar hindranir fyrir því að ráðast í róttækar breytingar. Og það er eðlilegt, þróun er yfirleitt heppilegri en bylting. En það breytir því ekki að við Íslendingar verðum að taka margvíslegar ákvarðanir á næstu misserum um hverskonar bankakerfi við viljum hafa.

Háskalegar fjármagnshreyfingar

En víða má þó sjá einlægan ásetning til þess að hleypa inn ferskum straumum. Í því sambandi má mæla með grein dr. Eric Stubbs í Morgunblaðinu á mánudagsmorgun, 5. september, sama dag og áðurnefnd ráðstefna var haldin. Í grein sinni reynir Stubbs að færa rök fyrir því að stýrivextir séu of háir hér á landi. Hagkerfið hér sé smátt og útsett fyrir erlendum fjármagnshreyfingum og því leiði stýrivaxtahækkanir til hækkunar á gengi og innflæðis fjármagns en skili hinsvegar ekki tilætluðum árangri við að slá á þenslu. Um þetta segir hann: „Alþjóða hagkerfið hefur tekið miklum breytingum frá 2008. Þessar breytingar kunna að fela í sér þörf á breyttum efnahagslegum viðbrögðum miðað við það sem áður var talið hefðbundið og eðlilegt. Lærdómur og reynsla fortíðar hvað þetta varðar kann að vera óáreiðanlegur vegvísir í dag. Til að mynda kunna efnahagslíkön seðlabanka víðsvegar um heim, sem gjarnan styðjast við talnaraðir 20-30 ár aftur í tímann, ekki lengur að vera nothæf eða eiga illa við í því flókna samskipta- og viðskiptamynstri sem til staðar er í dag. Þær frumlegu aðferðir sem seðlabankar í Bandaríkjunum og Evrópu hafa tileinkað sér sl. átta ár og gjörbreytt vaxtastefna þeirra sýna best hvað tímarnir hafa breyst.” Stubbs er fjármálaráðgjafi og sjóðsstjóri hjá Royal Bank of Canada í New York. Hann talar semsagt líka fyrir nokkuð róttækum breytingum, breytingum sem erfitt er að sjá að verði komið á þar sem tregðulögmálið er sterkast allra lögmála í hagfræði. Eða allt þar til allt fer til fjandans!

Háskaleg hagkerfi

Ég rifjaði það upp í pistli hér í upphafi árs að Þráinn Eggertsson hagfræðingur minnti eitt sinn á að hagkerfi séu í eðli sínu háskaleg og ritaði um það ágæta bók sem lýtur að kerfishagfræði eða stofnanahagfræði. Bókin heitir Háskaleg hagkerfi: Tækifæri og takmarkanir umbót. Á ensku heitir bókin Imperfect Institutions. Possibilities & Limits of Reform og hugsanlega er enskur titill hennar heldur gagnsærri. Hafa má í huga að Þráinn er sá íslenski hagfræðingur, sem oftast hefur verið vitnað til í fræðiskrifum á alþjóðlegum vettvangi. Hann hefur hins vegar ekki átt upp á pallborðið hjá íslenskum þáttastjórnendum og því minna þekktur meðal almennings en margir kollegar hans. Íslensk þýðing bókar Þráins kom út um jólin 2007 og hefði án efa verið mörgum holl lesning á þeim tíma.haskalegt_hagkerfi

Í bók sinni grennslast Þráinn fyrir um það hvers vegna stofnanir sem stuðla að efnahagslegri vanþróun verða til og halda velli og veltir fyrir sér möguleikum og annmörkum kerfisumbóta. Þráinn telur að erfitt sé að líta á hagkerfi sem einungis tæknilegt, eða jafnvel verkfræðilegt fyrirbæri. Hagkerfi séu samsett á ýmsan hátt og því sé mikilvægt að líta til menningar ólíkra landa og þjóðfélagsgerðar þegar verið er að velta fyrir sér ýmsum hagfræðilegum álitamálum svo sem hvers vegna sumum ríkjum vegnar vel en öðrum ekki, eða hvaða skref skuli stigin í hagstjórn. Þannig sé það oft á tíðum þjóðskipulagið sjálft sem standi í vegi fyrir framförum og velsæld heldur en tæknistig eða menntun. Tækni er auðvelt að flytja milli landa en menningu, siði og ýmsar óskráðar reglur er erfiðara að færa úr einum stað í annan. Undir það skal tekið hér.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.