c

Pistlar:

20. september 2016 kl. 20:37

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heilbrigð umræða um heilbrigðismál

Nýleg könnun sýnir að 45% kjósenda hér á landi telja heilbrigðismálin vera mikilvægasta umfjöllunarefni fjölmiðla í aðdraganda þingkosninganna í næsta mánuði. Næst á eftir koma málefni aldraðra og öryrkja en 13% telja að þau séu mikilvægust. Augljóslega eru því heilbrigðismálin kjósendum ofarlega í huga öfugt við t.d. samsvarandi könnun sem undirritaður sá frá Barcelóna. Þar töldu 32% að atvinnuleysi og atvinnumál væru mikilvægust. Ekki er endilega víst að heilbrigðismálin séu í svo miklu betra ástandi þar, þau eru bara ekki eins ofarlega í huga Barcelónabúa og hjá íslenskum kjósendum. Hvernig má annað vera, stór hluti frétta undanfarin misseri hafa fjallað um heilbrigðismál og þann vanda sem þar er við að glíma. Fyrst í tengslum við verkföll heilbrigðisstétta og síðar í tengslum við baráttu forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar sem varið hefur miklum tíma og fjármunum í að sannfæra Íslendinga um að rétt sé að miða heilbrigðisútgjöld við verga landsframleiðslu. Nokkurskonar fastgengisstefnu í heilbrigðismálum. En glöggt er gests augað. Lítum á tvö umræðudæmi áður en við skoðum nýja skýrslu um heilbrigðiskerfið. afar

Ólík sýn

„Vandamál íslenska heilbrigðiskerfisins eru lúxusvandamál,“ segir William Peno, yfirhéraðslæknir í Mangochi-héraði í Malaví í viðtali við Fréttablaðið um aðra helgi. Héraðið er í samstarfi við íslensk stjórnvöld í gegnum ICEIDA, alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Í heimsókn sinni til Íslands sagðist Peno hafa heyrt marga heilbrigðisstarfsmenn kvarta yfir bágum vinnuaðstæðum. Um það sagði hann: „Ég skil að í ykkar huga séuð þið að glíma við vandamál. En frá mínu sjónarhorni eigið þið ekki við nein vandamál að stríða.“

Peno var hingað komin til að kynna sér íslenska heilbrigðisþjónustu og komandi frá einu fátækasta ríki Afríku þá lítur ástandið hér á landi út fyrir að vera „lúxusvandamál“. Svo er þó ekki. Það er eðli heilbrigðisþjónustu að þarfirnar eru endalausar og alltaf er hægt að gera betur. Annað viðtal sömu helgi dregur upp samanburð við það ríki heims sem mestum fjármunum ver í heilbrigðisþjónustu, Bandaríkjanna. Í helgarblaði Morgunblaðsins fyrir 10 dögum var viðtal við Þórð Örn Kristjánsson doktor í líffræði sem glímir við erfiðan sjúkdóm. Þar sem Þórður er sá eini hérlendis sem glímir við umræddan sjúkdóm hefur hann haft uppi á hópum í gegnum netið þar sem fólk með þennan sjúkdóm deilir sínum sögum.

„Það er því miður oft dapurleg lesning því margir fara afar illa út úr þessu. Margt af því fólki sem ég hef rætt við og fylgist með þar er frá Bandaríkjunum. Heilbrigðiskerfið þar er svo hrikalega einkavætt og ömurlegt að þar fer fólk verst út úr þessum sjúkdómi því það hefur ekki efni á að fara í sneiðmyndatökur, læknisviðtöl og hvað þá skurðaðgerðir til að taka æxlin áður en þau þrýsta á lífsnauðsynlegar taugar. Lífslíkur þessa fólks í Bandaríkjunum eru svo miklu lægri en annarra að ég þori varla að ræða þau mál, fólk færi að halda að ég væri með annan fótinn í gröfinni. … Það er svo ótrúlegt að heyra sagt að allir eigi að fá heilbrigðisþjónustu en það sé samt betra fyrir þá sem geta borgað aðeins meira að komast í fleiri rannsóknir en hinir. Ég held að enginn myndi tala svona ef hann hefði sjálfur upplifað að vera sjúklingur eins og ég. Ég er satt best að segja oft miður mín þegar ég hugsa til þess að ef þetta fólk sem ég kynntist í gegnum netið byggi hér, eða í Kanada, væru lífslíkur þess ekki minni en mínar,“ segir Þórður Örn í viðtalinu og tekur fram að hann hafi fengið mjög góða umönnun á Landspítalanum og vel sé fylgst með veikindum hans.

Vandasamur samanburður

Þessar tvær sögur varpa ef til vill einhverju ljósi á hve erfitt er að gera samanburð á heilbrigðiskerfum ólíkra landa. Í fljótu bragði skyldi maður halda að það væri farsælast að horfa á almennar lífslíkur og dánartíðni til að átta sig á hvort heilbrigðiskerfið er að standa sig. Þar skorum við hér á Íslandi vel en eigi að síður eru margir óánægðir eins og Peno bendir á.

En hvernig á að horfa á heilbrigðismál. Jú, ein leið er að halda áfram og afla sér gagna og reyna að rýna í þróun og breytingar. Fyrir stuttu birtist skýrsla sem velferðarráðuneytið stóð bak við. Skýrslan byggir á viðtölum, greiningarvinnu og samantekt niðurstaðna sem unnin voru af McKinsey & Company í nánu samstarfi við fulltrúa frá velferðarráðuneytinu, Embætti landlæknis og Landspítalanum. Þau gögn sem skýrslan byggist á og tengjast Landspítalanum voru unnin og greind í samstarfi við fjármálasvið spítalans. Skýrslan hefur verið unnin og skrifuð af bestu getu að gefnum skilgreindum tímaramma og tiltækum gögnum segir í formála hennar. Þá var hún unnin sjálfstætt án stjórnmálalegra eða fjárhagslegra afskipta. Myndin hér til hliðar er úr skýrslunni en hún sýnir að útgjöld til heilbrigðismála hafa aukist stöðugt í iðnvæddum ríkjum síðustu áratugi. Á Íslandi hefur hlutur heilbrigðisútgjalda verið nokkuð stöðugur síðustu tíu ár. heillb

Var skorið of mikið niður í Hruninu?

Þessi skýrsla hefur ekki fengið nægilega athygli. Lítum á það sem hún segir í formála. Eftir fjármálakreppuna sem skók Ísland árið 2008 voru heilbrigðisútgjöld hins opinbera lækkuð úr 153 milljörðum króna árið 2008 í 134 milljarða árið 2012 (miðað við fast verðlag 2014) til að bregðast við versnandi stöðu ríkisfjármála. Eftir því sem staða ríkisfjármála hefur styrkst á síðustu árum hafa opinber fjárframlög til heilbrigðismála aukist á ný, eða úr 134 milljörðum króna árið 2012 í 143 milljarða árið 2015 (miðað við fast verðlag 2014). Þessar breytingar á fjárframlögum til heilbrigðismála hafa haft talsverð áhrif á rekstur og fjárhagsstöðu Landspítalans sem hefur fyrir vikið verið áberandi í opinberri umræðu sem og raunar heilbrigðiskerfið allt. Umræðan um stöðu Landspítalans magnaðist mjög árið 2015 og ákvað ríkisstjórn Íslands af þeim sökum að láta vinna greiningu á rekstrarhagkvæmni og stöðu Landspítalans. Niðurstaða þeirrar vinnu er áðurnefnd skýrsla McKinsey & Company.

Af þessu sést það sem margir vissu. Í kjölfar fjármálakreppunnar var skorið mikið niður í heilbrigðiskerfinu. Hvort svo mikill niðurskurður var nauðsynlegur skal ósagt látið en að baki því bjó ákveðin forgangsröðun sjórnvalda á þeim tíma. Síðustu misseri hefur verið undið ofan af þessu og ljóst er að umtalsverð aukning verður á framlögum til heilbrigðismála á næstunni.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.