c

Pistlar:

25. september 2016 kl. 13:21

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Heilsa í fyrsta sæti

Ísland er í efsta sæti í viðamikilli rannsókn þar sem lönd heimsins eru borin saman með tilliti til ýmissa heilbrigðisþátta er lúta að lýðheilsu. Rannsóknin var birt í vikunni í tímaritinu Lancet, sem mun vera virtasta ritrýnda vísindatímarit heimsins í heilbrigðismálum.

Í frétt Ríkisútvarpsins kemur fram að rannsókninni standa 1.870 vísindamenn frá 124 löndum. Borin voru saman 188 lönd heimsins og mælt hve vel þau standa gagnvart sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna (SDG). Horft er til þátta á borð við aðgang að heilbrigðisþjónustu, sjúkdóma, heilnæmi umhverfis og almennrar heilsu og öryggi borgara.best

Í frétt Bloomberg um rannsóknina kemur fram að þetta sé ef til vill viðamesta rannsókn sinnar tegundar sem gerð hefur verið. Þegar litið er á heildarmyndina hafnar Ísland í fyrsta sæti, og skarar með naumindum fram úr Svíþjóð og Singapore sem lenda í öðru og þriðja sæti.

Auðvitað er þetta umdeilanlegt eins og allar slíkar rannsóknir. Því verki að bæta heilbrigðiskerfið lýkur aldrei og rétt er að halda því til haga að þarna var verið að mæla lýðheilsumarkmið. Þar stöndum við vel en hafa verður í huga að Alþjóðheilbrigðisstofnunnin (WTO) telur íslenska heilbrigðiskerfið í 15. sæti. Þarna er gerður munur á heilsu og heilbrigðiskerfi. En vitaskuld er erfitt fyrir fólk að átta sig á hinu raunverulega ástandi kerfisins, þegar við annars vegar fáum upplýsingar um að það sem kemur út úr því sé fyllilega sambærilegt við það besta í heimi og svo hina eilífu og oft á tíðum persónulegu umræðu um skort á þjónustu. Lögmál skortsins á líklega hvergi eins vel við og í heilbrigðiskerfinu.   

Endalausar þarfir

Staðreyndin er sú að þarfirnar á sviði heilbrigðisþjónustu eru endalausar og ný lyf og úrræði kalla á aukin kostnað um leið og nýjar áskoranir birtast, sérstaklega í svokölluðum lýðheilsumálum. Þannig má hugsanlega álykta að breytingar í geðheilbrigðismálum geti orðið stærstu áskoranir heilbrigðisþjónustunnar næstu misseri ásamt og með lífsstílssjúkdómum. Sömuleiðis mun öldrun þjóðarinnar setja nýjar áskoranir á heilbrigðiskerfið allt.

Forstjóri Landspítalans sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag að það þyrfti að auka framlag til heilbrigðismála um 2% á ári eingöngu til að mæta öldrun þjóðarinnar og auknum ferðamannafjölda. Hann mat það um leið svo, að það þyrfti 11 til 12 milljarða króna til viðbótar við það sem nú er og er fyrirhugað til að mæta þörfum heilbrigðiskerfisins eins og það er núna. Hann tók fram að margt hefði gengið ágætlega undanfarið, meðal annars vegna þeirra 5 milljarða króna sem hefur verið varið til tækjakaupa á Landspítalanum síðan 2013. Þar sagði forstjórinn að vel hefði tekist til.

Ótrúlegt átak gegn lifrarbólgu C

Heilbrigðismálin eru ótæmandi umræðuefni. Sem fyrr er það hið sérstaka sem grípur athyglina þó það gefi ekki alltaf sönnustu myndina. Þannig var forvitnilegt að hlusta á viðtal við konu sem  smitaðist af lifrarbólgu C við blóðgjöf í Morgunútvarpi Rásar 2 á fimmtudagsmorgun. Viðkomandi smitaðist fyrir um 30 árum og nýlega kom fram lyf sem veitir nánast fulla lækningu. Konan hóf lyfjameðferð í júní og hefur nú verið upplýst um að hún sé laus við lifrarbólguna. Sannarlega ánægjuleg niðurstaða og til að gleðjast yfir.

Það sem vakti þó athygli var að þáttastjórnendum virtist ekki vera ljóst um það einstaka átak sem er nú í gangi hér á landi við útrýmingu lifrarbólgu C og var kynnt í upphafi árs. Í það minnsta var það ekki rætt í þættinum. Viðkomandi sjúklingur er þannig einn ríflega 1000 sjúklinga sem nú njóta heildstæðrar meðferðar þar sem stefnt er að því að útrýma lifrarbólgu C úr íslensku samfélagi. Lætur nærri að kostnaður við þetta átak nemi 10 milljörðum króna. Sem gefur að skilja verður svona átak ekki hrist fram úr erminni, hvorki samningaviðræður þar um við erlendan framleiðanda lyfsins né meðferðin öll. Um þetta allt má finna ítarlegar upplýsingar á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins, bæði þegar gengið var frá samningnum og þegar átakið fór af stað í upphafi árs. Þess gremjulegra að þáttastjórnendur Morgunútvarpsins skyldu ekki geta sett málið í viðtækara samhengi og lýsa því átaki sem er í gangi. Átak sem sumir kölluðu frétt ársins í fyrra.

Sú aðgerð sem nú er í gangi við lækningu lifrarbólgu C er einstæð tilraun sem vekur athygli víða um heim. Aðgerðin er mjög flókin faraldsfræðilega vegna samsetningar sjúklinganna sem margir hverjir lifa á jaðri samfélagsins. Auðvitað er það bjartsýni að ætla að sjúkdóminum verði með öllu útrýmt en átakið er einstakt og mun vonandi færa fjölda fólks lækningu.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.