c

Pistlar:

30. september 2016 kl. 20:56

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gengur uppboðsleiðin upp?

Á undanförnum vikum hafa hefur talsvert verið fjallað um uppboðsleið í sjávarútvegi og er nú svo komið að slík leið er hluti af stefnu nokkurra þeirra flokka sem bjóða fram í komandi kosningum. Umræðan náði verulegu flugi þegar fréttir bárust frá frændum okkar Færeyingum. Þar hefði uppboð verið haldið á fiskveiðiheimildum og verðið sem fékkst sagt vera margföld sú upphæð sem útgerðir á Íslandi greiða í veiðigjöld af sömu tegundum. Sumir stjórnmálaflokkar hérlendis horfa til „færeysku leiðarinnar“ sem fyrirmyndar að nýju fiskveiðistjórnunarkerfi á Íslandi jafnvel þótt lítið hafi farið fyrir útlistun á því hvernig kerfið eigi að virka og hvaða afleiðingar það kunni að hafa. Þó að vægi sjávarútvegs í landsframleiðslu hafi heldur minnkað undanfarin ár þá er ljóst að greinin er enn undirstöðuatvinnugrein hér á landi og mikilvæg sem slík. Margir hafa efasemdir um að ráðst í uppstokkun á henni og auka skattheimtu hennar.

Í grein í Fiskifréttum fyrir skömmu fjallaði Guðjón Einarsson ritstjóri um þessar vangaveltur. Hann benti á þau augljósu sannindi að Færeyingar hafa stjórnað fiskveiðum sínum á annan hátt en Íslendingar. Um það segir Guðjón: „Botnfiskveiðum á heimamiðum er stýrt með sóknarkerfi þar sem framseljanlegum fiskidögum er úthlutað í stað aflamarks á Íslandi. Uppsjávarveiðum og veiðum á fjarlægum miðum er hins vegar stjórnað með sams konar aflamarkskerfi og hérlendis. Veiðigjöld hafa verið tekin af makríl og síld frá árinu 2011 og á kolmunna nú í ár. Aðrar tegundir hafa verið undanþegnar veiðigjaldi. Ástand botnfiskstofnanna við Færeyjar hefur verið mjög bágborið og hafa færeyskir fiskifræðingar ítrekað varað við of mikilli sókn í þá,” skrifar Guðjón í Fiskifréttir þann 22. september síðastliðin.slor

„Engum til hagsbóta”

Augljóst er að hagsmunaraðilar í sjávarútvegi taka illa í hugmyndir um að bjóða upp fiskveiðiheimildir og er það ekki eingöngu bundið við stórútgerðina svokölluðu. „Allar hugmyndir um uppboð allra veiðiheimilda þar sem jafnt stórir og smáir taka þátt tel ég útilokaðar og engum til hagsbóta, hvorki útgerð og vinnslu né sem aðferð til tekjuaukningar fyrir ríkissjóð. Aukin gjaldtaka mun leiða til bágari afkomu og lægri skatttekna. Ég er hins vegar sannfærður um að áfram eigi að byggja á veiðigjöldum. Útfæra verði þá leið betur, t.d. hvort ekki sé rétt að koma inn ákveðnum þrepum í gjaldtökunni eins og tíðkast í skattkerfinu. Sú leið tel ég t.d. verða til að jafna aðstöðumun lítilla og meðalstórra útgerða samanborið við þær stærstu, samhliða því að fjölbreytt útgerðarform yrði betur tryggt.” Þannig skrifaði Örn Pálsson framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda fyrir skömmu í Fiskifréttir.

Örvar Guðni Arnarson, fjármálastjóri Ísfélags Vestmannaeyja, bætir um betur og segir: „Píratar vilja þvinga útgerðir með lögum til að selja allan afla á fiskmarkaði. Útgerðum verður þá bannað að selja afla beint til fiskvinnslu, hvort sem hún er í eigu sama aðila eða ekki. Þannig ætla Píratar að aftengja með öllu langtímasamband milli veiða og vinnslu. Samband sem stuðlar að upplýsingum milli aðila um m.a. gæði, tímasetningar og eftirspurn erlendis frá.  Viðskiptasamband sem hefur reynst afar vel fyrir Ísland.”

Af þessu sést að margs er að gæta og eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort slíkar hugmyndir gangi upp? Við sjáum að margir sem glöggt þekkja til í sjávarútvegi eru andsnúnir uppboðsleiðinni en ganga tölurnar upp? Verðmæti útfluttra sjáfarafurða nam 265 milljörðum króna í fyrra, lægra en metárin 2012 og 2013. Það segir sig sjálft, að fráleitt er að taka einn þriðja af þeim verðmætum til baka í ríkissjóð með uppboðum aflaheimilda eins og djörfustu reikningsmeistararnir hafa haldið fram.

Mjög stór hluti aflaheimildanna hefur gengið kaupum og sölum frá því að frjálst framsal aflaheimilda var leyft árið 1991. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki hafa þannig varið háum fjárhæðum í kaup á nýtingarrétti varanlegra aflaheimilda. Bókfærð eign aflaheimilda samkvæmt riti Hagstofunnar „Hagur veiðar og vinnslu 2014“ er um 249 milljarðar króna. Ekki eru til nýrri upplýsingar um afkomu og stöðu fyrirtækjanna en eitthvað hafi verið keypt af nýtingarrétti aflaheimilda síðastliðin tvö ár bæði beint og óbeint.

Sem kunnugt er þurfa allar aflahlutdeildir að vera skráðar á skip. Aflaheimildir eru ekki veðsettar beint en skipin eru veðsett vegna skulda og ekki er hægt að flytja aflahlutdeildir á milli skipa nema með samþykki þeirra aðila sem eiga þinglýst samningsveð í skipinu.

43% af heildareignum

Fiskifréttir ræddu nýlega við Jónas Gest Jónasson, sviðstjóra viðskiptalausna hjá Deloitte, um það með hvað hætti aflaheimildir væru skráðar í bókhaldi og ársreikningum sjávarútvegsfyrirtækja og hverju það breytti færi allur kvótinn á uppboð.

Jónas Gestur bendir á að eignfærðar aflaheimildir eru mikilvægasta eign sjávarútvegsfélaga sem sést best þegar horft er til heildareigna þeirra annars vegar og eiginfjárstöðu hins vegar. Bókfærðar heildareignir sjávarútvegsins í árslok 2014 eru um 574 milljarðar króna samkvæmt Hagstofu Íslands og því eru eignfærðar aflaheimildir (249 milljarðar) um 43,4% af heildareignum. Langtímaskuldir sjávarútvegs eru um 259 milljarðar. Bókfært eigið fé sjávarútvegsfélaga í árslok 2014 nam 185 milljörðum. Bókfærðar aflaheimildir eru því 34,6% umfram bókfært eigið fé sjávarútvegsfélaga. Eiginfjárhlutfall í sjávarútvegi er um 32% af heildareignum.

Eigið fé neikvætt um 46 milljarða

Hvaða áhrif hefur það fyrir eignastöðu og eiginfjárhlutfall sjávarútvegsfyrirtækja ef allur kvóti verður settur á uppboð? „Ef ríkið tekur allar aflaheimildir af útgerðinni án þess að gagngjald komi fyrir þarf að gjaldfæra þær í ársreikningum útgerðanna sem þá myndi þýða að bókfært eigið fé sjávarútvegsfélaga samkvæmt tölum Hagstofunnar myndi lækka um sem nemur bókfærðu verði aflaheimilda sem er 249 milljarðar og til viðbótar lækka aflaheimildir sem skráðar eru í ársreikningum í formi yfirverðs við kaup á eignarhlutum í sjávarútvegsfyrirtækjum, að verðmæti um 25 milljarðar, sem eignfærðar eru í áhættufjármunum inni í bókfærðu verði eignahluta í öðrum sjávarútvegsfélögum. Til hækkunar á móti kemur tekjuskattsskuldbinding vegna aflaheimilda sem væri áætluð um 43 milljarðar. Við áætlum því að bókfært eigið fé gæti lækkað um 231 milljarð og bókfært eigið fé yrði þannig neikvætt um 46 milljarða miðað við árslok 2014,“ sagði Jónas Gestur.

Hér er sem sagt um mikinn viðsnúning að ræða því eiginfjárhlutfall útgerðarinnar færi úr því að vera jákvætt um 32% í það að vera neikvætt um 46 milljarða. Ef hluti aflahlutdeildanna yrði settur á uppboð og ekkert gagngjald kæmi fyrir myndi bókfærð eign lækka um hlutfall þeirra af eignfærðum aflahlutdeildum.

Er þetta áhættunnar virði?

„Sjávarútvegurinn hefur gengið vel undanfarin ár og þegar honum gengur vel, þá gengur okkur vel,“ sagði Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, í samtali við Morgunblaðið nýlega þar sem fjallað var um árangur fyrirtækisins síðustu árin. Hampiðjan hefur skilað hagnaði frá árinu 2007 og hefur hagnaðurinn farið ört vaxandi síðustu þrjú árin. Á sama tíma hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á vöruþróun og stækkað með kaupum á fyrirtækjum og stofnun eigin fyrirtækja. Þetta hefur fyrirtækið geta gert vegna þess að nokkur vissa hefur ríkt um rekstraraðstæður íslensks sjávarútvegs undanfarin ár. Það getur breyst fljót grípi menn til vanhugsaðra aðgerða að tillögu popúlískra reiknimeistara.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.