c

Pistlar:

14. desember 2016 kl. 10:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Markmið fyrir okkur öll

Stundum er eins og áhuginn slokkni í augum fólks þegar viðmælendur þeirra fara að ræða um markmið eða aðra heldur óáþreifanlega hluti. Jafnvel eitthvað sem á að gerast í óskilgreindri framtíð og hafa áhrif eftir enn lengri tíma. Samt er það nú þannig, að hverjum manni er nauðsynlegt og jafnvel hollt að setja sér einhver markmið, til skemmri eða lengri tíma, eitthvað áþreifanlegt til að stefna að en það er hins vegar ekki alltaf sérlega áhugavert að hlusta á útlistun á þessum markmiðum. Já, jafnvel stundum meira þreytandi en að hlusta á langar frásagnir af draumförum fólks! Eigi að síður er það svo að markmið geta hjálpað okkur öllum að takast á við hið óorðna og skilja hvernig við getum breytt hlutum. Og farsælast er ef þessi markmið eru mælanleg og geta þannig orðið raunsönn vísbending um hvort hlutirnir hafi þróast til betri vegar. Ef við yfir höfuð trúum því að nokkru geti þokað fram á veginn í okkar hrjáðu veröld.

Enginn skilin eftir

Á síðasta ári tóku svokölluð Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun (Sustainable Development Goals (SDG)) gildi en þá fögnuðu SÞ 70 ára afmæli sínu. Heimsmarkmiðin voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkjanna í september 2015. Þau eru algild og ber þjóðum að vinna skipulega að þeim bæði innanlands og í alþjóðasamstarfi næstu 14 árin eða fram til ársins 2030. Þau koma í framhaldi af þúsaldarmarkmiðunum sem að mörgu leyti gáfust vel og hefur verið fjallað um á þessum vettvangi við nokkur tilefni. En gallinn við heimsmarkmiðin er að þau virðast fjarlæg hinni hversdagslegu umræðu íslensku þjóðarinnar. Þjóðar sem virðist hafa það nokkuð gott og jafnvel svo að hún sé í öfundsverðri aðstöðu á mörgum sviðum. Og jafnvel aflögufær á öðrum sviðum.

Í heimsmarkmiðum SÞ fellst nokkurskonar framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með þessari áætlun er ætlunin að leitast við að stuðla að friði um gjörvallan heim og þar með auknu frelsi. Enginn verður skilinn eftir - er rauður þráður markmiðanna. Sannarlega metnaðarfull áætlun.Heimsmarkmid

Hér er því ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur en við sjáum að á ýmsum sviðum hefur sannarlega þokast áfram. Hér var fyrir stuttu bent á að vel hefði gengið að draga úr algerri örbyrgð (eða sárafátækt, svo við veljum extreme poverty annað orð) á síðustu tveimur áratugum. Þar skiptir auðvitað mestu sá efnahagslegi uppgangur sem hefur átt sér stað í mörgum ríkjum Asíu sem meðal annars hefur leitt til þess að 470 milljónir Kínverja hafa færst upp úr hópi þeirra sárafátæku. Víða annars staðar hefur aukin hagvöxtur leitt til framfara á þeim sviðum sem heimsmarkmiðin ná til.

17 markmið sjálfbærrar þróunar

Þau 17 markmið sjálfbærrar þróunar og 169 undirmarkmið, sem sett eru fram á vegum Sameinuðu þjóðanna, vitna um umfang þessarar nýju, altæku og metnaðarfullu áætlunar. Með markmiðunum er leitast við að byggja á þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og ljúka því sem ekki náðist með þeim. Með þessum markmiðum er einnig leitast við að tryggja öllum mannréttindi og ná fram kynjajafnrétti og efla þannig vald kvenna og stúlkna sem eiga sannarlega undir högg að sækja í mörgum þjóðfélögum. Markmiðin eru talin samþætt og órjúfanleg og eiga þannig að mynda jafnvægi milli hinna þriggja stoða sjálfbærrar þróunar: hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þessi markmið og undirmarkmið þeirra munu vonandi örva aðgerðir næstu fimmtán ár á afgerandi sviðum fyrir mannkynið og jörðina á ótal sviðum.

Í framhaldi af samþykkt Heimsmarkmiðanna ákvað ríkisstjórn Íslands að hefja innleiðingu þeirra hér á landi með því að vinna að greiningu á stöðu Íslands gagnvart Heimsmarkmiðunum og setja fram tillögur um næstu skref. Samhliða þessari greiningarvinnu vinnur Stjórnarráðið að því að bæta þekkingu sem flestra í samfélaginu á Heimsmarkmiðunum, meðal annars með auknum sýnileika. Útbúin hafa verið einkennismerki, lógó", fyrir hvert af Heimsmarkmiðunum 17 og eru þau til í íslenskri þýðingu. Önnur upplýsingavinna er í farvatninu.

Rauður þráður í málflutningi Íslands

Í samningaviðræðunum um ný þróunarmarkmið var baráttan gegn fátækt og virðing fyrir mannréttindum rauður þráður í málflutningi Íslands eins og skýrt var dregið fram í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis síðasta vor. Á sama tíma lagði Ísland áherslu á að með skýrari hætti yrði horft til sjálfbærrar þróunar þar sem jafnvægi yrði milli verndunar og nýtingar auðlinda. Í viðræðunum lagði Ísland megináherslu á fjögur svið; jafnrétti kynjanna, endurnýjanlega orku, málefni hafsins og landgræðslu.

Samhliða viðræðunum um ný þróunarmarkmið fóru fram viðræður um niðurstöður þriðju alþjóðlegu ráðstefnunnar um fjármögnun þróunarsamvinnu (e. Third International Conference on Financing for Development) sem var haldin í Addis Ababa í Eþíópíu í júlí. Jákvæðar niðurstöður ráðstefnunnar voru í raun forsenda þess að samið yrði um nýju þróunarmarkmiðin. Eins og ljóst mátti vera var undirbúningur fyrir loftslagsráðstefnuna í París í desember 2015 einnig hafður til hliðsjónar í viðræðunum um fjármögnun þróunar, en mörg aðildarríki hafa talað fyrir því að gerður verði skýrari greinarmunur á framlögum til þróunarlanda vegna loftslagsbreytinga og öðrum þróunarframlögum. Allt kostar þetta sitt og tortryggni gagnvart kostnaði er kannski helsti ásteytingarsteinn þess að framkvæmdin komist á skrið.

Í áðurnefndri skýrslu utanríkisráðherra kemur fram að í viðræðunum sýndi sig að smáríki getur haft mikil áhrif með því að vinna samkvæmt skýrri stefnu og forgangsröðun. Efnislega lagði Ísland mesta áherslu á jafnréttismál kynjanna sem og sjálfbæra stjórnun auðlinda, þ.e. orkuauðlinda, auðlinda hafsins og landsins, sem lykil að velgengni í félags-, efnahags- og umhverfismálum á heimsvísu. Þessi mál fengu góðan sess í endanlegri útgáfu markmiðanna og pólitískri yfirlýsingu um þau. Þá tókst að ná fram skýru orðalagi inn í pólitísku yfirlýsinguna um mikilvægi þess að vinna bug á taugaskaða í samræmi við þingsályktun þar að lútandi, sem samþykkt var á Alþingi á síðasta ári og bíður nú frekari kynningar og útfærslu.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.