c

Pistlar:

4. janúar 2017 kl. 21:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vélvæðing og gervigreind um áramót

Vélvæðing og gervigreind voru leiðarstef í mörgum þeim hugleiðingum sem lesa mátti um áramótin. Stóra spurningin er vitaskuld sú hvort gervigreind (artificial intelligence) bæti líf okkar eða hreinlega taki það yfir? Egill Helgason, pistlahöfundur á Eyjunni, gerði þetta að umræðuefni undir heitinu Vélarnar taka yfir og störfin hverfa. Semsagt, frekar dystópía en útópía og kom ekki á óvart að hann vitni til stjarneðlisfræðingsins Stephen Hawking sem hefur spáð því að ójöfnuður muni aukast og tækifæri margra til að framfleyta sér muni hverfa. Leiðarahöfundur Fréttablaðsins gerði málið einnig að umræðuefni undir líkum formerkjum. „Ógn vélmennanna” er fyrirsögn leiðarans en höfundur hans telur að „engar alsherjalausnir séu í sjónmáli” og að vélmenni með gervigreind munu halda áfram þeirri úreldingu starfa sem verið hefur fylgifiskur hnattvæðingarinnar. Hnattvæðingin hefur reyndar flutt framleiðslu- og þjónustustörf til fátækra landa og þannig gerbreytti vinnumarkaði heimsins. Nú eru merki þess að þessi störf séu að flytja heim til gömlu iðnríkjanna þar sem vélvæðing gervigreindarinnar taki við þeim. Það birtist meðal annars í þeirri staðreynd að verksmiðjustörfum er hætt að fjölga í Kína og á Indlandi eins og vikið er að hér á eftir. Og sumir hafa gefið út lista um þau störf sem glatast.

Munn mannfólkið laga sig að aðstæðum?

Garry Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák og núverandi forstöðumaður mannréttindastofnunarinnar Human Rights Foundation, sér hlutina jákvæðari augum í áramótaútgáfu Morgunblaðsins sem fjallar mikið um gervigreind og vélvæðingu. Kasparov segir: „Vélar hafa verið að leysa menn af hólmi síðan sú fyrsta var fundin upp fyrir þúsundum ára – og daginn eftir skapaði hún sennilega ný störf þegar þrjá menn þurfti til að gera við hana. Mannfólkið lagar sig að aðstæðum. Við erum skapandi. Við notum vélar til að búa til nýja hluti, leysa ný vandamál og skapa heilar starfsgreinar sem við getum ekki enn ímyndað okkur. Það er auðvelt, og eðlilegt, að spá endalokum. Við sjáum hvað er að tapast en við sjáum ekki nýja hluti fyrr en þeir birtast.” Þess má geta að bók Kasparovs „Deep Thinking“, um sambandið milli manns og vélar, verður gefin út af PublicAffairs næstkomandi vor.

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins telur að tómarúmið sem nú sé í atvinnustefnu heimsins hafi skapað jarðveg fyrir menn eins og Donald Trump. Í áramótaviðtali tímaritsins Frjálsrar verslunar við Þráinn Eggertsson hagfræðing kemur dýpri útfærsla en Þráinn segir erfitt að spá hvaða stefnu Trump tekur í þessum málum. „Hann er lítt bundinn af hugmyndafræði, er laginn við að svíkja loforð og samninga, sækist eftir virðingu og vinsældum en hann stjórnar ekki tæknibreytingum fremur en aðrir stjórnmálaleiðtogar. Ný tækni er að umbylta atvinnulífinu. Millistéttin hefur gleymst, verksmiðjustörf hafa týnst, upphaflega vegna úthýsingar starfa til láglaunasvæða en nýlega vegna þess að það er ábatasamara að nota tölvur, vélmenni og gervigreind við framleiðsluna heldur en ódýrt vinnuafl. Í Bandaríkjunum eru fyrirtæki farin að tínast heim frá láglaunasvæðum. Í Kína og á Indlandi fjölgar verksmiðjustörfum ekki lengur vegna tölvuvæðingar innanlands. Hagfræðingurinn Dani Rodrik talar um ótímabæra af-iðnvæðingu í þessum löndum. Ef Trump rýfur viðskiptasamninga og lokar hagkerfinu mun það ekki bæta stöðu verksmiðjufólks, meðal annars vegna þess að innlend fyrirtæki keppast nú við að gera framleiðsluna sjálfvirka og lækka kostnaðinn.”gervigreind

Fyrirtækin miðlæg stjórnkerfi

Þráinn bendir réttilega á að stærsta verslun heimsins, Alibaba í Kína, hefur engar vörur á lager; stærsti leigusali heims, Airbnb, eigi engar íbúðir; Uber, stærsta bifreiðastöð í heimi, eigi enga bíla; og vinsælasti fjölmiðill í heimi, Facebook, semji ekkert efni. „Þessi fyrirtæki eru miðlægt stjórnkerfi af nýrri gerð, sem móta regluverk fyrir starfsemina, samhæfa dreifð viðskipti og skapa traust. Í Bandaríkjunum fjölgar verktökum. Ein könnun áætlar að fjöldi verktaka sé um 50 milljón manns. Stór hluti verktakanna stundar netviðskipti og þjónar mörgum verkkaupendum samtímis – í stað þess að vinna hjá einu fyrirtæki. Við erum að breytast úr launþegum í lítil eins-manns fyrirtæki, og erum bæði á dag- og næturvakt. Vökulögin hafa verið afnumin. Sumir segja að deilihagkerfið sé framtíðin. Ég er ekki viss,” segir Þráinn.

En hvernig munu þróunin verða? Vitaskuld er erfitt að segja til um það með neinni vissu og sjálfsagt mun AI-gervigreindarkerfi þróast þannig að þau læri sjálf að leysa verkefni. Við það nota þau tækni sem fengin er að láni frá reynslu manna af því að læra, menn læra að sjá mynstur og tekst að læra af mistökum. Með AI er líka hugsanlegt að nota vélbúnað sem líkir eftir uppbyggingu heilans. Sem stendur er einkum látið duga að láta AI-kerfi sjá um þýðingar á textum, aðstoða við sjúkdómsgreiningar og skrifa einfaldar greinar fyrir fjölmiðla. Hversu hratt mun þetta þróast?

Helmingur starfa glatast

Margir eru farnir að spá í hvaða störf glatist. Oxfordháskóli hefur lýst því yfir að innan tveggja áratuga muni 47% starfskrafta í Bandaríkjunum verða atvinnulaus vegna sjálfvirkra lausna. Vélmennið Pepper er að hirða móttökustörf. Gervigreindarþjónustan Brain.fm er að semja tónlist og forritið Quill er farið að skrifa viðskiptafréttir. Íþróttafréttir eru þegar skrifaðar af tölvum.

Á síðasta ári var farið að nota sjálfkeyrandi bíla í nokkrum löndum, í mörgum þeirra voru lög endurskoðuð til að laga þau að þessari nýju tækni. Susan Bennett, raddsetjari og hin upprunalega rödd Siri í iPhone-snjallsímunum frá Apple, kemur með athyglisverða hugleiðslu í áðurnefndu blaði Morgunblaðsins. „Við virðumst ekki þurfa að nota heilann eins mikið og við gerðum einu sinni. Öll stafrænu tækin okkar geta umsvifalaust veitt okkur upplýsingar sem hefðu áður krafist rannsókna, bóklesturs... að við notuðum tölvuna í höfði okkar. En rýrnar heilinn eins og vöðvi ef hann er ekki notaður nægilega? Erum við að missa greindina eftir því sem greind véla eykst?”

Hver sér um að hugsa?

Þegar gervigreind (AI) tekur völdin mun umfang starfa verða aðeins örlítið brot af því sem það er nú, ef til vill munu 10% af fólki vinna eða enn lægra hlutfall af mannfjöldanum. Þetta geta orðið mjög skapandi eða flókin störf sem vélmenni geta ekki innt af hendi, eins og til dæmis í efstu lögum stjórnenda, að stjórna vísindarannsóknum eða hjúkrun og barnagæsla.

Þetta er haft eftir Liu Cixin í Morgunblaðinu en hann er höfundur vísindaskáldsagna og hefur níu sinnum unnið Galaxy-verðlaunin, æðstu verðlaun sem veitt eru í Kína fyrir vísindaskáldsögur. Hann varð fyrstur kínverskra rithöfunda til að hreppa Hugo-verðlaunin fyrir bestu skáldsöguna en þau hlaut hann fyrir alþjóðlegu metsölubókina The Three-Body Problem.

Við skulum gefa Cixin lokaorðin: „En yfirstéttin stýrði þjóðunum: á tímum AI munu vélmennin annast alla hugsun. Það er vegna þess að á nokkrum áratugum höfum við smám saman gefið sjálfstæði okkar upp á bátinn, skref fyrir skref, leyft okkur að breytast í hlýðin, stórkostlega dekruð gæludýr AI, gervigreindarinnar. Um leið og AI sér um að þeyta okkur milli staða – í heimsóknum til ættingja, ferðum á listagallerí og tónleika – munum við horfa út um gluggann, alveg jafn óvitandi um það hvað AI ætlar sér með okkur og kjölturakki á leið á hundasnyrtistofuna.”


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.