c

Pistlar:

31. janúar 2017 kl. 21:13

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mannfólkið fram yfir hugmyndafræði

Í lok árs 1957 og byrjun árs 1958 fór Halldór Kiljan Laxness í mikla heimsreisu með Auði konu sinni. Hann kom þá í fyrsta skipti til hinna fornu stórvelda Kína og Indlands og skildi Guðbrandsbiblíu eftir í hvoru landi - gjöf til stórveldanna, erindi sem hinn íslenski menntamálaráðherra hafði beðið hann að sinna enda var Halldór þá nokkurskonar menningarsendiherra Íslands. Móttökurnar voru í stíl við það þó gestgjafarnir á Indlandi hefðu ekki verið með öllu vissir um hver var þar á ferðinni!lax

Halldór skrifaði grein á ensku um Indland og Kína á leiðinni heim. Þar sagði hann kost og löst á samfélögum þessara landa eins og þau komu honum fyrir sjónir sem ferðamanni. En aðallega vildi hann þó brýna fyrir Vesturlöndum að reyna að leysa úr þörfum hinna stóru öreigalanda sem væru kjarni mannkynsins. Og lauk greininni á þessum spámannlegu orðum: „Bregðist Vestrið ekki skynsamlega við þörfum Austursins mun „stéttabaráttan” í framtíðinni verða háð á heimsmælikvarða, milli þeirra þjóða sem „eiga” og þeirra sem „eiga ekki.”

Ríflega tuttugu árum áður hafði Halldór hafnað berum orðum lýðræði þegar hann komst í mikinn ham í Alþýðubókinni: „Kosningar eru borgarastríð þar sem nef eru talin í stað þess að brjóta hálsa. Sá sem mestu lofar og lýgur leggur undir sig flest nef. Á hinum auðvirðilega skrípaleik borgaralegrar skussapólitíkur verður auðvitað engin endi fyren vísindalegur stjórnmálaflokkur hefur tekið alræði.”

Hann herti á þessu seinna í greininni: „Vilji menn komast upp á lag með að leggja á hlutina mælikvarða félagsgildisins, þá er hollara að loka eyrunum fyrir hinu viðkvæma snakki sem forsvarsmenn liðinna mennínga og uppleystra þjóða eða þjóðfélagsstétta láta út gánga úr vígum sem búið er að vinna og nú meiga heita virkjarústir.”

Sá hnattvæðinguna ekki fyrir

Ekki eru mikil líkindi fyrir því að Halldór hafi séð fyrir hnattvæðinguna (globalisation) sem leysti öreigastéttir Kína úr ánauð og hafa sömuleiðis gerbreytt efnahag hundruða milljóna í Indlandi. Það var ekki sósíalisminn sem leysti stéttir þessara landa úr ánauð fátæktar heldur kapítalisminn og hnattvæðingin. Líklega talaði Halldór Laxness þvert um hug sér, því þegar þar var komið sögu var hann sjálfur búinn að yfirgefa marxismann og löngu hættur að tala um að „vísindalegur stjórnmálaflokkur” hrifsi til sín alræðið. Eftir að Halldór fékk nóbelsverðlaunin róaðist hann nefnilega í marxismanum. Í framhaldinu fór hann að tala um marxisma sem 19. aldar hagfræðikenningu frá London, en um sjálfan sig einsog hann hafi verið taóisti mestan hluta ævinnar. (Segir í ævisögu hans eftir Halldór Guðmundsson, en heimildir sínar hafði hann meðal annars upp úr Gjörningabókinni). Í Kína vildi Halldór Laxness helst hitta taómunka og var lítt uppnæmur yfir þjóðfélagstilraunum kommúnista. En þetta var hluti af ferli. Rithöfundur skapar ekki bara söguna af sjálfum sér heldur breytir henni jafnharðan, bendir ævisöguritari nóbelsskáldsins á og hefur þó sjálfsagt ekki haft í huga skilgreininguna sem nú tröllríður öllu um hliðstæðar staðreyndir (alternative facts).  

Mannfólkið fram yfir hugmyndafræði

En staðreyndin er sú að þetta mesta skáld 20. aldarinnar á Íslandi var orðinn einstaklingshyggjumaður þegar þarna var komið sögu. Laxness faldi þá hugsun með einhverskonar taóisma en var í reynd búinn að yfirgefa sósíalismann og mátti ekki heyra á kommúnisma nefndan. Skáldið sem áður dáðist að verksmiðjuvæðingu Sovétríkjanna vildi nú fá að vera í friði á sínu borgaralega heimili við Gljúfrastein. Það var líklega táknrænt að þar byggði hann eina fyrstu einkasundlaug landsins fyrir ritlaun frá Þýska alþýðulýðveldinu.

Á sama tíma var Halldór að berjast við að skrifa Paradísarheimt, bók sem hafði meiri þýðingu fyrir Halldór sjálfan en lesendur hans að því er Halldór Guðmundsson segir í sögu sinni um nafna sinn, nóbelsskáldið. Bókin fékk blendnar viðtökur og röskum áratug síðar sagði skáldið hreint út við svissneskt dagblað. „Paradísarheimt er að verulegu leyti sótt í lífshlaup mitt. Ég hljópst að heiman, elti ólíkar hugmyndir og fór í gegnum gerólík stig. Það sem ég hélt þá rétt, reyndist rangt.” Ævisöguritari Halldórs telur að þessi ummæli eigi jafnt við um kaþólskuna sem kommúnismann. Þegar þarna var komið sögu tók Halldór Laxness mannfólkið fram yfir hugmyndafræðina. Um leið hætti hann að reyna að selja fólki pólitískar skoðanir.

Upphafinn leiðarahöfundur Fréttablaðsins skrifaði fyrir nokkrum misserum: „Listamenn hafa löngum verið taldir hafa gáfu sjáandans og hæfni til að greina samfélagið skarplegar en aðrir…” Þessi handan-veruleika gáfa listamannsins er líklega dálítið ofmetin af leiðarahöfundinum. Það má í það minnsta telja það þegar litið er yfir pólitíska þroskasögu íslenska nóbelsskáldsins.

Ath. Að athuguðu máli ákvað höfundur greinarinnar að breyta fyrirsögn hennar. Í stað þess að skrifa: Mannfólkið fram yfir hugsjónir, ákvað ég að skrifa: Mannfólkið fram yfir hugmyndafræði. Texta greinarinnar var breytt í samræmi við það. 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.