c

Pistlar:

10. mars 2017 kl. 22:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Letiparadísin Tenerife

Það er augljóslega freistandi fyrir marga Íslendinga að stytta veturinn með því að skjótast eitthvert þar sem hægt er að ganga um með sólarhatt og njóta lífsins lystisemda í mat og drykk. Já, og jafnvel gera hagstæð innkaup. Síðasta þriðjudagskvöld lentu sex vélar á Keflavíkurflugvelli með farþega frá Tenerife og öðrum eyjum í Kanaríeyjaklasanum. Augljós að staða krónunnar gerir það að verkum að sífellt verður ódýrara að ferðast og greinilegt að margir Íslendingar nýta sér það þessa daganna. Kannski ekki síst vegna þess að hitastigið á Tenerife er þægilegt allan ársins hring. Meðalhiti yfir sumartímann eru 24 gráður og á veturna 17 gráður.20170222_172517

Og vissulega er það þannig að ferðaþjónustan í heiminum er í uppgangi og aldrei hafa jafn margir heimsbúar verið á faraldsfæti. En gæðunum er misskipt. Pólitískt umrót hefur skaðað ferðaþjónustuiðnaðinn í mörgum löndum á meðan aðrir njóta velgengni. Brussel og París hafa látið á sjá í kjölfar hryðjuverka. Tyrkland, en þó einkum Istanbúl, hefur misst aðdráttaraflið síðan misheppnuð stjórnarbylting hersins átti sér þar stað í haust. Norður-Afríka hefur beðið skipbrot vegna hryðjuverka og Grikkland leið fyrir efnahagsástandið og flóttamannainnstreymi um tíma. Í Egyptalandi og Túnis hefur ferðamönnum snarfækkað á meðan stöðugt fjölgar í Marokkó. Um leið hefur ferðamönnum á Spáni fjölgað mikið og þannig náð að rífa upp efnahag landsins. Og Kanaríeyjar blómstra.

Fjölbreytt náttúrufar

Tenerífe er þeirra stærst, ríflega 2.000 ferkílómetrar eða um 2% af stærð Íslands. Eins og hinar eyjarnar urðu þær til í umróti fyrir 6 til 7 milljónum ára en Tenerife var lengi nokkuð virk eldstöð. Síðast gaus þar árið 1909 í gíg vestur af Teide fjallinu sem rís upp í 3.718 metra hæð. Teide er hæsta fjall Spánar og þar fellur gjarnan snjór. Dýpi er mikið fyrir utan eyjuna þannig að í raun er Teide tæplega 6.500 metra hátt, sé slíku viðmiði beitt! Tenerife býður upp á fjölbreytt náttúrufar og miðja eyjarinnar er fjöllótt sem gerir það að verkum að nóg er af vatni. Fjalllendið gerir eyjuna einnig eftirsótta fyrir göngu- og hjólreiðahópa. Á norðurhluta eyjarinnar er vætusamara og uppi í norðausturhorni hennar kúrir höfuðborgin Santa Cruz sem meðal annars státar af næst stærstu kjötkveðjuhátíð heims, næst á eftir Ríó í Brasilíu. Í Santa Cruz búa um 300.000 manns og þar er meðal annars háskóli. Á eyjunni allri eru um ein milljón íbúa en mikið er treyst á aðflutt vinnuafl. Til Tenerife koma ríflega 5 milljónir ferðamanna á ári og stendur ferðamennska undir rúmlega 60% af landsframleiðslu. Upp úr 2008 dró úr ferðamannastraumnum en það hefur jafnað sig.

Fyrir norðan Santa Cruz má sjá vísir að þéttum skógi og þar er annar af tveimur alþjóðaflugvöllum eyjarinnar. Þar varð árið 1977 eitt versta flugslys sögunnar sem dró mjög úr straumi ferðamanna. Síðar hófst uppbygging á suðurhluta eyjarinnar þar sem sólin er tryggari. Þar er nú aðalflugvöllur eyjarinnar og þotur lenda þar á nokkra mínútna fresti með sólþyrsta ferðamenn, flesta frá Norður-Evrópu en Spánverjar eru einnig duglegir að heimsækja Tenerife, sérstaklega yfir vetrartímann. Skandínavar og Bretar eru áberandi og víða má sjá þess merki í þjónustu, svo sem sænska kirkjan sýnir - og bresk steikhús!

Ströndin heillar

Sem gefur að skilja er vinsælast að spóka sig við ströndina og á Costa Adeje svæðinu eru margar vinsælar strendur svo sem Ameríska ströndin sem er vinsæl meðal Íslendinga og Los Cristianos en þar er ferjuhöfn og gamall bæjarhluti sem stingur í stúf við allar nýbyggingarnar í nágreninu. Eins og áður segir er veðurfar milt, þjónusta með ágætum og góðar verslanir þar sem verðlag er hagstætt. Það kostar ekki nema 12 evrur að láta klippa sig á Tenerife og verðlag nú einstaklega hagstætt fyrir Íslendinga sem þyrpast nú þangað.    

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.