c

Pistlar:

2. apríl 2017 kl. 21:41

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Græna ríkið Danmörk

Flestir sem fylgjast með viðskiptum og efnahagsmálum vita að Danir taka flestum fram þegar kemur að sölu- og markaðsmálum. Það á sér að hluta til sögulegar forsendur en Danmörk hefur frá fornu farið verið í þjóðleið á milli norðurs og suðurs og nýtt sér það á allan hátt. En um leið þá var Danmörk lengst af talin vera snauð af náttúruauðlindum. Rétt eins og á við um annað hugvitsamt samfélag, Japan, þá hefur verið lítið um vinnanlega málma úr jörðu eða námugröftur af neinu tagi. Það breyttist þegar Norðursjávarolían fannst og enn þann dag í dag eru Danir í 32 sæti olíuútflutningsþjóða. Þeir gera hins vegar ekki mikið í að hampa því og leggja nú áherslu á græna hlið orkuframleiðslu sinnar.

Líklega hefur skipt mestu í gegnum tíðina að Danir hafa séð sig knúna til að til að leita annarra ráða til að afla sér tekna. Danir hafa þannig reynst vera snillingar í að selja landbúnaðarafurðir sínar og það í heimi sem ekki verslar svo mikið með slíka framleiðslu. Einnig hafa þeir reynst frumlegir og útsjónarsamir þegar kemur að hönnun. Bang & Olufsen voru ekki endilega bestu hljómflutningstækin en tóku flestum fram í stíl og útliti. Það á við um fleiri vörur. En mestu skiptir viðleitni Dana til að markaðssetja og selja þjónustu af öllu tagi.

Græna ríkið

Góð lýsing á þessari nálgun Dana kom fram í erindi Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á morgunfundi sem fyrirtækið stóð fyrir síðastliðin miðvikudagsmorgun. Þar var fjallað um „State of Green” í Danmörku - græna ríkið eins og það er kallað. Það lýsir ágætlega þeirri áherslu sem Danir leggja nú á að nýta sér þær tæknibreytingar sem græn orka kallar á. Orkumarkaðurinn á heimsvísu er nú að ganga í gegnum gríðarlegar breytingar sem byggjast meðal annars á því, að í stað þess að skera upp náttúruna (sækja olíu, gas og kol) þá er unnið að því að sá og rækta með því að nýta sjálfbæra orkulindir eins og sól og vind. Dönsk fyrirtæki hyggjast standa í fararbroddi þegar kemur að grænni orkunýtingu og það birtist meðal annars í þessari áherslu á Græna ríkið Danmörku.

Orkutengdar vörur

Hörður benti á í erindi sínu að í dag séu orkutengdar vörur 20% af heildarútflutningstekjum Danmerkur. Þetta hlutfall hyggjast Danir hækka enn frekar og markmið þeirra er að efla sérstöðu sína á sviði sjálfbærra lausna. Drifkrafturinn er aukin verðmætasköpun og sjálfbærni. En þó að Danmörk geti ekki státað af miklum náttúruauðlindum þá versla þeir með slíkar. Það vekur til dæmis athygli hvað þeir eru duglegir að draga til sín gagnaver en við Íslendingar höfum mátt fylgst með því þegar risar tækniheimsins velja Danmörku, sem þó hvorki hefur orku né lóðir eins og við. En eitthvað hafa þeir.   Facebook-Denmark-data-center-rendering-e1484854522732

Gagnaverin til Danmerkur

Facebook greindi frá því í upphafi árs að fyrirtækið hyggist byggja gagnaver í Óðinsvé á Fjóni og Apple tilkynnti fyrir rúmu ári síðan að þeir ætluðu að byggja gagnaver í Herning á Jótlandi. Facebook keypti 508.000 fermetra land á 68 miljónir danskra króna eða ríflega einn milljarð króna. Í raun er um að ræða tvö aðskilin gagnaver með stjórnunarbyggingu á milli eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Erfitt er sjá nákvæmlega af fréttum hversu mikið Facebook fjárfestir í verkefninu, en til samanburðar má benda á að talið er að Luleå Datacentret í Svíþjóð hafi kostað Facebook 3,8 milljarða sænskra króna eða um 45 milljarða. Það munu starfa 1200 til 2000 manns á framkvæmdatíma í Óðinsvé og um 150 manns eftir að allt er komið í gang. Reynslan frá Luleå í Svíþjóð segir okkur að vænta megi þúsunda afleiddra starfa.

En af hverju ákvað Facebook að velja Danmörku? Jú, meðal annars vegna þess að þar er að finna örugga og umhverfisvæna orku. Einnig skipti miklu að innviðir fyrir fjarskipti og tækni eru sterkir, svo sem öflugar gagnatengingar. Þá voru danskir stjórnmálamenn vinveittir verkefninu en vissulega skiptir máli að í Danmörku er stöðugt samfélag, bæði í pólitísku tilliti og ekki síður efnahagslegu. Gagnaverið í Danmörku er aðeins það þriðja sem Facebook reisir utan Bandaríkjanna en fyrirtækið hefur gefið sterk fyrirheit um að gagnaver þeirra verði knúin með hreinni umhverfisvænni orku. Fyrir utan verið í Luleå er eitt fyrir í Clonee á Írlandi. Hér er því um að ræða nokkuð kröfuharðan kaupanda. Því miður hefur Ísland ekki enn komist á kortið hjá þeim þó við ættum að geta uppfyllt flestar þarfir þeirra.

Ekki er að sjá að sérstakir fjárfestingasamningar hafi verið gerðir vegna gagnaversins í Óðinsvé en danskir ráðamenn létu sér annt um að ná samningum við Facebook. Gert er ráð fyrir að gagnaverið hefji starfsemi sína árið 2020.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.