c

Pistlar:

9. apríl 2017 kl. 18:15

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Laskað bankakerfi hrjáir Ítali

Það er erfitt að halda því fram að efnahagur Ítalíu sé beinlínis heilbrigður. Það væri nær að segja að hann sé hrjáður af langvarandi uppdráttarsýki sem hefur verið viðvarandi í ítölsku efnahagslíf allt síðan evran kom til sögunnar. Á þeim tíma hefur landsframleiðsla á mann á Ítalíu dregist saman. Nú er staðan þannig að opinberar skuldir eru komnar upp í 134% af vergri landsframleiðslu (VFL). Til samanburðar eru heildarskuldir hins opinbera hér á landi 60% af VLF sem er um 30 prósentustigum lægra en meðaltal Evrópusambandsríkjanna. Það þýðir um leið að skuldir Ítala eru tæplega 45 prósentustigum hærri en meðaltal ESB. Það er ekki til að bæta ástandið að Ítölum fækkaði á milli ára en þeir eru um 60 milljónir talsins, 71% Ítala býr nú í borgum.

En stöðnun efnahagsins hefur komið auknu róti á ítalskt stjórnmálalíf sem var ekki stöðugt fyrir en landinu er nú stýrt af 63 ríkisstjórninni síðan heimsstyrjöldinni síðari lauk. „Ítalía er ekki annað en hugtak úr landafræðinni,” sagði austurríski kanslarinn Metternich á 19. öld og þó landið hafi sameinast í framhaldi þess þá hefur skort á að eining fylgi sameiningu. Aðild að Evrópusambandinu hefur ekki reynst sú lækning sem menn sáu fyrir sér og þá allra síst myntsamstarfið. Í dag er það stefna helsta stjórnarandstöðuflokksins, Fimm stjörnu flokksins, (i.Movimento 5 Stelle (M5S)) að hætta í evrusamstarfinu. Rétt eins og Björt framtíð hér heima á Íslandi var M5S stofnað af grínara en er nú í lykilstöðu, meðal annars með borgarstjóra í Róm og Tórínó. „Haldið fyrir nefið og kjósið Kristilega lýðræðisflokkinn,” sagði ítalski blaðamaðurinn Indro Montanelli árið 1976 en þótt Kristilegi lýðræðisflokkurinn hefði verið alræmdur fyrir spillingu, taldi Montanelli skárra að kjósa hann en ítalska kommúnistaflokkinn sem þá sótti á. Frekar spillingu en kommúnista, hugsuðu margir Ítalir en mörgum fannst það eitt og sér að halda þeim frá stjórn landsins ásættanlegt markmið. Montanelli var síðan særður illa ári síðar af Rauðu herdeildinni (Brigate Rosse) sem hafði kommúnískan bakgrunn.  

En þar sem Ítalía er fjórða stærsta hagkerfi ESB þá fylgjast ráðamenn í Brussel grannt með og er ekki skemmt yfir þróun mála. Næst á eftir Grikklandi er Ítalía líklegast til að lenda í hremmingum með sitt laskaða bankakerfi.SAM_0097 (1)

Laskað bankakerfi

„Það er ekki ómögulegt að stýra Ítölum en stundum virðist það fjarska tilgangslítið,” var einu sinni haft eftir Benito Mussolini. Frá 2011 hefur jafnt og þétt dregið úr viðnámsþrótti ítalsks efnahagslífs. Uppdráttarsýkin birtist skýrast í löskuðu bankakerfi. Ítölsku bankarnir eru fullir af vondum lánum sem hafa ekki verið afskrifuð en lánin skila bönkunum litlum tekjum. Á síðasta ári birtust tölur um að vond lán ítalskra banka næmu á milli 150 til 200 milljörðum evra. Sumir telja þær tölur byggjast á vanáætlun. Ítalir hafa þverskallast við að taka til í efnahagsmálum sínum en við blasir að ráðast þarf í miklar tiltektir í ítalska bankakerfinu. Aukning skulda virðist stefna í að gera efnahagskerfið ósjálfbært. Talið er að skuldir hins opinbera, heimila og viðskiptalífs nemi nú um 260% af VLF. Þessi tala hefur hækkað um 55% síðan 2007. Eins og í öðrum Evrópusambandsríkjum þá ýta menn vandanum á undan sér á meðan skuldir halda áfram að aukast. Í Grikklandi reyndist lausnin að auka skuldir þegar efnahagsáfallið dundi yfir og margir óttast að sama hlutskipti bíði Ítala.006

Tveir skattheimtumenn

Það er skemmtileg og kröftug upplifun að koma til Ítalíu. „Bella Italia” segja margir aðdáendur og undir það er hægt að taka. Sá er þetta skrifar komst fyrst í snertingu við Ítalíu þegar ég vann part úr sumri með ítalskri stúlku sem hér var skiptinemi sumarið 1981. Þrátt fyrir ungan aldur var hún ansi fræðandi um það sem hún kallaði ítalska hugsanagang (ítalian way of thinking) sem meðal annars birtist í ótrúlegri þolinmæði gagnvart spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi en faðir hennar starfaði sem verkfræðingur í verktakaiðnaðinum og hún þekkti því vel til. Fyrsta heimsóknin til Ítalíu var þegar ég fór þangað sem íþróttafréttamaður og fylgdist með Valsmönnum etja kappi við ítölsku meistarana Juventus í Tórínó í september 1986. Valur tapaði 7-0 í jöfnum leik (!) þar sem Michael Laudrup skoraði þrjú mörk en samtals skoraði hann fimm  mörk gegn Valsmönnum í leikjunum tveimur sem þeir töpuðu 11-0 samtals. Á þeim tíma var Juventus - Gamla konan eins og liðið er kallað - stórveldi í evrópskri knattspyrnu. Minnistætt var þegar við fengum uppgjör á hótelreikningunum sem tók síðan nokkra tíma að greiða úr enda margt tínt til. Hinn dagfarsprúði þjálfari Valsmanna, Ian Ross, vandaði Ítölum ekki kveðjurnar. En síðan hafa heimsóknirnar verið margar til Ítalíu og alltaf ánægjulegar.

Þrátt fyrir að hvað eftir annað hafi verið ráðist að glæpastarfseminni og þeirri spillingu sem þrífst í skjóli hennar er talið að þetta kosti ítalskt samfélag sem svarar 60 milljörðum evra á ári í tapaðar tekjur. Ítalía er meðal þeirra ríkja Evrópu þar sem verst gengur að innheimta skatt. Á sumum svæðum Ítalíu eru tveir skattheimtumenn, ríkið og mafían. Reynslan kennir mönnum að það er sársaukaminna að skulda ríkinu en mafíunni. Eftir því sem sunnar dregur og lengra verður til Rómar, því meiri verða áhrif mafíunnar og Norður Ítalir segja að svæðið fyrir sunnan Napolí sé frekar hluti af Afríku en Ítalíu. Mezzogiorno kalla Ítalir suðrið eða hádegið, til að minna á að þar er annað tímaskyn. En landið er fagurt, fólkið indælt og maturinn óviðjafnalegur. „Þekkirðu land, þar sem gul sítróna grær,” orti Goethe og margir af fremstu listamönnum okkar Íslendinga hafa sótt til Suður Ítalíu, þar frægastir líklega Halldór Kiljan Laxness og Jóhannes Kjarval. Fegurðin getur réttlætt ýmislegt þó það hafi ekki mildað afstöðu ESB sem meira og minna hefur skrúfað fyrir innviðafjárfestingu í suðrinu þar sem peningarnir tíndust yfirleitt hvort sem er. En eitthvað gera Ítalir rétt og þeir státa af miklu langlífi, væntanlega má þakka ólífuolíunni það!

Samkeppnishæfni atvinnulífsins skert

Hæsta tekjuskattsþrepið á Ítalíu er 43% og fyrirtækjaskatturinn er 27,5%. Heildarskattbyrðin er nálægt 45% en ríkissjóður er rekin með ríflega 3% halla sem reynir á þolinmæði Brusselvaldsins. Alþjóðabankinn gefur samkeppnishæfni ítalsks atvinnulífs falleinkunn. Skrifræði mikið og til dæmis tekur langan tíma að ljúka allri pappírsvinnu. Stofnun fyrirtækis getur tekið nokkur ár og vinnumarkaður ósveigjanlegur.

En á Norður Ítalíu er mikil iðnaðarhefð og þungaiðnaður hefur leikið stórt hlutverk í efnahagslífi landsins. Hönnun og tískuvörur eru áberandi og aukin eftirspurn í heiminum eftir slíkum vörum hefur hjálpað til. Margir vilja eignast ítalskar tískuvörur og útflutningur landinu mikilvægur. Á sama tíma hefur annar iðnaður gefið eftir. Ítalir hafa frá fornu fari framleitt mikið af eldhústækjum (hvíta vöru) en slík framleiðsla hefur dregist mikið saman og færst til svæða þar sem vinnuafl er ódýrara. Um 50 milljónir manna heimsækja Ítalíu árlega og landið er í fimmta sæti yfir ferðamannalönd. Ferðaþjónustan er sú iðngrein sem vex hvað hraðast þar rétt eins og hjá okkur Íslendingum. Þar sem hér eru vaxtaverkir því samfara en stór hluti fornminja heimsins er þar að finna og því ýmislegt forvitnilegt að skoða auk þess sem matar- og vínmenning Ítala er rómuð.  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.