c

Pistlar:

30. júní 2017 kl. 15:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Mýtur um sjávarútveginn

Aðeins er áratugur síðan blikur voru á lofti í sjávarútvegi hér á Íslandi og aflaheimildir voru skertar verulega í þorski og fleiri tegundum. Á þeim tíma urðu stjórnvöld að bregðast við með kröftugum hætti og er óhætt að segja að ákvarðanir þáverandi ríkisstjórnar, undir forsæti Geirs H. Haarde hafi reynst farsælar. Eitt fyrsta verkefni nýrrar ríkisstjórnar þá var að takast á við þau ótíðindi sem bárust skömmu eftir að hún tók við og tengdust slæmu ástandi þorskstofnsins. Hafrannsóknastofnun lagði til verulegan niðurskurð á þorskaflanum og öllum var ljóst að áhrifin yrðu gríðarlega mikil, einkum fyrir útgerðir og einstök byggðarlög.

Einar K. Guðfinnsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, tók þá ákvörðun, með fullum stuðningi ríkisstjórnarinnar, að fara að tillögum vísindamannanna en að baki bjó sú von að hún myndi leiða til hraðari uppbyggingar þorskstofnsins en ella hefði verið. Samhliða niðurskurðinum ákvað ríkisstjórnin að ráðast í umfangsmiklar mótvægisaðgerðir til þess að draga úr búsifjum af hans völdum. Landsmenn gerðu ekki ágreining þá við það að þeir sem þá tóku á sig aflaskerðingu fengju  notið ávaxtanna þegar stofninn styrkist á nýjan leik.

Segja má að nú séum við að uppskera og hefur til dæmis verið ákveðið að auka þorskkvótann um 6% á næsta fiskveiðiári. Ljóst er að fiskveiðistjórnunarkerfið hefur sannað gildi sitt þvert á það sem margir halda fram. Og þá má horfa til þess að hér á landi er farið eftir ráðleggingum Hafrannsóknarstofnunar, öfugt við það sem tíðkast í Færeyjum.utvegur

En þetta minnir okkur á að í umræðu um sjávarútvegsmál lifa ýmiss konar mýtur eða goðsagnir sem ekki eiga við rök að styðjast. Dr. Ásgeir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands og deildarforseti hagfræðideildar HÍ, kom inn á þetta í erindi sínu á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á dögunum. Erindið kallaði hann „Sex mýtur um sjávarútveg“. Við skulum aðeins fara yfir það hvað Ásgeir rakti þar.

Gróði og tæknistig

Mýta 1: Ekki er annað hægt en að græða á sjávarútvegi.

Ásgeir sagði að hagnaður í sjávarútvegi væri algerlega háður núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi, frjálsu framsali af aflaheimil og frjálsri ráðstöfun aflans. Því til staðfestingar birti hann graf sem spannar tímabilið 1980-2014 og skýrir sig sjálft en þar kemur fram hin gríðarlega breyting sem orðið hefur á afkomu í greininni síðan kvótakerfið kom til sögunnar.

Mýta 2: Sjávarútvegur er lágtækni frumframleiðslugrein með sífellt minnkandi vægi í íslensku hagkerfi.

Svar Ásgeirs er það að sjávarútvegur sé helsti brimbrjótur tækniframfara og nýsköpunar í íslensku hagkerfi. Greinin hafi verið uppspretta ýmissa tækninýjunga og margir hliðarsprotar vaxið frá henni. Eftir því sem hefðbundnum störfum í veiðum og vinnslu hafi fækkað hafi hliðarstörfum fjölgað. Sami tonnafjöldi hafi skapað aukin verðmæti á föstu gengi. Til viðbótar þessum orðum Ásgeirs má benda á að sjávarútvegurinn er sú atvinnugrein á sem státar af mestri framleiðni eins og kom fram í skýrslu McKinsey frá árinu 2012.

Óstöðugleiki

Mýta 3: Sjávarútvegur er óstöðug grein sem skapar þjóðhagslega áhættu.

Ásgeir bendir á að ef litið er á sjávarútveg sem eina heild sé ljóst að það hefur heppnast að ná merkilegum stöðugleika þótt gangurinn sé misjafn milli afurðaflokka og gengi einstakra fyrirtækja sé á ýmsa vegu. Staðreyndin er sú að síðasta aldarfjórðung hefur sjávarútvegur verið aflvaki stöðugleika í íslensku hagkerfi. Greinin hefur veitt mikilvægan bakstuðning í síðustu tveimur niðursveiflum þegar landsmenn hafa verið að prófa sig áfram með nýjar atvinnugreinar. Svo mun einnig verða í næstu niðursveiflu, segir Ásgeir. Þetta sést ágætlega nú þegar verið er að auka aflamark á ný.

Gengisfellingar

Mýta 4: Sjávarútvegur er háður íslensku krónunni og vælir út gengisfellingar.

Ásgeir svarar því til að gengi krónunnar hafi hreyfst óháð sjávarútvegi frá síðustu gengisfellingunni árið 1993. Sjávarútvegur sé vel í stakk búinn til þess að takast á við gengissveiflur vegna hlutaskiptakerfisins og öflugs alþjóðlegs markaðsstarfs. Útgerðin hagnist á lágu gengi en útgerðarmenn bíði ekki lengur eftir gengisfellingum til að laga reksturinn – þeir hagræði, sem vissulega geti verið sársaukafull. Krónan þurfi á sjávarútveginum að halda – en ekki öfugt. En um leið má spyrja hvort þjóðfélagsumræðan sé tilbúin að takast á við hagræðingu eins og sást skýrt vegna breytinga á rekstri Granda á Akranesi.

Samþjöppun

Mýta 5: Samþjöppun í sjávarútvegi má alfarið rekja til kvótakerfisins og hefur komið landsbyggðinni á kaldan klaka.

Þessu svarar Ásgeir á þessa lund: Frjálst framsal aflaheimilda, frjálsir fiskmarkaðir og malbikaðir vegir hafa gert landið að einu markaðsvæði fyrir fisk. Betur rekin sjávarútvegsfyrirtæki hafa keypt út hin lakari og fiskvinnsla hefur safnast saman í iðnaðarkjörnum. Það er áfall fyrir einstakar byggðir að missa frá sér aflaheimildir en samkeppnishæfur sjávarútvegur er þó forsendan fyrir samkeppnishæfum lífskjörum úti á landi. Einu hálaunastörfin á landsbyggðinni eru einmitt í sjávarútvegi.

Mýta 6: Hægt er að fjármagna heilbrigðiskerfið og jafnvel menntakerfið með hærra auðlindagjaldi.

Ásgeir svarar að sjávarútvegur greiði rúma 20 milljarða til ríkisins á ári sem auðlindagjald, tekjuskatt og tryggingagjald. Skattar starfsmanna eru ekki innifaldir í þeirri tölu. Hvað sem fólki finnist um auðlindagjald sé ljóst að það leysi ekki úr fjárvanda heilbrigðiskerfisins.

Frá grátkór til greifa

En umræðan um sjávarútveg virðist alltaf hafa verið heldur neikvæð. „Sú var tíðin að talað var um grátkór útgerðarmanna og hagstjórn á Íslandi snerist um reddingar og gengisfellingar til þess að „bjarga“ sjávarútveginum,“ sagði Ásgeir og bætir við: „Nú snýst umræðan um kvótagreifa og hvernig hægt sé að skattleggja greinina. Þetta er jákvæð breyting – allir ættu að geta glaðst yfir þeim frábæra árangri sem náðst hefur í sjávarútvegi. En þessi árangur er ekki sjálfsagður. Staðreyndin er sú að fyrir hverjar kosningar frá 1991 hefur skapast ótti um að kerfinu verði umbylt og virðiskeðjum greinarinnar sundrað.“

Öllum má vera ljóst að fiskveiðistjórnun er löguð að aðstæðum í hverju landi. Eða eins og Óli Samró, færeyskur viðskiptafræðingur og sjálfstæður ráðgjafi í sjávarútvegsmálum, segir í Morgunblaðinu í dag:  „Engin stjórnun er eins, og engin er rétt eða röng, því allt fer þetta eftir því hvaða markmið stjórnir landanna setja.“

 

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.