c

Pistlar:

30. ágúst 2017 kl. 21:17

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Að vera smart í Eistlandi

Eystrasaltsríkið Eistland endurheimti sjálfstæði sitt 1991 en fagnar eigi að síður 100 fullveldi á næsta ári. Eistar fengu fullveldi 1918, sama ár og Íslendingar, en urðu leiksoppur valdamikilla nágranna og enduðu sem hluti af Ráðstjórnarríkjunum sálugu allt þar til sviptingar í heimsmálum gerðu þeim kleift að endurheimta sjálfstæði sitt. Þeir rifja þó gjarnan upp að útlagastjórn starfaði allan ráðstjórnartímann og því hafi aðeins orðið hlé á formlegu sjálfstæði landsins. En hér er ekki ætlunin að fjalla um sagnfræði né stjórnmálafræði sem var tæpt á hér í pistli fyrir skömmu. Það bíður betri tíma. Þess í stað verður fjallað um þær áherslur sem Eistar hafa í upplýsingatæknimálum. Að vera „smart” í Eistlandi hefur þá merkingu að vera hluti af tækniiðnaðinum sem Eistar telja nú eitt helsta einkenni samfélags síns. Á vegum bandaríska viðskiptatímaritsins Fortune er dreift myndbandi þar sem áhorfendur eru spurðir að því hvort þeir hafi vitað að Eistland sé tæknistórveldi (Did you know Estonia is a tech powerhouse?) Þar er hlaupið stutt yfir söguna en umfjöllunin ein og sér segir sitt. Eistar hafa vakið athygli umheimsins fyrir áherslu sína í upplýsingatæknimálum.20170824_145754

Upplýsingatæknisamfélagið

Frá því sjálfstæðið var endurheimt hafa eistnesk yfirvöld lagt gríðarlega áherslu á að færa landið inn í nútímann og líta svo á að besta leiðin til þess sé að leggja áherslu á nýjustu tækni. Landið er jú til þess að gera fámennt (1,3 milljón íbúa) og náttúruauðlindir fáar. Upplýsingasamfélagið (e-society) varð þannig til og fjarskipta- og upplýsingatækniinnviðir eru í dag með því besta sem þekkist og árið 2000 var aðgangur að netinu skilgreind sem grundvallarmannréttindi í Eistlandi. Lögð er áhersla á að grípa allt það nýjasta og þessa daganna eru til dæmis fulltrúar eistneskra stjórnvalda að undirrita samning um að hefja undirbúning að því að setja upp hyperloop-tengingu við Helsinki en á milli Tallinn og Helsinki eru ríflega 80 km og finnski flói á milli. Í dag eru hraðskreiðar ferjur um eina klukkustund og 45 mínútur á milli en í hyperloop yrði ferðatíminn nokkrar mínútur. Það eru reyndar ekki nema örfáar vikur síðan greint var frá því að skoða ætti þróun á hyperloop á milli Washington og New York þannig að Eistar eru snemma á ferðinni. En hvað er hyperloop? Jú, það er einhverskonar segulsvifstækni (e. magnetic levitation) þar sem segulsvið yrði notað til að knýja farartækið áfram. Nú þegar hefur slík tækni  verið notuð við háhraðalestir í Japan og Kína, sem ná um 500 km hraða á klukkustund, en fræðilega (og jafnvel tæknilega) séð mun vera unnt að ná enn meiri hraða með segulsvifi. Jafnvel svo að það sé sambærilegt við þotuhraða.20170827_130151

Skora hátt í Pisa-könnunum

Eistar hafa einnig ákveðið að taka sjálfkeyrandi bílum og gervigreind opnum örmum og eru þegar farnir að þróa og breyta vegakerfi landsins þannig að það standist kröfur fyrir sjálfkeyrandi bíla. Skólakerfið hefur lagt áherslu á að efla tækni og vísindi og Eistar eru í efsta sæti Pisa-könnunarinnar á því sviði. Sem dæmi um tæknivæðingu samfélagsins má nefna að það vekur athygli ferðalanga að nánast enga lögregluþjóna er að sjá á götum Tallinn. Um borgina er hins vegar þéttriðið net öryggismyndavéla sem er vel vaktað og gerir lögreglunni kleyft að grípa skjótt inní sé þess þörf. Heimamenn fullyrða enda að glæpum fari mjög fækkandi.

En stjórnvöld hafa einnig lagt áherslu á að skapa fyrirtækjum gott rekstrarumhverfi og á þann hátt draga erlenda fjárfesta inn í landið. Lögð hefur verið áhersla á einfalt skattkerfi og skjótvirkt. Einfalt á að vera að stofna fyrirtæki og utanumhald að mestu rafrænt. (Eistar segja að það sé tímafrekast að velja fyrirtækinu nafn þegar það er skráð!) Eistland er í efstu sætum á lista Alþjóðabankans yfir þau lönd þar sem viðskiptaumhverfið er hagstætt (World Bank’s Ese of Doing Business Index). Engir skattar eru á uppsafnaðan hagnað félaga, söluhagnað né arð. Fyrirtækjaskattur er 21% og greiðist aðeins af útgreiddum hagnaði.  

Nýleg skýrsla PWC um viðskiptaumhverfi í Eistlandi er lofsamleg. Bent er á að viðskiptafrelsi í Eistlandi er með því hæsta sem þekkist í heiminum. Viðskiptafrelsi, mælt samkvæmt Heritage Foundation, (Index of Economic Freedom) setur Eistland í 9. sæti af 178 löndum. Áðurnefndur mælikvarði Alþjóðabankans setur Eistland í 12. sæti. Samkvæmt Transparency International (Corruption Perception Index 2016) er Eistland það land austur- og mið-Evrópu sem býr við hvað minnsta spillingu. Síðan 1. janúar 2011 hefur evran verið gjaldmiðill Eistlands.

Öryggismál mikilvæg

Sem gefur að skilja eru öryggismál ofarlega á blaði hjá Eistum. Þeim hefur verið umhugað um að hnýta sterk bönd við Vestur-Evrópu. Eistar eru meðlimir í NATO og ESB og um þessar mundir eru hersveitir frá NATO með fasta viðveru í landinu. Nú um miðjan september verða Rússar með mikla heræfingu meðfram landamærunum og spennan eykst við það. Eistar og hinar Eystrasaltsþjóðirnar hafa sóst eftir auknum samskiptum við Norðurlönd og hafa væntingar um að geta formlega orðið hluti af norrænu samstarfi. Allt til að geta sofið betur vegna nágrannans í austri.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.